845 milljónum króna úthlutað í Erasmus+ náms- og þjálfunarstyrki

29.5.2020

  • Matsmenn_erasmus

Nú á vormánuðum var úthlutað 845 milljónum króna (5,4 milljónum evra) til 62 fjölbreyttra verkefna og njóta ríflega eitt þúsund einstaklingar frá skólastofnunum, fræðsluaðilum og fyrirtækjum góðs af styrkjunum að þessu sinni.

Þátttaka sveitarfélaga er alltaf að aukast, sem er gleðiefni. Gegnum hana fá fjölmargir kennarar og stjórnendur í leik- og grunnskólum um allt land tækifæri til að sækja sér þekkingu og reynslu í hinum ýmsu löndum Evrópu.

Náms- og þjálfunarverkefni gefa nemendum og starfsfólki skóla á öllum skólastigum, fræðslustofnana og fyrirtækja sem sinna menntun eða fræðslu, tækifæri til að taka hluta af námi eða sinna starfsþjálfun og kennslu í 33 Evrópulöndum. Að auki geta háskólar sótt um samstarfsstyrki við lönd utan Evrópu. Eins og undanfarin ár var hæstum styrkjum úthlutað til Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Tækniskólans.

Erasmus+ mennta- og æskulýðsáætlun Evrópusambandsins er stærsta áætlun í heimi á þessu sviði. Ísland fær árið 2020 um 10 milljónir evra eða ríflega 1,5 milljarð króna til úthlutunar. Þar af er 1.300 m.kr. til menntahlutans og um 250 m.kr. til æskulýðshlutans. Markmið Erasmus+ áætlunarinnar eru að ýta undir nýsköpun og þróun á evrópskum menntakerfum, meðal annars með því að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnþætti eins og læsi og stærðfræði, auka alþjóðasamstarf háskóla, efla sköpunargáfu og frumkvæði nemenda, vinna gegn brotthvarfi, innleiða upplýsingatækni, efla starfsemi skólabókasafna og almennt efla gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi. Þetta er síðasta ár núverandi áætlunar, en stefnt er að því að næsta kynslóð Erasmus+ fyrir tímabilið 2021-2027 verði enn aðgengilegri en áður og muni stuðla að jöfnum tækifærum og fjölbreytni í samfélaginu af auknum krafti.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica