Evrópusambandið boðar aukinn stuðning við Erasmus+ á nýju tímabili

26.8.2025

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram tillögu að fjárlögum fyrir tímabilið 2028-2034 þann 16. júlí. Um leið voru kynnt drög að reglugerð fyrir næstu kynslóð Erasmus+ þar sem stefnt er að 50% hækkun á fjármagni borið saman við núverandi áætlun. Byggt verður á velgengni fyrri ára en leitast við að einfalda áætlunina eins og kostur er.

Reglugerðin um Erasmus+ gengur út frá því að menntun, þjálfun, æskulýðsmál og íþróttir séu mikilvægasta leiðin sem Evrópusambandið hefur til að fjárfesta í fólki, efla færni og styrkja tengsl milli landa. Markmiðið með áætluninni er ætlað að bregðast við þeim áskorunum sem þessi svið mæta, til dæmis þegar kemur að því að tryggja grunnfærni, félagslegan jöfnuð og lýðræðislega þátttöku. Með tækifærum til ferða og samstarfs þvert á landamæri getur Erasmus+ beint sjónum sínum að þessum þáttum og þannig lagt sitt af mörkum til að efla samkeppnishæfni Evrópu.

Samkvæmt drögunum mun Erasmus+ fela í sér tækifæri fyrir ungt fólk að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt, til að mynda gegnum sjálfboðaliðastörf. Verði tillagan að veruleika munu þannig European Solidarity Corps og Erasmus+ mynda sameinaða áætlun og veita ungu fólki einfaldaðan aðgang að evrópskum styrkjum.

Fjárlög Evrópusambandsins (ESB) 2028-2034 í heild nema hátt í tvö þúsund milljörðum evra hljóti tillagan brautargengi. Í henni leggur ESB áherslu á aukna skilvirkni, samstöðu og mikilvægi þess að hægt sé að bregðast við ófyrirsjáanlegum atburðum. Í september verður hún tekin til meðferðar ráðherra- og leiðtogaráði ESB. Þá munu aðildarríkin og Evrópuþingið þurfa að samþykkja hana áður en fjárlögin taka gildi. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica