Nám og þjálfun fyrir ungt fólk í æskulýðsmálum

Þátttaka ungs fólks og ungmennaskipti

Fyrir hverja?

Ungt fólk á aldrinum 13-30 ára. Samtök, sveitarfélög, stofnanir og ungt fólk geta sótt um styrk. Hópur ungs fólks sem sækir um styrk þarf að samanstanda af a.m.k. 4 ungum einstaklingum.

Til hvers?

Markmiðið með svona verkefnum er að hvetja ungt fólk til virkni og þátttöku. Í verkefnunum er hægt að vera með t.d. vinnusmiðjur, umræðuhópa, vitundarvakningu o.fl. Verkefnin ættu að miða að því að efla persónulega og félagslega hæfni ungs fólks. Þannig efla þau gildi eins og samstöðu, lýðræði og vináttu.

Í boði eru tvenns konar verkefni:

 • Þátttaka ungs fólks (Youth Participation Activities)
  Í þessum styrkjaflokki er hægt að skipuleggja aðgerðir eða viðburði sem hvetja ungt fólk til virkni og þátttöku í samfélaginu, t.d með vitundarvakningu, þátttöku ungmenna í umræðuhópum eða samtal við þau sem taka ákvarðanir um málefni ungs fólks. Geta verið bæði innanlandsverkefni sem og samstarf milli landa.

 • Ungmennaskipti (Youth Exchanges)
  Í þessum styrkjaflokki er hægt að skipuleggja verkefni þar sem hópar ungs fólks; 13-30 ára frá tveimur eða fleiri Evrópulöndum hittast. Ungt fólk kynnist lífi og menningu jafningja þeirra í öðrum löndum Evrópu í verkefnum sem byggja á hugmyndafræðinni um óformlegt nám.

Umsóknarfrestur

Næsti frestur er 23. febrúar 2022 kl. 11.

Umsóknarfrestir eru tvisvar á ári, í febrúar og október. Sótt er um rafrænt á Erasmus+ og ESC torginu. Sjá nánari upplýsingar um umsóknarferlið á síðunni Leiðbeiningar fyrir umsækjendur

Hvert er markmiðið?

 • Veita ungu fólki tækifæri til almennrar þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Sérstök áhersla er á inngildingu og fjölbreytileika.

 • Fræða ungt fólk um þýðingu þess að taka þátt.

 • Auka vitund ungs fólks um mannréttindi og evrópsk gildi. Markmið ungs fólk, European Youth Goals, eru hluti af stefnumótun ungs fólks í Evrópu.

 • Auka stafræna hæfni og fjölmiðlalæsi hjá ungu fólki. Hvetja ungt fólk að rýna til gagns.

 • Leiða saman ungt fólk og þau sem taka ákvarðanir um málefni ungs fólks.

 • Efla færni og víðsýni;

 • Brjóta niður fordóma og staðalímyndir;

 • Veita ungu fólki tækifæri að hitta jafnaldra frá öðrum Evrópulöndum

Forgangsatriði

Helstu forgangsatriði snúa að því að tryggja aðgengi allra að áætluninni, umhverfisvænt alþjóðastarf, aukna stafræna þróun og færni sem og sameiginleg gildi og borgaralega þátttöku.

Hverjir geta sótt um?

 • Samtök, stofnanir, sveitarfélög

 • Óformlegur hópur ungs fólks: a.m.k. 4 einstaklingar á aldrinum 13-30

Lögaðilar og ungmennahópar í þátttökulöndum Erasmus+ áætlunarinnar geta tekið þátt. Þetta eru Evrópusambandslöndin, EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Tyrklands, Serbíu og Norður-Makedóníu.  Mögulegt er  að vinna með aðilum í öðrum löndum.

Hvað er styrkt/ Styrkupphæðir?

Sameiginlegt fyrir báða styrkjaflokkana:

 • Styrkur vegna inngildingar - 100% raunkostnaður
  Hér er átt við aukinn stuðning fyrir þátttakendur til jafnrar þátttöku sem getur t.d. falist í því að bæta kostnað ferða og uppihalds fyrir sérfræðinga eins og fylgdarmanneskjur, iðju/þroskaþjálfa, sálfræðinga, túlka o.fl.

 • Styrkur vegna ferðakostnaðar þeirra sem búa fjarri alþjóðaflugvöllum - 80% raunkostnaður.

 • Styrkur vegna vegabréfsáritana, bólusetninga og læknisvottorða - 100% raunkostnaður.

 • € 100 fyrir hvern einstakling sem tekur þátt í ungmennaskiptum og viðburðum í þátttökuverkefni. Þessi styrkur er vegna framkvæmdar á viðburði.
  - Á ekki við um hópstjóra, fylgdarfólk né þann sem leiðir ungmennaskiptaverkefni
  - Á ekki við um starfsfólk né ungmennahóp sem leiðir þátttökuverkefni

 • € 45 fyrir hvern einstakling á dag sem tekur þátt í ungmennaskiptum og viðburðum í þátttökuverkefni.
  Þessi styrkur er vegna uppihaldskostnaðar þegar viðburður er haldinn á Íslandi. Aðrar upphæðir eiga við ef viðburður er haldinn í öðrum löndum í Evrópu.
  Ungmennaskiptin geta verið í 5 - 21 dag, fyrir utan ferðadaga.

 • Styrkur vegna ferða fyrir alla þátttakendur mældur í vegalengdum á milli staða. Þau sem ferðast með grænum ferðamáta geta fengið allt að fjóra ferðadaga. Hér er reiknivél fyrir vegalengdir.

Vegalengd

Hefðbundinn ferðastyrkur

Grænn

ferðamáti

0 – 99 km

€ 23

 

100 – 499 km

€ 180

€ 210

500 – 1999 km

€ 275

€ 320

2000 – 2999 km

€ 360

€ 410

3000 – 3999 km

€ 530

€ 610

4000 – 7999 km

€ 820

 

8000 km og lengra

€ 1500

 

Eingöngu fyrir ungmennaskipti:

 • Styrkur vegna undirbúningsheimsóknar: € 575 fyrir einn fulltrúa frá hverjum þátttökusamtökum.

Eingöngu fyrir þátttökuverkefni:

 • Styrkur vegna stjórnunar: € 500 á mánuði
  Hér er átt við kostnað sem tengist undirbúningi, framkvæmd, mati, miðlun og eftirfylgni.

 • Styrkur vegna leiðbeinanda fyrir ungmennahópa:
  Ef viðburður er haldinn á Íslandi þá er styrkupphæðin € 214 á dag, hámark 12 dagar. Sjá upphæð vegna leiðbeinanda í öðrum löndum í Erasmus+ handbók.

Hvernig er hægt að finna samstarfsaðila?

Umsækjendur verða sjálfir að finna sína samstarfsaðila og eru upplýsingar um þá hluti af umsókn. Mikilvægt er að vanda vel valið á samstarfsaðilum og kynna sér þeirra reynslu og fagsvið.

Tengslaráðstefnur og námskeið eru skipulögð af landskrifstofum Erasmus+. Þessi námskeið eru kynnt á heimasíðum landskrifstofa og SALTO-Youth jafnóðum og upplýsingar um þær berast .

Skilyrði úthlutunar

Áður en sótt er um þarf að ganga úr skugga um að samtökin/stofnunin/fyrirtækið sem sækir um styrkinn sé með svokallað OID númer. Til að sækja slíkt númer þarf EU-login aðgang. Hér eru nánari upplýsingar um hvernig sótt er um í Erasmus+ sem og ítarlegar leiðbeiningar um EU-login aðgang og OID númer. 

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica