Inngilding í Erasmus+

Erasmus+ áætlunin leggur áherslu á inngildingu og eitt af markmiðum hennar er að öllum séu tryggðir jafnir möguleikar á þátttöku.

Erasmus+ styrkir verkefni sem stuðla að jöfnum tækifærum og fjölbreytni í samfélaginu. Með þetta markmið að leiðarljósi býður áætlunin upp á aukalegan fjárhagsstuðning til jafnrar þátttöku allra í verkefnum erlendis og hérlendis. Sá stuðningur getur t.d. falist í því að bæta kostnað ferða og uppihalds fyrir sérfræðinga eins og fylgdarmanneskjur, iðju/þroskaþjálfa, sálfræðinga, túlka o.fl., sem og að bæta ferðakostnað þeirra sem búa fjarri alþjóðaflugvöllum.

Á umsóknareyðublöðum heita þessir styrkir Inclusion Support og Exceptional Costs.

Í handbók Erasmus+ eru eftirfarandi atriði nefnd sem ástæður sem gætu réttlætt aukinn stuðning við þátttakendur. Þessi upptalning er ekki tæmandi heldur veitir hún ákveðið viðmið til að auðvelda þátttöku allra í áætluninni.

Fötlun (Disability)

Hér er átt við einstaklinga með líkamlegar fatlanir, andlegar áskoranir, þroskafrávik, skynjunarörðugleika og aðrar námshamlanir sem geta haft í för með sér hindranir sem réttlæta aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Veikindi (Health problems)

Hér er átt við einstaklinga sem glíma eða hafa glímt við alvarleg veikindi, langvarandi veikindi eða andlegar áskoranir sem réttlæta aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Hindranir tengdar menntakerfinu (Barriers linked to education and training systems)

Einstaklingar sem hafa átt erfitt með nám af ýmsum ástæðum, t.d. hafa ekki lokið námi, eru með litla formlega menntun eða standa utan menntakerfisins og upplifa af þeim sökum hindranir sem réttlæta aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Menningarmunur (Cultural differences)

Einstaklingar úr minnihlutahópum sem geta haft færri möguleika til náms eða búa við tungumálaörðugleika. Þetta á t.d. við um flóttamenn og afkomendur þeirra, innflytjendur eða aðra einstaklinga af erlendum uppruna sem upplifa hindranir er réttlæta aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Þessi atriði geta einnig haft áhrif á einstaklinga sem nota táknmál, einstaklinga með tal- og/eða málörðugleika og aðra sem geta þurft aukinn stuðning vegna málfærni og menningarlæsis til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Félagslegar hindranir (Social barriers)

Hér er átt við t.d. hindranir sem einstaklingar með takmarkaða félagslega færni eða félagsfælni upplifa eða hindranir sem einstaklingar í áhættuhóp vegna fyrri afbrotahegðunar upplifa. Slíkar hindranir geta réttlætt aukinn stuðning til að bæta möguleika þessara einstaklinga til þátttöku.

Félagslegar hindranir geta einnig verið aðstæður sem gera þátttöku í verkefnum erfiðari, t.d. þegar einstaklingar eiga börn (sérstaklega ungir og/eða einstæðir foreldrar), eru umönnunaraðilar eða fyrirvinnur heimilisins, eða eru ungir einstæðingar án baklands og geta þurft aukinn stuðning til að bæta möguleika sína til þátttöku.

Efnahagslegar hindranir (Economic barriers)

Hér er átt við hindranir sem mæta einstaklingum sem búa við fátækt eða koma úr erfiðum aðstæðum, einstaklingum sem reiða sig á félagslega kerfið, eru atvinnulausir eða fjárhagslega illa staddir og geta þurft á auknum stuðningi að halda til að bæta möguleika til þátttöku.

Hindranir vegna mismununar (Barriers linked to discrimination)

Einstaklingar sem upplifa mismunun vegna kyns, aldurs, þjóðernis, trúar, kynhneigðar, fötlunar, skerðinga eða af hverjum öðrum toga sem er og geta upplifað hindranir sem réttlæta aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Landfræðilegar hindranir (Geographical obstacles)

Hindranir sem einstaklingar sem búa í dreifbýli eða við skerta þjónustu upplifa, t.d. vegna lélegra eða kostnaðarsamra almenningssamgangna, og gætu réttlætt aukinn stuðning til að bæta möguleika þeirra til þátttöku.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica