Nám og þjálfun á háskólastigi: starfsfólk

Fyrir hvern?

Háskólastofnanir, háskólakennara og aðra starfsmenn háskóla.

Til hvers?

Háskólakennarar og annað starfsfólk háskóla getur sótt um styrki til að sækja starfsþjálfun erlendis, s.s. með þátttöku á fagtengdum námskeiðum eða vinnustofum, starfsspeglun (job shadowing), eða skipulögðum heimsóknum til samstarfsháskóla. Háskólakennarar geta einnig sótt um styrki til að sinna gestakennslu hjá samstarfsháskóla. Háskólar geta boðið fulltrúum fyrirtækja í öðrum þátttökulöndum að sinna gestakennslu í sínum skóla.

Umsóknarfrestur

Kennarar og starfsmenn fá upplýsingar um umsóknarfresti hjá sínum heimaskóla og skila umsóknum þangað. 

Hvert er markmiðið?

Styrkir eru veittir til þeirra ferða sem hafa skýra tengingu við stefnu háskólanna. Markmiðið með kennaraskiptum og starfsþjálfun starfsfólks er margþætt:

  • Að gera þátttakendum kleift að deila sérþekkingu sinni

  • Að kynnast nýju kennsluumhverfi

  • Að auka hæfni og færni þeirra einstaklinga sem taka þátt, ekki síst á sviði nýsköpunar, námskrárgerðar og stafrænnar þróunar

  • Að koma á og viðhalda tengslum við fólk sem starfar á sama vettvangi erlendis

  • Að efla tengsl háskóla og atvinnulífs í því skyni að undirbúa nemendur betur fyrir þátttöku á vinnumarkaði eftir útskrift.

  • Hverjir geta sótt um?

Háskólar sem hafa hlotið vottun hjá Evrópusambandinu (Erasmus Charter for Higher Education) geta sótt um fjármagn fyrir sína kennara og starfsmenn til landskrifstofu. Kennarar og starfsmenn sækja um um styrk til síns heimaskóla.

Einstakar deildir eða einingar innan háskóla geta sótt um staka styrki í eigin nafni vegna ferða sem ekki hefur verið ákveðið hver muni fara í ef tilgangur ferðar er mjög skýr. Eftir að búið er að ákveða hver fer fyrir deildina/eininguna er styrkurinn skráður á viðkomandi einstakling.

Hvað er styrkt?

  • Gestakennsla og/eða starfsþjálfun erlendis í 2 til 60 daga. Ef farið er til annarra landa en þátttökulanda Erasmus+ er lágmarksdvöl 5 dagar.

  • Gestakennsla á Íslandi úr atvinnulífinu í 1 til 60 daga.

  • Blönduð kennara- og starfsmannaskipti, þar sem dvöl á staðnum tekur 2–30 daga og er tengd við kennslu eða þjálfun á netinu. Ef farið er til annarra landa en þátttökulanda Erasmus+ er lágmarksdvöl á staðnum 5 dagar.

Ef dvöl varir lengur en í 14 daga, að ferðadögum meðtöldum, er hver dagur umfram 14 daga styrktur um 70% en ekki að fullu.

Kennarar og starfsmenn geta fengið styrk oftar en einu sinni.

Háskólar geta sótt um styrki (6.000–8.000€) til að halda blönduð hraðnámskeið fyrir starfsfólk, í samstarfi við að lágmarki tvo aðra háskóla í tveimur þátttökulöndum Erasmus+. Til þess að námskeiðið sé styrkhæft þurfa að minnsta kosti 10 starfsmenn á Erasmus+ styrk að taka þátt í námskeiðinu (þeir sem kenna það eru ekki taldir með). Nánari upplýsingar eru í handbók um blönduð skipti á háskólastigi.

Styrkupphæðir:

  • 148€, 170€ eða 190€ til þátttökulanda Erasmus+ eftir áfangastað á dag + ferðastyrkur.
  • 190€ á dag til annarra landa + ferðastyrkur.
  • Ferðastyrkur er á bilinu 309€–1.735€ eftir áfangastað. Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann (í KA131). Sýni þátttakandi fram á að aðalferðamáti ferðarinnar hafi verið vistvænn (miðað við fjölda kílómetra) - er veittur aukastyrkur á bilinu 30–80€.
  • Hægt er að sækja um inngildingarstyrk fyrir aukalegan kostnað tengdum kennara-/starfsmannaskiptunum.

Styrkupphæðir 2024 (KA131)

Styrkupphæðir eldri verkefna (KA131) 

Styrkupphæðir 2024 (Alþjóðavíddin - KA171)

Styrkupphæðir 2023 (Alþjóðavíddin - KA171)

Styrkupphæðir 2022 (Alþjóðavíddin - KA171)

Skilyrði úthlutunar

  • Að tilgangur og lýsing á dvöl í umsókn sé skýr og tengist með skýrum hætti starfsemi og áherslum heimaskólans.
  • Að kennslu- eða starfsáætlun (Mobility Agreement) sé samþykkt af þátttakanda og bæði stofnuninni sem sendir og tekur á móti honum.
  • Að dvölin fari fram í landi sem er hvorki land háskólans sem þátttakandinn starfar við né landið sem hann hefur aðsetur í.
  • Í kennaraskiptum er skilyrði að Erasmus+ samningur sé í gildi við gestaskólann.
  • Í kennaraskiptum jafngildir fjöldi kennslustunda 8 klukkutímum á viku að lágmarki. Þetta gildir ekki um sérfræðinga út atvinnulífinu sem koma til Íslands til að kenna.

Vottun

Samkvæmt Erasmus+ Charter for Higher Education, sem háskólar hafa skrifað undir vegna þátttöku sinnar í Erasmus+, munu þeir „tryggja að starfsfólk fá dvölina metna, séu viðfangsefni hennar í samræmi við samning um starfsmannaskipti“.

Þátttökulönd

Hægt er að sinna gestakennslu eða fara í starfsþjálfun í öllum þátttökulöndum Erasmus+. Þessi lönd eru Evrópusambandslöndin 27, EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Tyrklands, Serbíu og Norður-Makedóníu. Einnig er hægt að fara til landa sem ekki flokkast sem þátttökulönd, ef heimaskóli heimilar og hefur til þess fjármagn. Sömuleiðis geta íslenskir háskólar boðið starfsfólki fyrirtækja að sinna gestakennslu í sínum skólum.

Kennarar og starfsmenn geta sótt um styrki til annarra landa en þátttökulanda. Háskólar geta einnig boðið til sín kennurum og starfsmönnum samstarfsskóla utan Evrópu og veitt þeim styrk. 

Umsóknir og eyðublöð

Kennari eða starfsmaður sækir um til síns heimaskóla sem veitir styrkinn og sér um alla umsýslu tengda honum.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica