Nám og þjálfun á háskólastigi: stúdentar

Fyrir hvern?

Háskólanema á öllum stigum háskólanáms og allt að ári eftir útskrift. Fyrirtæki og stofnanir sem hafa áhuga á að taka á móti nemendum í starfsþjálfun. 

Til hvers?

Háskólanemar geta farið í 2-12 mánuði í skiptinám eða starfsþjálfun sem hluta af námi. Starfsþjálfun er einnig möguleg innan við ári eftir útskrift. Doktorsnemar geta farið í 5-30 daga skiptinám eða starfsþjálfun. Aðrir háskólanemar geta það einnig ef dvölin er tengd námi eða þjálfun á netinu. 

Umsóknarfrestur

Háskólanemar fá upplýsingar um umsóknarfresti hjá sínum heimaskóla og skila umsóknum þangað. Skólum, stofnunum og fyrirtækjum sem hafa áhuga á að taka háskólanema í starfsþjálfun er bent á leiðbeiningar um móttöku þeirra á vinnustað. 

Hvert er markmiðið?

Nám og þjálfun háskólanema erlendis er mikilvægur þáttur í að koma á fót evrópsku menntasvæði, þar sem tengslin milli menntunar og rannsókna eru styrkt og gagnrýn hugsun nemenda efld. Áætlunin hefur í för með sér jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn, borgaralega þátttöku, nýsköpun og sjálfbærni í Evrópu með því að gera öllum nemendum kleift að fá tækifæri til að:

 • kynnast fjölbreyttum kennslu- og rannsóknaraðferðum og vinnubrögðum á sínu fræðasviði

 • þróa með sér lífsleikni eins og fjölmenningarlega færni, lausnamiðaða hugsun og tungumálakunnáttu

 • efla stafræna færni, sem er ómissandi þáttur í að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar

 • rækta persónulegan þroska, sjálfstraust og hæfni til að laga sig að nýjum aðstæðum

Hverjir geta sótt um?

Háskólar sem hafa hlotið vottun hjá Evrópusambandinu (Erasmus Charter for Higher Education) geta sótt um fjármagn til að senda nemendur sína í skiptinám og starfsþjálfun.

Nemendur sækja um um styrk til síns heimaskóla.

Hvað er styrkt?

Lengri ferðir:

 • Skiptinám sem hluta af námi í 2-12 mánuði

 • Starfsþjálfun sem hluta af námi í 2-12 mánuði

 • Starfsþjálfun að lokinni útskrift í 2-12 mánuði, en sækja þarf um styrkinn fyrir útskrift

Styttri ferðir:

 • Blandað nám háskólanema, þar sem skiptinám eða starfsþjálfun á staðnum tekur 5-30 daga og er tengd við þátttöku á netinu

 • Skiptinám doktorsnema í 5-30 daga

 • Starfsþjálfun doktorsnema í 5-30 daga

Nemandi getur fengið styrk oftar en einu sinni á meðan á háskólanámi stendur. Heildarfjöldi mánaða getur ekki farið umfram 12 mánuði á hverju námsstigi. Starfsþjálfun að lokinni útskrift telst með því námsstigi sem útskrifast var á. Í blönduðu námi er einungis talinn sá náms- og/eða þjálfunartími sem er erlendis á staðnum.

Styrkupphæðir:

Styrkupphæð fer eftir áfangastað. Uppihaldsstyrkur er 490€ eða 540€ á mánuði og bætast 150€ við grunnupphæðina í starfsþjálfun. Ferðastyrkur er á bilinu 275 - 1.500€ eftir áfangastað. Hægt er að sækja um aukalegan ferðastyrk til alþjóðaskrifstofu heimaskóla ef sýnt þykir að ferðastyrkur nægi ekki fyrir 70% af ferðakostnaði, miðað við hagkvæmasta ferðamátann. Sýni þátttakandi fram á að aðalferðamáti ferðarinnar hafi verið vistvænn (miðað við fjölda kílómetra) - er veittur aukastyrkur á bilinu 30 - 80€.

Styrkupphæðir 2021

Styrkupphæðir eldri verkefna

Hægt er að sækja um viðbótarstyrk vegna barna á vegum þátttakanda og vegna fötlunar / heilsufars.

Skilyrði úthlutunar

Skiptinám: Erasmus+ samstarfssamningur þarf að vera í gildi á milli heima- og gestaskóla. Heimaskóli og nemandi verða að hafa undirritað rafrænan námssamning áður en farið er út. Æskilegt er að gestaskóli undirriti námssamning áður en skiptinám hefst en annars eins fljótt og auðið er eftir að stúdent er kominn út.

Starfsþjálfun: Heimaskóli, nemandi og móttökustofnun verða að hafa undirritað starfsþjálfunarsamning áður en starfsþjálfun hefst.

Starfsþjálfun að lokinni útskrift: Sækja þarf um styrk áður en kemur að útskrift og dvöl þarf að vera lokið 12 mánuðum eftir útskrift. Heimaskóli þarf að votta að starfsþjálfunin efli þekkingu, hæfni og leikni nemandans í því fagi sem hann er að útskrifast úr.

Mælt er með því að heimaskóli noti Europass færnipassa til að staðfesta dvölina.

Þátttökulönd

Hægt er að fara í skiptinám og starfsþjálfun til allra þátttökulanda í Erasmus+. Þátttökulöndin eru Evrópusambandslöndin og EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Serbíu, Tyrklands og Norður-Makedóníu. Einnig er hægt að fara til landa sem ekki flokkast sem þátttökulönd, ef heimaskóli heimilar og hefur til þess fjármagn.

Vottun

Með námssamningi skuldbindur heimaskóli sig til að meta að fullu þau námskeið sem stúdent tekur í skiptináminu. Mikilvægt er að samningurinn sé uppfærður ef stúdent gerir breytingar á námskeiðsvali og staðfesta við heimaskóla.

Með starfsþjálfunarsamningi skuldbindur heimaskóli sig til að meta starfsþjálfunina sem hluta af námi stúdents við skólann. Æskilegt er að starfsþjálfun sé metin til eininga en ef það reynist ekki hægt skal tilgreina hana með texta í skírteinisviðauka (Diploma Supplement) sem stúdent fær við útskrift.

Með Europass færnipassa er starfsþjálfun að lokinni útskrift vottað með formlegum hætti af heimaskóla.

Umsóknir (og eyðublöð)

Nemandinn sækir um til síns heimaskóla og fær þar aðstoð og upplýsingar um hvert hægt er að fara.

Heimaskólinn veitir upplýsingar um hvaða fylgigögn þurfa að fylgja umsókn og á hvaða formi. Umsækjendur eru beðnir um að kynna sér vel þessar upplýsingar áður en umsóknin er fyllt út því í flestum tilfellum þarf að hafa fylgigögnin tilbúin við vinnslu umsóknar.

 • Réttindi og skyldur Erasmus+ stúdenta - Erasmus+ Student Charter (EN) (IS)

 

Kynningarmyndbönd

Erasmus+ Ísland - Skiptinám í Feneyjum

Vilt þú líka alþjóðavídd í námið þitt? Settu þig í sambandi við Alþjóðaskrifstofuna í þínum skóla!
Þetta vefsvæði byggir á Eplica