Inngilding (e. inclusion) felur í sér að fólki sem annars væri útilokað eða jaðarsett séu veitt jöfn tækifæri og úrræði til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Inngilding skiptir máli vegna þess að án inngildandi hugarfars hefðu ákveðnir hópar ekki færi á þeirri upplifun sem þátttaka í verkefnum áætlunarinnar veitir. Þessir hópar einstaklinga eru af einhverjum ástæðum, einni eða fleiri, ólíklegri til að sækja um styrk eða eiga erfiðara um vik að taka þátt í verkefnum sem ekki eru skipulögð með þarfir þeirra í huga. Ólíkir þættir líkt og líkamleg og andleg geta, kyn, kynhneigð, trú, uppruni, kynþáttur, staða o.s.frv. eiga ekki að koma í veg fyrir jöfn tækifæri í samfélaginu.
Markmið Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi er að opna huga fólks og auka víðsýni þess. Með þessari stefnu er ósk okkar sú að starfsfólk Landskrifstofu, umsækjendur og styrkþegar átti sig á mikilvægi inngildingar og fjölbreytileika í lífi og starfi. Þannig stuðli hún að því að inngilding verði að eðlilegum og hverdagslegum hluta í lífi og hugarfari fólks í íslensku samfélagi.
Inngilding (e. inclusion) er lykilþáttur í stefnu Erasmus+ og European Solidarity Corps sem Landskrifstofan vinnur eftir. Markmið Landskrifstofu er að stuðla að því að unnið sé eftir sömu gildum í verkefnum sem áætlunin styrkir á Íslandi og í samvinnu við íslenska aðila. Landskrifstofa Erasmus+ starfar innan Rannsóknamiðstöðvar Íslands sem er opinber stofnun. Í því hlutverki telur Landskrifstofan mikilvægt að sýna samfélagslega ábyrgð og stuðla að því að tækifærin sem Erasmus+ og European Solidarity Corps bjóða upp á séu opin og aðgengileg öllum. Í Evrópustefnunni er taldir upp níu ólíkir flokkar sem ná yfir ástæður sem geta réttlætt aukinn stuðning við þátttakendur.
Skortur á sýnileika fólks úr viðkvæmum hópum í íslensku samfélagi gerir það að verkum að einstaklingar sem tilheyra hópnum átta sig oft ekki á þeim tækifærum sem þeim stendur til boða í gegnum áætlanirnar, eða gera ekki tilkall til þeirra vegna þess að þau telja tækifærin ekki eiga við um þau sjálf. Á sama tíma geta verkefnisstjórar verið ómeðvitaðir um hvaða þættir í skipulagningu verkefna geta verið útilokandi fyrir einstaklinga úr ákveðnum hópum eða stuðla ekki að fullri þátttöku þeirra.
Á Íslandi er engin alhliða stefna um inngildingu en lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu tóku gildi 1. september 2018. Með þessi lög, ásamt lögum um jafna stöðu kynjanna, að leiðarljósi telur Landskrifstofan mikilvægt að inngilding sé fléttuð inn í starf skrifstofunnar og verkefni á vegum áætlunarinnar á virkari hátt.
Samkvæmt kortlagningu Landskrifstofunnar árið 2021 hafa ákveðin atriði verið merkt sem sérstakir áhersluþættir:
Á Íslandi er algengara en gengur og gerist sunnar í Evrópu að fólk stundi nám eftir að það eignast börn, eða að einstæðir foreldrar stundi nám1. Mikilvægt er að þessi hópur fái sömu tækifæri og aðrir nemendur til að taka þátt í áætluninni. Vegna framfærslukostnaðar geta þessir einstaklingar upplifað að dvöl erlendis sé ekki á færi þeirra. Til þess að tryggja að þessi hópur taki þátt er mikilvægt að koma upplýsingunum á framfæri um þá styrki og þátttökumöguleika sem standa hópnum til boða.
Fjöldi fólks af erlendum uppruna hefur aldrei verið meiri á Íslandi en í dag eru u.þ.b. 22% þeirra sem hér búa innflytjendur, önnur kynslóð innflytjenda og fólk með eitt erlent foreldri2. Rannsóknir benda til að fólk af erlendum uppruna hafi ekki sömu tækifæri á vinnumarkaði á Íslandi, jafnvel þegar menntunarstig þeirra er hátt, og að upplýsingamiðlun til hópsins sé almennt ábótavant.3 Til þess að tryggja inngildingu þeirra í verkefnum áætlunarinnar er mikilvægt að styrktækifærum sé komið á framfæri við þau, upplýsingar séu aðgengilegar á fleiri tungumálum en á íslensku og að kynningarefni endurspegli fjölbreyttan markhóp. Auk þess er mikilvægt að verkefnisstjórar séu meðvitaðir um fjölbreytileika þátttakenda og að þörfum fólks með ólíkan bakgrunn sé mætt í verkefnum til að tryggja virka þátttöku þeirra.
Nýlegar rannsóknir á Íslandi sýna fram á erfiða stöðu fólks sem fellur undir NEET hópinn (e. not in education, employment or training). Í þessum hópi er hlutfallslega hátt hlutfall ungra einstæðra foreldra, ungra karla og ungs fólks með erlendan bakgrunn, þá sérstaklega ungra kvenna með innflytjendabakgrunn. Það er mat Landskrifstofunnar að erfitt hafi reynst að ná til þessa hóps hingað til en að þátttaka hans í verkefnum áætlunarinnar gæti stuðlað að aukinni virkni hans í samfélaginu. Markmið Landskrifstofu er að auka sérstaklega upplýsingagjöf til að ná til þessa hóps.4
Inngildingarstefnur hafa lengi miðað að því að auka tækifæri fólks með fatlanir og þótt áhersla hafi verið lögð á það í einhvern tíma að virkja það og samtök þess á Íslandi má gera mun betur. Í ljósi þeirrar vitundarvakningar sem hefur átt sér stað um andlega heilsu telur Landskrifstofa nauðsynlegt að vekja sérstaka athygli á þeim stuðningi sem áætlunin býður upp á vegna andlegra veikinda. Nýlegar rannsóknir á Íslandi sýna fram á erfiða stöðu fólks með fatlanir, en úr þeim hópi eiga tæplega átta af hverjum tíu erfitt eða frekar erfitt með að ná endum saman. Sömuleiðis standa einstæðir foreldrar með fötlun og einhleypt fatlað fólk höllum fæti fjárhagslega. Mörg þeirra finna fyrir félagslegri einangrun og meirihluti finnur fyrir fordómum.5 Markmið Landskrifstofu er að auka upplýsingagjöf til þessa fólks og styðja betur við þau sem hafa áhuga á að taka þátt í áætluninni.
Vegna landfræðilegrar legu eiga Íslendingar almennt erfiðara um vik að ferðast milli landa en þátttakendur frá öðrum löndum Evrópu. Í mörgum tilvikum eru engin bein flug í boði og því verður oft að millilenda eða taka lest seinni hluta leiðarinnar. Þetta gerir það að verkum að ferðatími til og frá Íslandi er oft langur.
Auk þessa eru vegalengdir innanlands og fjarlægðir milli þéttbýliskjarna yfirleitt miklar, almenningssamgöngur af skornum skammti og margir vegir varasamir um vetur. Þótt stundum sé boðið upp á millilandaflug frá Akureyri og Egilstöðum fer flest alþjóðleg flugumferð um Keflavíkurflugvöll. Þar sem innanlandsflug fer um flugvöllinn í Reykjavík, og er kostnaðarsamt, upplifa margir þátttakendur frá landsbyggðinni tímafrek og dýr ferðalög sem hindrun til þátttöku.
Þetta getur einnig gert það að verkum að þau sæki síður um styrki þar sem þau telja þá ekki eiga við um sig, eða telja möguleika sína á að komast í verkefni takmarkaðri en íbúa höfuðborgarsvæðisins. Markmið Landskrifstofu er að koma á framfæri auknum ferðastyrkjum og huga sérstaklega að landsbyggðinni í kynningarmálum.
Inngilding skal ávallt vera rauður þráður sem Landskrifstofa Erasmus+ vinnur eftir. Stefna Landskrifstofu er sú að eftir fimm ár muni sjást mælanleg aukning á áherslum á inngildingu í fjölbreyttum hópi þátttakenda og á fjölda inngildingarverkefnum. Landskrifstofa stefnir að því að auka vitund styrkþega um mikilvægi inngildingar og fjölbreytileika í þeirra starfi og benda á styrkjamöguleika til að auðvelda þátttöku í Erasmus+ og European Solidarity Corps.
Aðgerðaráætlun skal uppfærð af inngildingarteyminu árlega. Stefnan skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og uppfærð eftir þörfum.
Inngildingarteymi samanstendur af inngildingarfulltrúa og inngildingarteymi. Æskilegt er að inngildingarteymi sé skipað starfsfólki úr ólíkum teymum Landskrifstofunnar.
Markmið inngildingarstefnu Landskrifstofu Erasmus+ er að hafa góð áhrif á almennt starf stofnunarinnar (Rannís), enda eigi starfsmannastefna og jafnréttisstefna Rannís að taka mið af inngildingu.
Hvetja skal til reglulegrar og skilvirkrar fræðslu á sviði inngildingar, með viðeigandi fræðsluaðilum. Slík fræðsla skal ná til alls starfsfólks stofnunarinnar.
Kynningarefni og textar séu inngildandi. Allt efni sé aðgengilegt á vefsíðum stofnunarinnar og aðgengi miði við tæknilausnir hvers tíma. Efni sé uppfært eftir því sem við á.
Margt fólk veit ekki af tækifærum sem felast í Erasmus+ og ESC. Landskrifstofa ætti að vera meðvituð um það í hvívetna. Landskrifstofa skal kynna tækifærin fyrir verkefnisstjórum annars vegar og þátttakendum hins vegar. Ekki má gera ráð fyrir því að fólk sem mætir hindrunum í samfélaginu taki þátt í almennum kynningum um Erasmus+ og því þarf Landskrifstofa að leitast við að ná til þess með öðrum leiðum eins og við á. Huga ber einnig að kynningum fyrir samfélagið í víðara samhengi eins og t.d. að ná til foreldra ungs fólks sem gætu stutt ungmennin sín í því að taka fyrstu skref.
Vekja skal athygli samfélagsins á ávinningnum sem felst í inngildingarverkefnum og ýta þannig undir að fleiri slík verkefni verði sett á fót.
Í samskiptum skal starfsfólk hafa í huga hvernig það ávarpar viðmælendur, með tilliti til kyns og tungumála. Starfsfólk svari á því tungumáli sem viðmælandi notar nema um annað sé beðið. Ekki skal gera ráð fyrir kyni fólks eða tungumálakunnáttu (eða skort á henni) út frá nöfnum þess. Starfsfólk er hvatt til þess að skrá persónufornöfn er það kýs að nota sjálft í undirskrift tölvupósts.
Hvetja skal til samtals um aðgengismál á skrifstofum stofnunarinnar með reglubundnum hætti, t.d. hvað varðar aðgengi milli hæða, í eldhús og á salerni. Einnig skal huga að hlutlausri merkingu salernisaðstöðu. Tryggja skal aðgengi á viðburðum Landskrifstofunnar og notast við gátlista í Annex I.
Landskrifstofa skal styðja verkefnisstjóra við að koma upplýsingum áfram til markhópa. Landskrifstofa heldur námskeið og vinnustofur til að auka þekkingu og skilning verkefnisstjóra á inngildingarverkefnum. Verkefnisstjórum sé gert það ljóst að til þess að verkefni séu talin inngildandi þurfi að sýna fram á inngildingu og virkni þátttakenda í verkefni, sem og í hönnun og framkvæmd verkefnisins (Sjá nánar í ANNEX II). Verkefnisstjórar skulu minntir á að inngilding skuli höfð að leiðarljósi í öllum verkefnum.
Landskrifstofa skuli stuðla að aukinni fræðslu fyrir matsfólk umsókna, til að auka skilning á hvað felst raunverulega í inngildingarverkefnum. Verkefnisstjórar ættu að fá hvatningu og leiðbeiningar til að tryggja aðgengi í verkefnum og viðburðum sem styrkt eru af áætluninni.
1.1. Markmið: Starfsfólk Landskrifstofu sé leiðandi í inngildandi hugarfari, taki þátt í námskeiðum og eigi virkt samtal sín á milli um inngildingu.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Landskrifstofa nýtir sér kunnáttu og sérþekkingu sérfræðinga til þess skipuleggja námskeið eða fræðslu fyrir starfsfólk. | 2 sinnum á ári |
2. Starfsfólk sækir fræðslu um inngildingu utanhúss t.d. hjá SALTO I&D | Annað hvert ár |
3. Starfsfólk fær regluleg samtöl frá inngildingarteymi svo það þjálfist í að ræða um inngildingu við sína styrkþega. | 2 sinnum á ári |
4. Landskrifstofa útbýr stuttan leiðarvísi svo hægt sé að bregðast við málum þar sem inngildingar er ábótavant í verkefnum og í starfsemi. | Fyrir lok árs 2023 |
1.2 Kynningar taki mið af inngildingu og nái til fleiri áhersluhópa.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Landskrifstofa taki eigið myndefni sem endurspeglar fjölbreyttan hóp þátttakenda |
1 myndasería á ári |
2. Auglýsingaherferðir til að ná til áhersluhópa |
2 sinnum á ári |
3. Erlent efni þýtt á íslensku, íslenskt efni þýtt á ensku og hugað að textun fyrir heyrnarskerta. Texti auglýsinga og vefsíða sé kynhlutlaus eftir því sem hægt er. |
Allt efni sem búið er til hverju sinni |
4. Myndbönd framleidd, efni þýtt og túlkað eftir því sem við á . |
1 myndband á ári |
5. Landskrifstofa útbúi efni sérstaklega helguð umfjöllun um inngildingu eins og t.d. auglýsingar, fréttir, fréttabréf, myndbönd |
3 auglýsingar, fréttir, fréttabréf, myndbönd ár ári |
6. Landskrifstofa skipuleggur viðburði helgaða inngildingu til að vekja athygli á mikilvægi inngildingar í Erasmus+ | 1 viðburðir á ári |
1.3 Aðgengi verði tryggt
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Reglubundið samtal og ráðgjöf um aðgengi á skrifstofu | 1 sinnum á ári sérstakur fundur þess efnis, reglubundnar áminningar |
2. Gátlisti um aðgengi þýddur og staðfærður | Haust 2023 og uppfærður árlega |
3. Landskrifstofa útbúi könnun um aðgengi að starfsfólki, áætlunum og viðburðum sem landskrifstofa skipuleggur. | Árlega |
2.1 Markmið: Styrkþegar verði meðvitaðir um inngildingartækifæri í áætluninni og auki vægi inngildingar í verkefnum sínum.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Starfsfólk landskrifstofu eigi samtal við styrkþega/umsækjendur um inngildingu, mikilvægi hennar í áætluninni og hvernig er hægt að framkvæma í ólíkum verkefnum. | 70% styrkþega sýni fram á inngildingu í verkefnum sínum árið 2027 |
2.2 Markmið: Fræðsla og námskeið fyrir styrkþega/umsækjendur.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Landskrifstofa býður upp á fræðslu/námskeið sem sérstaklega fjalla um inngildingu og kveikja inngildandi hugarfar. | 4 námskeið á ári |
2. Landskrifstofa bendir á inngildingarviðburði eftir því sem við á. | 2 sinnum á ári |
3. Skoða að framleiða myndbönd um inngildingu til að fræða verkefnastjóra | Handrit tilbúið árið 2023 |
4. Inngilding er fastur liður í dagskrá allra upphafsfunda | Byrjar árið 2022-2027 |
2.3 Markmið: Fjölga þátttakendum sem standa höllum fæti í áætluninni.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Landskrifstofa hafi samband við styrkþega til að vekja athygli á áhersluhópum inngildingarstefnunnar, ræði möguleika í áætluninni og hvetji þau til að gera verkefni sem inngilda fleiri. | 3 samtöl á ári. Starfsfólk skrái hjá sér niðurstöður samtals. |
2.4 Markmið: Fræða matsfólk um inngildingu.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Landskrifstofa sér til þess að matsfólk fái fræðslu um inngildingu. | Fastur hluti af fræðslu og kynningarefni fyrir matsfólk hverju sinni. |
2. Landskrifstofa gerir efni um inngildingu fyrir matsfólk aðgengilegt. | Fræðsluefni yfirfarið 1 sinnu á ári og uppfært eftir þörfum. |
3. Landskrifstofa bendir á inngildingarviðburði eftir því sem við á. | 2 sinnum á ári. Upplýst samhliða fræðslu á vegum landskrifstofu. |
3.1. Markmið: Að ná til viðkvæmra hópa. Þetta gildir um alla áhersluhópa sem standa höllum fæti, þ.e. vegna fötlunar, veikinda, hindrana tengda menntakerfinu, menningarmunar, félagslegra hindrana, efnahagslegra hindrana, hindrana vegna mismununar og landfræðilegra hindrana.
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Markviss upplýsingagjöf til áhersluhópa með almennum auglýsingum um inngildingu og í gegnum samtök | 1 sinni á ári á markhópa sem tengjast áhersluári |
2. Safna reynslusögum þátttakenda. Starfsfólk Landskrifstofu fylgist með inngildingarverkefnum og láti kynningarteymi vita af þeim, svo hægt sé að nýta í kynningarefni. | 1 sinni á ári eða eftir því sem við á |
3. Hafa samband við samtök eða hagsmunaaðila sem vinna sérstaklega með markhópunum til að ná betur til einstaklinga sem eru hluti af þessum áhersluhópum. | 3 samtök á ári í þeim áhersluhóp sem er í brennidepli það árið |
4. Skipuleggja kynningarferðir út um allt land þar sem er lögð áhersla á inngildingu. | Hver landshluti heimsóttur minnst tvisvar á hverju 7 ára tímabili áætlunar |
5. Í lok hvers árs fer hver verkefnastjóri yfir lokaskýrslur og tekur saman hversu mikill hluti af þeim verkefnum sem koma inn fjalla um inngildingu. | 1 sinni á ári |
6. Inngilding sé fastur hluti af öllu kynningarstarfi um áætlunina og fjallað um mikilvægi hennar fyrir þessa áhersluhópa. | Fjallað um inngildingu í öllum kynningum |
7. Inngildingarteymi útbýr glærur og talpunkta svo annað starfsfólk geti talað um inngildingu í sínum kynningum. | 1 glæra og 1 bls af talpunktum tilbúin 2022 |
3.2. Markmið: Að leggja sérstaka áherslu á einn hóp á ári til að fá fleiri þátttakendur úr þeim hópi inn í áætlanir Erasmus+ og European Solidarity Corps
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Aðgengilegt sé sameiginlegt skjal fyrir skráningar | Tilbúið fyrir árslok 2022 |
2. Staða þess hóps sem er í brennidepli áætlunar á einstöku ári er greind í byrjun þess árs 2022: Landsbyggðin 2023: Fólk með börn / Ungir foreldrar 2024: Fólk af erlendum uppruna, tungumála- og menningarmunur 2025: NEET 2026: Andleg og líkamleg veikindi |
Staða tekin á fjölda umsókna í áhersluhópi í janúar-febrúar Markmiðið er að fá inn a.m.k. 1 umsókn frá áhersluhópi og/eða auka fjölda þátttakenda um 5% |
Aðgerð | Mælikvarði |
1. Gera inngildingarstefnuna sýnilega | Tilbúið í upphafi árs 2023 |
2. Skora á aðra stofnun að gera inngildingarstefnu | Um mitt ár 2023 |
3. Samantekt á ávinningi Erasmus+ og ESC fyrir samfélagið | Tilbúið í upphafi árs 2023 |
4. Taka þátt í Reykjavík Pride | Árlega, fyrst í ágúst 2023 |
5. Fordæma eða sýna afstöðu gegn atburðum sem ganga gegn gildum Erasmus+ (t.d. á Facebook) | Eftir því sem við á |