17 ný Erasmus+ samstarfsverkefni styrkt um nær 500 milljónir króna

1.10.2025

Í sumar veitti Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi 17 styrki til nýrra samstarfsverkefna á sviði menntunar og æskulýðsmála. Stjórnendur þessara verkefna og starfsfólk Landskrifstofu áttu góðan upphafsfund á Reykjavík Natura þann 25. september, fögnuðu góðum árangri og fóru yfir helstu atriði varðandi framkvæmd verkefna og þátttöku í Erasmus+. 

Upphafsfundir Landskrifstofu eru haldnir til að fara yfir ýmis mikilvæg mál varðandi skyldur styrkhafa og stuðning sem þeir fá frá skrifstofunni í ferlinu. Rætt er um samninginn og samstarfshópinn, fjármál verkefna og kynningarstarf, svo dæmi sé tekið. Á þessum fundi fengu gestir einnig að heyra af reynslu Örvars Birkis Eiríkssonar af því að stýra Erasmus+ verkefni fyrir hönd Selaseturs Íslands og veitti innlegg hans dýrmæta innsýn inn í það sem hafa ber í huga þegar lagt er af stað með verkefni af þessu tagi.

Forstöðukona Landskrifstofunnar, Rúna Vigdís Guðmarsdóttir, ávarpaði fundargesti og rifjaði upp tildrög samstarfsverkefna í núverandi mynd, en þeim er ætlað að styðja stofnanir og samtök í Evrópu í að vinna saman, deila reynslu og koma nýsköpun til leiðar á sviði menntunar og æskulýðsmála. Forgangsatriði Erasmus+ áætlunarinnar, inngilding, grænar áherslur, stafrænar áherslur og virk þátttaka í samfélaginu, hafi endurspeglast skýrt í þeim umsóknum sem hafa borist Landskrifstofu á tímabilinu og þeim verkefnum sem þegar hafa orðið að veruleika. Þá sé það gleðiefni að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi lagt fram drög að reglugerð fyrir næstu kynslóð Erasmus+ þar sem byggt er á velgengni fyrri ára en leitast við að einfalda þar sem kostur er. Þannig séu send sterk skilaboð um að menntun og æskulýðsmál séu mikilvægasta leiðin til að fjárfesta í fólki og færni.

Mikil samkeppni er um styrki til Erasmus+ samstarfsverkefna. Þau verkefni sem sköruðu fram úr að þessu sinni hlutu samtals 3,4 milljónir evra eða 484 milljónir íslenskra króna. Þau þykja sýna fram á sannfærandi og metnaðargjörn áform og takast á við fjölbreytt viðfangsefni sem eiga það sameiginlegt að falla vel að markmiðum áætlunarinnar. Verkefnin leitast við að bæta daglegt líf, seiglu og færni fólks á ólíkum sviðum og efla inngildingu í samfélaginu. Nánari upplýsingar um styrkt verkefni má finna á yfirlitssíðu Erasmus+ yfir styrkúthlutanir.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á upphafsfundinum þann 25. september af tengiliðum verkefnanna og starfsfólki Landskrifstofu. Nú tekur við spennandi vinna hjá styrkhöfunum við að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Við vonum að þau hafi haft gagn og gaman af fundinum og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn!

Styrkhafar í starfsmenntahluta:
Tómas Guðmundsson fulltrúi Tækniskólans og Inga Birna Antonsdóttir fulltrúi Iðunnar fræðsluseturs ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Margréti verkefnisstjóra starfsmenntahluta.





Styrkhafar í fullorðinsfræðslu:
Ingveldur Sæmundsdóttir og Helga Kristín Sæbjörnsdóttir, fulltrúar Háskólafélags Suðurlands, Erla Björgvinsdóttir og Örvar Birkir Eiríksson, fulltrúar Selaseturs Íslands, Stefanía V. Gísladóttir, fulltrúi samtakanna Landsbyggðin lifi, og Elfa Hermannsdóttir, fulltrúi Sjónstöðvarinnar, ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Jóni Svani verkefnisstjóra fullorðinsfræðslu og skólahluta.

Styrkhafar í leik-, grunn- og framhaldsskólahluta:
Guðmundur Stefán Gíslason, fulltrúi Fjölbrautaskólans í Garðabæ, Hjörtur Ágústsson, fulltrúi Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, Kristín Harðardóttir, fulltrúi Háskóla Íslands, og Ólafur Jón Arnbjörnsson, fulltrúi GeoCamp Iceland, ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Jóni Svani verkefnisstjóra fullorðinsfræðslu og skólahluta.

Styrkhafar í háskólahluta:
Pia Hansson, Kristín Harðardóttir og Ríkey Þöll Jóhannesdóttir, fulltrúar Háskóla Íslands, ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Huldu verkefnisstjóra háskólahluta.





Styrkhafar í æskulýðshluta:

Pétur Ásmundsson og Lilja Björk Haraldsdóttir fulltrúar Reykjavík Dance Festival, Sigurjón Már Fox Gunnarsson fulltrúi Heimila og skóla ásamt starfsfólki Landskrifstofu: Rúnu forstöðukonu, Júlíönu verkefnisstjóra fjármála og Tönju Teresu verkefnisstjóra æskulýðshluta.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica