Stafrænar áherslur

Erasmus+ er ætlað að ná til breiðari hóps fólks en áður, meðal annars með því að nýta tölvu- og upplýsingatækni og að blanda saman tækifærum til náms og þjálfunar erlendis við rafrænt nám og samvinnu á netinu. Áhersla á stafræn málefni snýst því að miklu leyti um aðgengi og að veita fólki jöfn tækifæri til að fóta sig í stafrænum heimi.

Heimsfaraldur Covid-19 varpaði ljósi á mikilvægi stafrænna starfshátta, ekki síst á sviði náms og kennslu. Í samræmi við evrópsku aðgerðaráætlunina Digital Education Action Plan (2021-2027) hvetur Erasmus+ nemendur, kennara, ungt fólk og stofnanir til að auka notkun tölvu- og upplýsingatækni í starfsemi sinni.

Þannig geta stofnanir og samtök á öllum sviðum mennta og æskulýðsmála sótt um styrk til að efla nemendur sína og starfsfólk sitt á þessu sviði, til að mynda með námi og þjálfun erlendis. Hér skiptir máli að auka bæði grunnfærni og færni þeirra sem lengra eru komin. Auk þess er lögð áhersla á tölvulæsi, sem er mikilvægur þáttur í lýðræðisþjóðfélaginu sem við búum í.

Opnað verður sérstakt vefsvæði (European Digital Education Hub) til þess að gera samræmingu, rannsóknir og deilingu niðurstaðna úr góðum verkefnum á þessu sviði auðveldari. Markmiðið með vefnum verður að auka samstarf milli ólíkra sviða, búa til samstarfsnet um stafræna menntun innan hvers lands og skiptast á góðum reynslusögum.

Í flokki samstarfsverkefna er rík áhersla lögð á stafrænar aðferðir, enda er aukin stafræn kennsla talin skipta öllu máli við að gera nemendum kleift að stunda nám á netinu, aðlagast síbreytilegum aðstæðum og öðlast nýja hæfni.

Á þennan hátt leggur Erasmus+ sitt af mörkum við að efla mennta- og æskulýðssamfélög Evrópu þannig að tæknin leiði til aukinna tækifæra fyrir almenning.

Nánari upplýsingar: Digital Education Action Plan








Þetta vefsvæði byggir á Eplica