Evrópusambandið hefur tilkynnt um umsóknarfresti Erasmus+ sem verða í boði árið 2026. Alls mun Landskrifstofan á Íslandi geta úthlutað yfir 16 milljónum evra til ferða og samstarfs í menntamálum, æskulýðsmálum og íþróttum á árinu.
Þetta er í sjötta sinn sem auglýst er eftir umsóknum í Erasmus+ á tímabilinu og að þessu sinni mun Landskrifstofan geta styrkt verkefni um rúmlega 12,5 milljónir evra í menntahluta Erasmus+ og 4 milljónir evra í æskulýðshlutanum. Auglýst er eftir umsóknum um verkefni til náms og þjálfunar, en þau styðja nemendur, kennara, starfsfólk og ungmenni við að afla sér reynslu og þekkingar á erlendri grundu. Einnig er kallað eftir umsóknum um samtarfsverkefni, sem leiða saman stofnanir og samtök í ólíkum löndum til að stuðla að nýbreytni og vinna að forgangsatriðunum fjórum: inngildingu, sjálfbærni, stafrænni þróun og virkri þátttöku í samfélaginu.
Erasmus+ er ætlað að styðja þátttökulöndin við að byggja upp evrópskt menntasvæði og uppfylla æskulýðsstefnu Evrópusambandsins til ársins 2027 á grundvelli samevrópskra gilda eins og mannréttinda, frelsis og lýðræðis. Á umsóknarárinu framundan er einnig undirstrikuð tenging Erasmus+ við bandalag um færni í Evrópu (e. Union of Skills) og viðbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (e. Preparedness Union Strategy). Þá hafa forgangsatriði samstarfsverkefna verið einfölduð og samræmd milli markhópa.
Helsta nýjung umsóknarársins er nýr umsóknarflokkur á sviði leik-, grunn- og framhaldsskóla: Samstarfsverkefni um skólaþróun (European Partnerships for School Development). Um er að ræða nýja gerð verkefna þar sem menntayfirvöld og skólar víðsvegar um Evrópu geta tekið höndum saman um að miðla góðum starfsháttum og þróa nýstárlegar kennsluaðferðir með það að markmiði að efla símenntun kennara, auka aðdráttarafl kennarastarfsins og bæta gæði kennslu og náms almennt.
Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi hvetur umsækjendur hér á landi til að kynna sér vel þá styrkmöguleika sem í boði eru. Sérstaklega skal bent á ráðleggingar Landskrifstofu varðandi val á samstarfsaðilum. Einnig skal hafa í huga að einstaka stofnanir geta tekið þátt í mest 10 umsóknum um stærri samstarfsverkefni og fimm umsóknum um smærri samstarfsverkefni, en þetta á ekki við um háskólahluta.
Við hvetjum umsækjendur einnig til að kynna sér inngildingarstefnu Landskrifstofunnar, huga að inngildingu í verkefnum sínum og minnum á að hægt er að sækja um inngildingarstyrki fyrir ýmsum ólíkum þáttum til að tryggja jafnt aðgengi að verkefnum.
Þau sem hafa spurningar um umsóknarferlið eru eindregið hvött til að hringja eða skrifa tölvupóst til viðkomandi verkefnastjóra. Ennfremur eru umsækjendur hvattir til að taka þátt í hinum ýmsu kynningarviðburðum sem Landskrifstofa stendur fyrir víða um land og á netinu á komandi vikum og mánuðum.
Umsóknarform verða gerð aðgengileg á Erasmus+ torginu á næstunni og hægt er að sjá hvernig þau líta út á síðu framkvæmdastjórnar ESB.
Nánari upplýsingar:
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.