Inngildingarstyrkir fyrir stúdenta og starfsfólk háskóla

Erasmus+ áætlunin leggur mikla áherslu á inngildingu, sem þýðir aukin tækifæri fyrir fleiri þátttakendur með sérstökum fjárstuðningi til þeirra sem mæta hindrunum af ýmsum toga.

Í handbók Erasmus+ eru ákveðin atriði nefnd sem gætu réttlætt aukinn stuðning við þátttakendur. Þessi upptalning, sem má sjá hér, er ekki tæmandi heldur veitir hún ákveðið viðmið til að auðvelda þátttöku allra í áætluninni. Inngilding snýst þó ekki bara um fjárhagslegan stuðning heldur einnig um að auka vitneskju og skilning á því hvað getur hindrað nemendur í að fara í skiptinám eða starfsþjálfun.

Inngildingarstyrkur fyrir nemendur og starfsfólk (raunkostnaður) fyrir aukalegan kostnað

Í Erasmus+ stúdenta- og starfsmannaskiptum á háskólastigi geta nemendur og starfsfólk sótt um inngildingarstyrk vegna aukalegs kostnaðar, byggðan á raunkostnaði. Þessir styrkir eru fyrst og fremst hugsaðir fyrir þá sem með þátttöku myndu mæta aukalegum kostnaði umfram aðra vegna fötlunar eða veikinda, hvort sem þau eru líkamleg eða andleg.

Styrktur er raunkostnaður í skiptinámi, starfsnámi, starfsþjálfun og starfsmanna-/kennaraskiptum. Styrkir vegna fötlunar eða heilsufars geta til dæmis verið:

  • Hækkaður ferða- og/eða uppihaldskostnaður
  • Ferðakostnaður og uppihald aðstoðarmanneskju (ef ferð er 60 dagar eða styttri þá miðast styrkur fyrir aðstoðarmanneskju við upphæðir starfsmannastyrkja)
  • Flutningskostnaður á stoðtækjum

Til þess að sækja um þennan styrk þarf að óska eftir honum með tölvupósti til alþjóðaskrifstofu heimaskóla, eftir að búið er að senda inn umsókn um skiptinám/starfsþjálfun. Næst fylla heimaskóli/alþjóðaskrifstofa og umsækjandi út eyðublað um viðbótarstyrk í sameiningu og senda undirritað til Landskrifstofu.

Þessi styrkur er endanlega reiknaður út frá þeim kvittunum sem þátttakandi skilar inn.

Stúdentar geta átt rétt á bæði og inngildingarstyrk byggðan á raunkostnaði og inngildingarstyrk sem fasta upphæð, sjá hér neðar.

Inngildingarstyrkur fyrir nemendur og nýútskrifaða

Frá samningsárinu 2021, við upphaf nýrrar Erasmus+ áætlunar, hafa nemendur og nýútskrifaðir með börn getað sótt inngildingarstyrk sem fasta upphæð (250 € á mánuði fyrir lengri dvalir) til viðbótar við hefðbundinn dvalarstyrk. Viðmiðunum var síðan fjölgað og frá skólaárinu 2023-24 eru þau eftirfarandi:

  • Nemendur sem eru innflytjendur eða börn innflytjenda*
  • Nemendur með stöðu flóttafólks
  • Nemendur sem glíma eða hafa glímt við alvarleg veikindi, langvarandi veikindi eða andlegar áskoranir
  • Nemendur með líkamlega fötlun, þroskafrávik, sjón-/heyrnarskerðingu eða námshamlanir
  • Nemendur með börn undir 18 ára

* Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.


Í skiptinámi/starfsþjálfun er föst upphæð inngildingarstyrks 250 evrur á mánuði. Í styttri stúdentaskiptum er föst upphæð 100 evrur fyrir 5 – 14 daga og 150 evrur fyrir 15 – 30 daga.

Styrkurinn margfaldast ekki þó að nemandi uppfylli fleiri en eitt viðmið. Ef stúdent uppfyllir ekki viðmiðin til þess að hljóta inngildingarstyrk sem fasta upphæð en getur sýnt fram á raunverulega þörf á auknu fjármagni vegna færri tækifæra er háskólum heimilt að veita inngildingarstyrk fyrir aukalegan kostnað vegna þátttöku í Erasmus+, sjá ofar.

Til þess að staðfesta að nemandi tilheyri einum eða fleirum af ofangreindum hópum nemenda, þarf viðkomandi að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Háskólanum er heimilt að óska eftir fleiri gögnum til staðfestingar.

Ef stúdent uppfyllir viðmiðin fyrir inngildingarstyrk sem fasta upphæð og getur þar að auki sýnt fram á raunverulega þörf á auknu fjármagni er hægt að veita viðkomandi bæði inngildingarstyrk sem fasta upphæð og inngildingarstyrk byggðan á raunkostnaði. Fasta upphæðin er þá aukafjármögnun fyrir grunn ferða- og uppihaldskostnað og síðan er hinn styrkurinn til að fjármagna það sem þarf að borga aukalega (svo sem auka sæti eða farmiða fyrir fylgdarmanneskju).

Aðgengi

Allir Erasmus+ þátttakendur eiga að geta nýtt sér viðeigandi stoðþjónustu sem er í boði í þeim háskóla sem tekur á móti þeim. Þeir háskólar sem taka þátt í Erasmus+ hafa fengið vottun og samþykkt skilmála í Erasmus Charter for Higher Education (ECHE), þar sem þeir meðal annars skuldbinda sig til að tryggja jafnt aðgengi og tækifæri þátttakenda.

Það er mikilvægt að kynna sér vel hvernig aðgengismálum er háttað í þeim háskóla sem þátttakandi hyggst fara til. Inclusive Mobility er Erasmus+ verkefni sem hefur það að markmiði að veita fötluðum nemendum gagnlegar upplýsingar og hjálpa þeim þannig að taka þátt í Erasmus+. Á forsíðu heimasíðu verkefnisins er hægt að leita að ákveðnum háskólum og fá upplýsingar um aðgengi þeirra.

Inclusion in the Erasmus+ program – information in English  
Þetta vefsvæði byggir á Eplica