Styrkir til íþróttaverkefna

Fyrir hvern?

Íþróttafélög, landssambönd eins og ÍSÍ og UMFÍ, sérsambönd innan ÍSÍ og einstaka sambandsaðilar innan UMFÍ. Einnig geta sveitarfélög geta sótt um styrki innan íþróttahluta Erasmus+. Þar að auki geta hagsmunaaðilar og áhugafélög í íþróttastarfi sótt um styrki. Háskólar og rannsóknastofnanir geta einnig leitt verkefni og verið samstarfsaðilar.

Hvernig verkefni?

Erasmus+ styrkir ýmis verkefni á sviði lýðheilsumála. Einnig er hægt að sækja um stuðning við íþróttaverkefni sem gefa þeim sem eiga af ýmsum ástæðum undir högg að sækja aukin tækifæri til að stunda sína íþrótt. Þar að auki eru ýmis grasrótarverkefni styrkhæf, einkum þau sem stuðla að auknu sjálfsboðaliðastarfi fyrir íþróttahreyfinguna. Verkefni sem stuðla að jöfnu aðgengi kynja eru einnig styrkhæf. Eingöngu verkefni í áhugamennsku eru styrkt en ekki fastir íþróttaviðburðir. Þó er hægt að sækja um styrki til hliðarverkefna í tengslum við stóra fasta íþróttaviðburði. Hægt er að sækja um þrenns konar verkefni:

  1. Lítil samstarfsverkefni. Lágmark 3 samstarfsaðilar frá 3 löndum. Hámarksstyrkur 200 þúsund evrur
  2. Meðalstór samstarfsverkefni. Lágmark 6 samstarfsaðilar frá 6 löndum. Hámarksstyrkur 300 þúsund evrur
  3. Stór samstarfsverkefni. Lágmark 10 samstarfsaðilar frá 10 löndum. Hámarksstyrkur 450 þúsund evrur

Umsóknarfrestur

Umsóknarfrestir eru einu sinni á ári fyrir hvern flokk og eru auglýstir á vefsíðu Erasmus+ og heimasíðu Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins fyrir íþróttahlutann. 

Stutt lýsing

Áætlunin veitir íslenskri íþróttahreyfingu og opinberum aðilum sem starfa að íþróttamálum í 32 þátttökulöndum Erasmus+ möguleika á því að sækja um styrki til að hrinda íþróttaverkefnum í framkvæmd. Verkefnin geta verið af ýmsum toga en þurfa alltaf að falla að stefnu Evrópusambandsins. Þannig er þeim ætlað að stuðla að náms- og þjálfunarferðum starfsfólks og auknu samstarfi, gæðum, inngildingu, sköpun og nýsköpun í íþróttastarfi og –stefnu.

Hvert er markmiðið?

Erasmus+ íþróttir hefur það að markmiði að hvetja til aukinnar þátttöku almennings í íþróttastarfi, auka sjálfboðaliðastarf í íþróttum. og átak gegn ofbeldi, kynþáttahatri og fordómum, sérstaklega meðal almennra íþróttaiðkenda. Umsóknir þurfa að falla vel að þessum heildarmarkmiðum Evrópusambandsins.

Hverjir geta sótt um?

Öll íþróttafélög, sérsambönd, íþrótta og ungmennafélög, sveitarfélög, háskólar, rannsóknastofnanir og áhugafélög sem tengjast íþróttum og hreyfingu á ýmsan hátt geta tekið þátt í Erasmus + áætluninni. Ekki er sérstaklega mælt með að nýliðar leiði verkefni. Það er þó ekki bannað en skynsamlegra er að komast að sem samstarfsaðilar í verkefni.

Sjá nánari upplýsingar í handbók Erasmus+ og upplýsingar um íþróttahlutann á heimasíðu Erasmus+ hjá Evrópusambandinu

Hvernig er sótt um?

Íþróttahlutanum er stýrt miðlægt frá framkvæmdaskrifstofu ESB í Brussel og sótt er rafrænt um beint til Framkvæmdastjórnar ESB í Brussel. Hægt er að fá frekari upplýsingar um styrki innan Erasmus+ til íþróttamála á heimasíðu Framkvæmdarstjórnar fyrir íþróttahlutann.

Skilyrði úthlutunar

Til að leiða verkefni þurfa aðilar að hafa fjárhagslega burði til að leiða stór verkefni. Þetta er yfirleitt ekki vandamál varðandi opinbera aðila en einkaaðilar og frjáls félagasamtök þurfa hugsanlega að ganga í gegnum fjárhagslegt mat áður en skrifað er undir samninga.

Þátttökulönd

Allir lögaðilar sem starfa á einhvern hátt að íþróttum í þeim 33 löndum sem taka þátt í Erasmus+ áætluninni geta tekið þátt. Það eru ESB löndin 27, Noregur, Liechtenstein og Ísland, Tyrkland, Serbía og Norður-Makedónía. Einnig er hægt að vinna með aðilum í löndum utan Evrópu en þeir aðilar þurfa þá að vera með ákveðið skilgreint hlutverk og hafa ákveðna sérþekkingu sem samstarfsaðilar í þátttökulöndunum hafa ekki.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica