Samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar

Fyrir hverja?

Starfsmenntaskólar og aðilar sem starfa á sviði starfsmenntunar geta sótt um styrki til að stuðla að nýbreytni og framþróun í starfsmenntun.

Til hvers?

Samstarfsverkefni veita starfsmenntastofnunum og öðrum aðilum tækifæri til að öðlast reynslu af alþjóðlegu samstarfi og efla hæfni sína. Einnig geta verkefnin snúist um að þróa eða yfirfæra aðferðir eða leiðir í starfsmenntun þar sem áhersla er lögð á nýbreytni og gæði.

Samstarfsverkefni skulu taka mið af stefnumörkun Evrópusambandsins í starfsmenntun. Þau geta verið mismunandi að stærð og gerð og geta meðal annars snúið að því að auka gæði kennslu og annarrar starfsemi á sviði starfsmenntunar.

Í boði eru tvær tegundir verkefna:

 • Stærri samstarfsverkefni (Cooperation Partnerships)

 • Smærri samstarfsverkefni (Small-scale Partnerships).

Sótt er um rafrænt á Erasmus+ og ESC torginu.
Sjá nánari upplýsingar um umsóknarferlið á síðunni Leiðbeiningar fyrir umsækjendur.

Hvert er markmiðið?

Samstarfsverkefnum sem styrkt verða er sérstaklega ætlað að styðja við áherslur Evrópusambandsins á sviði menntunar.

Markmið samstarfsverkefna (Cooperation Partnerships og Small-Scale Partnerships)

 • Að auka gæði starfsemi samstarfsaðilanna í verkefninu og deila nýjungum með öðrum, þvert á fag- og starfsgreinar.

 • Að styrkja stofnanir sem vinna þvert á landamæri og milli mismunandi skólastiga og fagreina.

 • Að mæta sameiginlegum þörfum og forgangsatriðum á sviði menntunar, þjálfunar og æskulýðsstarfs.

 • Að stuðla að framförum (hjá einstaklingum, stofnunum eða innan einstakra geira) sem leitt geta til þróunar og nýrra aðferða sem nýtast aðilum af mismunandi stærð og gerð.

Í minni samstarfsverkefnum (Small-Scale Partnerships) er að auki stefnt að eftirfarandi atriðum:

 • Að auka tækifæri og hvetja til þátttöku nýliða, þeirra sem hafa litla reynslu af því að taka þátt í evrópsku samstarfi og smærri aðila. Þessi verkefni geta verið fyrstu skref Evrópusamstarfs.
 • Að styðja við markmið inngildingar og þátttöku fólks sem hefur færri tækifæri.
 • Að styðja við markmið um virka þátttöku í samfélaginu og að færa Evrópskar áherslur að nærsamfélaginu.

Samþykkt verkefni þurfa sömuleiðis að styðja við evrópsk stefnumið í starfsmenntun um að auka gæði menntunar og stuðla að virkara samstarfi á milli starfsmenntastofnana, atvinnulífs og stjórnvalda til að mæta betur eftirspurn eftir hæfni á vinnumarkaði til framtíðar.

Nánar er fjallað um stefnumörkun á sviði starfsmenntunar í eftirarandi gögnum: The Council Recommendation on vocational education and training, The Osnabrück Declaration, og The European Skills Agenda.

Forgangsatriði

Öll samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar þurfa að styðja við a.m.k. eitt af þeim forgangsatriðum sem ákveðin hafa verið fyrir starfsmenntun og/eða eitt forgangsatriði sem ákveðið hefur verið þvert á öll skólastig/æskulýðsstarf.

Fyrir umsóknarfrest 2024 hafa verið skilgreind eftirfarandi forgangsatriði fyrir samstarfsverkefni á sviði starfsmenntunar:

 • Þróun starfsmenntunar í samræmi við þarfir vinnumarkaðar

 • Aukinn sveigjanleika og tækifæri í starfsmenntun

 • Stuðningur við nýbreytni í starfsmenntun

 • Aukið aðgengi og aðdráttarafl starfsmenntunar

 • Þróun og framkvæmd alþjóðastefnu starfsmenntaskóla

 • Aukið gæðaeftirlit og leiðir til að mæla og auka gæði í starfsmenntun

 • Stuðningur við viðbrögð og verkefni evrópskra mennta- og þjálfunarkerfa sem tengjast afleiðingum stríðsins í Úkraínu

Athugið að nauðsynlegt er að skoða vel hvert forgangsatriði í handbók Erasmus+ þar sem þau eru útskýrð nánar.

Almenn forgangsatriði Erasmus+ áætlunarinnar sem gilda um öll skólastig og æskulýðsstarf (horizontal priorities)  snúa að inngildingu , grænum áherslum , stafrænum áherslum og virkri þátttöku  

Hverjir geta sótt um?

Einungis lögaðilar geta sótt um styrki til að vinna samstarfsverkefni. Áætlunin veitir aðilum sem starfa á sviði starfsmenntunar; skólum, stofnunum, fyrirtækjum, opinberum aðilum, starfsgreinasamböndum og öðrum mögulegum samstarfsaðilum tækifæri til að vinna verkefni með skólum, stofnunum og fyrirtækjum í öðrum löndum í því skyni að auka gæði og samstarf milli starfsmenntunaraðila.

Lögaðilar í þátttökulöndunum Erasmus+ áætlunarinnar geta tekið þátt. Þetta eru Evrópusambandslöndin, EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Tyrklands, Serbíu og Norður-Makedóníu. Einnig er mögulegt er að vinna með aðilum í löndum utan Evrópu og Bretlandi. Þeir geta ekki leitt verkefni en verið fullgildir samstarfsaðilar.

Hvað er styrkt?

Styrkir til samstarfsverkefna eru veittir í formi fastrar upphæðar (lump sum) og umsækjendur geta sótt um eftirfarandi upphæðir

Verkefnaflokkur Styrkupphæð
(lump sum)
Smærri samstarfsverkefni
(Small scale partnerships)
30.000 EUR
60.000 EUR

Stærri samstarfsverkefni
(Cooperation Partnerships)

120.000 EUR
250.000 EUR
400.000 EUR

Allir verkefnastyrkir Erasmus+ eru stuðningur og gera ráð fyrir mótframlagi aðila verkefnisins. Í umsókninni er ekki farið fram á að mótframlag sé útskýrt í smáatriðum heldur þarf áætlaður kostnaður við framkvæmd verkefnisins að vera hærri en styrkupphæðin sem sótt er um.

Við gerð fjárhagsáætlunar ber að hafa í huga að ef hún er metin óraunhæf verður að hafna umsókninni. Við afgreiðslu umsókna er ekki hægt að lækka styrkupphæð sem sótt er um.

Styrkupphæðin snýr að þeim verkþáttum sem leyfilegir eru í Erasmus+ samstarfsverkefnum:

 • Verkefnisstjórn (áætlanagerð, fjármál, samskipti og samhæfing milli samstarfsaðila, eftirfylgni, umsjón o.s.frv)
 • Námsviðburðir (learning activities)
 • Kennslu- og þjálfunarviðburðir (teaching and training activities)
 • Fundir og viðburðir
 • Afurðir verkefnisins (útgefið efni, skjöl, verkfæri, afurðir o.s.frv)
 • Miðlun á niðurstöðum og afurðum verkefnisins

Stærri samstarfsverkefni (Cooperation Partnerships) geta varað í 12 – 36 mánuði

Lágmarksfjöldi samstarfsaðila eru 3 aðilar frá þremur þátttökulöndum Erasmus+. Aðilar frá öðrum löndum geta tekið þátt en ekki verið umsækjendur. Undantekning er Hvíta Rússland en aðilar þaðan geta ekki tekið þátt.

Styrkt verkefni skulu taka mið af stefnumörkun Evrópusambandsins í starfsmenntun og forgangsatriðum sem samþykkt hafa verið fyrir starfsmenntun árið 2022,  s.s. að aðlaga starfsmenntun að vinnumarkaði, auka sveigjanleika og tækifæri í starfsmenntun, stuðla að nýsköpun í starfsmenntun o.fl. 

Smærri samstarfsverkefni (Small-Scale) geta varað í 6 - 24 mánuði.  

Lágmarksfjöldi samstarfsaðila eru tveir aðilar frá tveimur þátttökulöndum Erasmus+. 

Eitt markmiða smærri samstarfsverkefna er að auðvelda aðgengi að Erasmus+ áætluninni fyrir nýliða og minni skóla, stofnanir og fyrirtæki. Einnig að styðja jöfn tækifæri fyrir alla, borgaralega þátttöku og evrópsk gildi í nærsamfélaginu.

Mat á verkefnisumsóknum bæði smærri og stærri samstarfsverkefna er í samræmi við markmið og eðli samstarfsins. Miðað við markmið verkefnanna geta þau verið misstór og byggð upp á mismunandi hátt.

Hvernig er hægt að finna samstarfsaðila?

Umsækjendur finna sjálfir sína samstarfsaðila og eru upplýsingar um þá hluti af umsókn. Mikilvægt er að vanda vel valið á samstarfsaðila og kynna sér þeirra reynslu og fagsvið.

 • Tengslaráðstefnur eru skipulagðar af landskrifstofum Erasmus+. Þessar ráðstefnur eru kynntar á heimasíðum landskrifstofa jafnóðum og upplýsingar um þær berast.

 • EPALE, vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu býður upp á leit að samstarfsaðilum (partner search). Stofnanir eða félagasamtök innan fullorðinsfræðslu geta skráð sig á EPALE og komist í samband við áhugasama aðila í öðrum Evrópulöndum.

 • School Education Gateway er torg þar sem kennarar, skólafólk, sérfræðingar og raunar allir sem tengjast kennslu og skólaþróun á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi koma saman. Þar er m.a. að finna verkfæri sem koma að notum við leit að samstarfsaðilum

 • Í Gagnabanka Erasmus+ verkefna eru upplýsingar um Erasmus+ verkefni sem er lokið;  niðurstöður þeirra og þar er einnig listi samstarfsaðila. Bæði getur verið gagnlegt að skoða þau verkefni sem unnin hafa verið á því sviði sem þú ert að hugsa um og einnig er mögulegt að finna áhugaverða samstarfsaðila.

Skilyrði úthlutunar

Áður en sótt er um þarf að ganga úr skugga um að stofnunin/fyrirtækið sem sækir um styrkinn sé með svokallað OID númer. Til að sækja slíkt númer þarf EU-login aðgang. Hér eru nánari upplýsingar um hvernig sótt er um í Erasmus+ sem og ítarlegar leiðbeiningar um EU-login aðgang og OID númer.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica