OID númer er einkenniskóði fyrir hverja stofnun / lögaðila. OID tekur við af PIC sem áður þurfti til að sækja um í Erasmus+. Þeir sem þegar eru með PIC númer eiga að hafa fengið úthlutað OID sjálfkrafa og þeir sem höfðu aðgang að PIC skráningu í gegnum Participant Portal hafa aðgang að OID skráningunni í gegnum Erasmus+ og ESC torgið.
Áður en sótt er um styrk í Erasmus+ þarf að skrá stofnunina/lögaðilann inn í Organisation registration á Erasmus+ og ESC torginu til að sækja svokallað OID númer. Til að hægt sé að sækja OID númer þarf fyrst að búa til aðgang inn á vefgátt Framkvæmdastjórnar ESB, EU Login. EU Login aðgangur er síðan notaður til að skrá sig inn í kerfið þar sem OID númerið er sótt. Athugið að við mælum með því að þessi skráning sé gerð miðlægt í stofnuninni/fyrirtækinu t.d. einhver sem tengist rekstrinum beint. Sá sem skráir OID númer er tengiliður vegna þess og getur þurft að uppfæra upplýsingar um stofnunina/lögaðilann á komandi árum. Athugið að hægt er að búa til EU Login aðgang á netfang sem ekki er skráð á einstakling heldur t.d. á almennt netfang stofnunar/lögaðila. Með því að nota slíkan aðgang er hægt að koma í veg fyrir að aðgangur að skráningu OID glatist við það að einstaklingur hverfi frá störfum.
Þú getur flett upp hvort stofnunin þín sé þegar með skráð OID númer. Hafi stofnunin/lögaðilinn verið með PIC er hægt að leita eftir PIC með því að smella á “advanced search” og finna þannig OID númerið.
Skráðu þig inn á Organisation registration á Erasmus+ og ESC torginu með EU Login aðganginum þínum og skráðu stofnunina / lögaðilann undir til að sækja svokallað OID númer.
Þegar búið er að sækja OID númer fyrir stofnunina/fyrirtækið þarf að hlaða inn gögnum í organisation registration system. Athugið að þetta má gera eftir að umsókn hefur verið skilað. Athugið að ekki þarf að skila öllum gögnunum sem hér eru listuð heldur bara þeim gögnum sem eiga við um ykkar stofnun/lögaðila. Allir þurfa að skila þeim gögnum sem eru í lið 1 og 2 hér fyrir neðan og allir sem hljóta styrk þurfa að skila gögnunum í lið 4.
Í fyrsta lagi þarf að fylla út formlega staðfestingu á lagalegri stöðu stofnunar/fyrirtækis (Proof of legal status) undirritað og stimplað af löggildum fulltrúa stofnunar/fyrirtækis.
Staðfestingunni verður að fylgja vottorð frá Fyrirtækjaskrá um skráningu stofnunar/fyrirtækis (certificate of registration). Athugið að þessi gögn geta verið til hjá stofnuninni/fyrirtækinu, séu þau ekki til staðar þar má nálgast þau hjá Fyrirtækjaskrá. Vottorðið ætti að vera á ensku og stimplað og undirritað af fulltrúa Fyrirtækjaskrár.
Skólar, leikskólar og félagsmiðstöðvar sem ekki eru með kennitölu heldur starfa undir kennitölu sveitarfélags þurfa að auki að skila stuttri skriflegri staðfestingu á því að skólinn sé starfræktur undir stjórn sveitarfélagsins. Þessi staðfesting ætti að vera undirrituð og stimpluð af lögmætum fulltrúa sveitarfélagsins.
Einnig er æskilegt að fylla út formlegt eyðublað með bankaupplýsingum (Financial Identification) en skylda er að skila þessum upplýsingum hljóti verkefni styrk. Athugið að þetta eyðublað ætti að vera stimplað og undirritað af fulltrúa bankans (gjaldkeri) og undirritað af handhafa reikningsins.
Þær stofnanir/lögaðilar sem eru með VSK númer þurfa að skila staðfestingu á því frá Ríkisskattstjóra.
Lögaðilar sem eru með minna en 50% fjármögnun frá opinberum aðilum og sækja um styrk að upphæð 60.000 evrur eða meira þurfa að auki að hlaða inn frekari gögnum um fjárhagsstöðu (Financial capacity), s.s. afrit af ársreikningi síðasta árs.
Eyðublöð þarf að prenta út, skrifa undir, skanna inn og vista með upplýsingum stofnunarinnar/fyrirtækisins í organisation registration system.