Tækifæri í Erasmus+

Með Erasmus+ gefst stofnunum, samtökum og öðrum aðilum sem sinna menntun, æskulýðsmálum og íþróttum tækifæri til að auka alþjóðavæðingu í starfi sínu, miðla eigin reynslu og sækja þekkingu til annarra Evrópulanda.

70% af fjármagni áætlunarinnar er varið til stuðnings við nám og þjálfun erlendis fyrir fólk á öllum aldri. Þetta bætir félagslega, faglega og persónulega stöðu þeirra með því að færa þeim nýja þekkingu, efla hæfni, víkka sjóndeildarhringinn og auka líkurnar á að fá starf við hæfi. Einnig öðlast þátttakendur meira sjálfstraust og sjálfstæði og læra að fóta sig í nýjum aðstæðum.

30% fjármagnsins er varið í samstarfsverkefni og stefnumótun þar sem stofnanir og samtök er gefinn kostur á að öðlast reynslu af alþjóðasamstarfi. Þannig styrkja þau eigin starfsemi, taka upp nýjar aðferðir, skiptast á reynslu og víkka út tengslanet sitt. Á þennan hátt leikur Erasmus+ lykilhlutverk við að byggja upp og stuðla að nýsköpun í menntun, þjálfun, æskulýðsstarfi og íþróttum.

Hverjir geta sótt um?

Í menntahluta Erasmus+ geta einungis stofnanir (lögaðilar) sótt um styrki. Þetta geta verið leik-, grunn- eða framhaldsskólar, starfsmenntaskólar, háskólar, fullorðinsfræðsluaðilar sem og tónlistar- eða listnámsskólar sem starfa eftir viðurkenndri námskrá. Skólayfirvöld og sveitarfélög, sem og fyrirtæki og samtök sem sinna menntun, geta einnig sótt um styrki.

Í æskulýðshluta Erasmus+ geta félagasamtök, stofnanir, sveitarfélög og í sumum tilfellum óformlegir hópar ungs fólks geta sótt um styrk. Markhópurinn eru þeir sem starfa í æskulýðsgeiranum og ungt fólk á aldrinum 13-30 ára.

Einstaklingar geta ekki sótt beint um styrki úr áætluninni heldur sækja þeir um styrki til sinna stofnana.

Hvaða styrki er hægt að sækja um?

Erasmus+ veitir styrki í þremur verkefnaflokkum:

Flokkur 1: Nám og þjálfun

Erasmus+ veitir stofnunum, samtökum og öðrum sem sinna menntun og æskulýðsmálum styrki til að senda starfsfólk sitt, nemendur eða ungt fólk í náms- eða þjálfunarferðir til lengri eða skemmri tíma (frá tveimur dögum upp í heilt ár)

Flokkur 2: Samstarfsverkefni

Samstarfsverkefni eru þematengd verkefni sem styðja stofnanir og samtök í að deila reynslu og þekkingu milli landa og innleiða nýjar aðferðir.

Flokkur 3: Stefnumótun

Erasmus+ styrkir einnig verkefni sem tengjast samvinnu stjórnvalda og ólíkra hópa um stefnumótun í menntun og æskulýðsmálum innan Evrópu. Þó flestir styrkirnir séu ætlaðir stjórnvöldum eru einstaka styrkir auglýstir til umsókna. Ath! Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins annast umsýslu umsókna gegnum skrifstofu sem nefnist EACEA. Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ eru landstengiliðir fyrir þennan flokk verkefna og veita upplýsingar um þau.

Stoðverkefni

Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styðja við evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt (í umsjón Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel).

eTwinning - rafrænt skólasamstarf

eTwinning - rafrænt skólasamstarf, er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.

Epale - vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu

Epale - vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu er vefsvæði þar sem fagfólk í fullorðinsfræðslu getur bloggað, deilt fréttum og auglýsingum um viðburði og sótt efni í gagnabanka. EPALE vefgáttin veitir aðgang að lokuðum, gagnvirkum vefsvæðum þar sem hægt er að láta álit sitt í ljós, taka þátt í umræðum og eiga frumkvæði að umræðu um ýmis viðfangsefni.

School Education Gateway

School Education Gateway -  er vefgátt skóla- og fræðslumála.

Europass - skírteini til að staðfesta menntun og starfshæfni

Europass  er fyrir alla sem vilja skjalfesta nám sitt eða reynslu innan 32 landa Evrópu. Í  Europass möppunni eru öll skírteini, samhæfð fyrir öll lönd Evrópu, sem skipta máli vegna menntunar- og starfshæfni einstaklings.

Euroguidance - Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafa

Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar hefur þann megintilgang að miðla evrópskri vídd í náms- og starfsráðgjöf og undirstrika mikilvægi hennar. Í þessu samhengi er náms- og starfsráðgjöf séð sem tæki til þess að auka möguleika fólks til að læra og vinna innan allra landa Evrópu og að fá reynslu sína og hæfni metna í öðru landi.

Eurodesk

Eurodesk starfar undir Erasmus + og er hlutverk þess að gera upplýsingar um tækifæri í Evrópu aðgengileg fyrir ungt fólk og þau sem vinna með þeim.

European Solidarity Corps

European Solidarity Corps er ný áætlun þar sem sjálfboðaliðastörf tilheyra ekki lengur Erasmus+ áætluninni. Innan nýju áætlunarinnar eru innlend og erlend sjálfboðaliðastörf auk samfélagsverkefna.

Áhersluatriði nýrrar áætlunar

Inngilding og fjölbreytileiki 

Í nýju áætluninni er leitast við að auka ávinning af verkefnum og tryggja jöfn tækifæri. Í þessu skyni verður reynt að ná til fólks á öllum aldri óháð menningarlegum, félagslegum og efnahaglegum bakgrunni.

Sjá nánar

Stafrænt Erasmus+ 

Áhersla er lögð á að auka færni fólks í mennta- og æskulýðsmálum til að lifa og starfa í stafrænum heimi, til að mynda hvað varðar tölvulæsi. Erasmus+ er einnig ætlað að ná til breiðari hóps en áður með því að bjóða upp á námstækifæri á netinu sem tengjast styttri ferðum til útlanda.

Sjá nánar

Grænt Erasmus+ 

Í Erasmus+ eru þátttakendur hvattir til vistvænnar nálgunar á ferðalög og að nýta tæknina til samstarfs við þátttakendur í öðrum löndum.  Áætlunin stefnir líka að því að byggja upp þekkingu og skilning á sjálfbærni og aðgerðum í loftslagsmálum með verkefnastyrkjum.    

Sjá nánar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica