Jólakveðja frá Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps

18.12.2023

Árið er senn á enda og jólahátíðin á næsta leiti. Starfsfólk Landskrifstofu óskar umsækjendum og styrkhöfum árs og friðar og minnir á spennandi sóknarfæri á nýju ári. 

Það var sannkölluð jólastemning í húsakynnum Rannís í Borgartúni þann 7. desember þegar starfsfólk Landskrifstofu bauð í aðventukaffi. Viðburðurinn var vel sóttur og gott að eiga samtal um styrktækifæri í Erasmus+ og European Solidarity Corps með jólaöl og piparkökur við hönd. Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og hlökkum til að taka á móti umsóknum þeirra á nýju ári.

Aðventukaffið var liður í kynningarstarfi Landskrifstofu fyrir umsóknarfresti í febrúar og mars 2024, en á næstu vikum og mánuðum verða ýmsir viðburðir í boði til að fjalla nánar um þau verkefni sem hægt er að þróa innan áætlananna tveggja. Vinsamlegast athugið að skrifstofa Rannís er lokuð milli jóla og nýárs.

Við viljum þakka umsækjendum og styrkhöfum í Erasmus+ og ESC nær og fjær fyrir samstarfið á árinu sem er að líða. Við óskum ykkur gleðilegra jóla og vonum að dýrmæt tækifæri til Evrópusamstarfs falli ykkur í skaut með hækkandi sól. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica