DiscoverEU

Fyrir hverja?

Ungt fólk á 18. ári. Einstaklingar sækja um þátttöku með því að skrá sig til leiks í sérstöku DiscoverEU happdrætti. Svara þarf nokkrum spurningum sem eykur vinningslíkur en dregið er út frá Brussel. Fyrir einstaklinga sem þurfa aukinn stuðning er sérstakur umsóknarfrestur einu sinni á ári, DiscoverEU Inclusion Action (sjá neðar á síðunni). 

Til hvers?

Happdrætti fyrir ungt fólk á 18. ári um lestarpassa sem hægt er að nota nánast ótakmarkað á evrópskum lestarteinum. Passinn gildir í 30 daga á 12 mánaða tímabili. Hver einstaklingur ræður hvenær passinn er notaður á ferðatímabilinu og hversu lengi. Fólk stendur sjálft straum að kostnaði við að borga gistingu og mat en passanum fylgir afsláttarkort sem gildir á 40.000 stöðum vítt og breitt um Evrópu.

Umsóknarfrestur

Opið er fyrir umsóknir tvisvar á ári (að vori og hausti) og eru umsóknarfrestir tilgreindir hér, á samfélagsmiðlum og á www.eurodesk.is

Umsóknir fyrir inngildingarátak DiscoverEU, DiscoverEu Inclusion Action er 4. október nk. 

Read in English

Hvert er markmiðið?

Auka sjálfstæði ungs fólks og kynna þeim fyrir þeim möguleikum sem Evrópa hefur upp á að bjóða. 

Hugmyndin er sú að veita fleira ungu fólki tækifæri til að kynnast betur þvert á landamæri, tungumál og menningu og stuðla þannig að umburðarlyndi. DiscoverEU leit dagsins ljós árið 2018 og yfir 100.000 18 ára ungmenni tóku þátt í allra fyrsta úrdrættinum. 15.000 þeirra fengu 30 daga lestarpassa sem þau gátu notað nánast ótakmarkað á evrópskum lestarteinum. Fyrir mörg var þetta í fyrsta skipti sem þau ferðuðust til útlanda án fullorðinna og mörg sögðu frá því að hafa eignast nýja vini, orðið betri í tungumálum og fengið aukið sjálfstraust.

DiscoverEU Inclusion Action

Einu sinni á ári er hægt að sækja um DiscoverEU Inclusion Action en það gerir fólki með ákveðnar hindranir mögulegt að fara í interrail ferðalag sem það gæti ekki gert án stuðnings. Þetta á t.d. við um fötluð ungmenni, ungt fólk með líkamlega eða andlega heilsufarsörðugleika eða fólk með fjárhagslega erfitt bakland. Styrkurinn sem er innifalinn í DiscoverEU Inclusion Action getur t.d. nýst til að hafa fylgdarmanneskju með í ferðinni eða standa straum af aukalegum kostnaði við að flytja búnað.

Hverjir geta sótt um?

Ungt fólk sem fætt er á ákveðnu tímabili sem tiltekið er við hvern umsóknarfrest og verður 18 ára á tímabilinu þegar ferðast er.

Samtök, sveitarfélög, stofnanir og óformlegir hópar ungs fólks geta sótt um í DiscoverEU Inclusion Action. Hægt er að sækja um DiscoverEU Inclusion Action fyrir einstaklinga eða hópa allt að 5 saman (auk fylgdarfólks). Umsóknarferlið er öðruvísi og berast þessar umsóknir beint til Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi - ólíkt einstaklingsbundnu umsóknunum sem fara allar í sama pott. Athugið að óskað getur verið eftir vottorði til að rökstyðja þörfina á stuðningi. 

Skilyrði úthlutunar

Dregið er úr þátttakendum á handahófskenndan hátt. Ísland fær 48 miða (fjöldinn miðast við hlutfall íbúa m.v. heildarstærð pottsins). Þátttakendur geta aukið líkurnar með því að svara spurningunum fimm í leiknum rétt. 

Nánari upplýsingar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica