Lokað er fyrir umsóknir í alla flokka.
Með Erasmus+ gefst menntastofnunum og aðilum sem sinna menntun á öllum skólastigum tækifæri til að auka alþjóðavæðingu í skólastarfi, miðla eigin reynslu og sækja þekkingu til annarra Evrópulanda.
Markmið áætlunarinnar eru meðal annars að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnfærni einstaklinga, s.s. læsi og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvöðlakennslu, vinna gegn brotthvarfi, styðja við aðlögun innflytjenda, innleiða upplýsingatækni í menntun, efla starfsmenntun, þróa nýjar námsleiðir og kennsluaðferðir og almennt að auka gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að tækifærin geta verið ólík á milli markhópa og skólastiga.
Stofnanir (lögaðilar) á sviði menntunar geta sótt um styrki úr Erasmus+. Þetta geta verið leik-, grunn- eða framhaldsskólar, starfsmenntaskólar, háskólar, fullorðinsfræðsluaðilar sem og tónlistar- eða listnámsskólar sem starfa eftir viðurkenndri námskrá. Skólayfirvöld og sveitarfélög, sem og fyrirtæki sem sinna menntun, geta einnig sótt um styrki.
Einstaklingar geta ekki sótt beint um styrki úr áætluninni heldur sækja starfsfólk og nemendur um styrki til sinna stofnana.
Sótt er um á rafrænum umsóknareyðublöðum sem aðgengileg eru á síðum viðkomandi undirflokks. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi hefur tekið saman sérstakar leiðbeiningar fyrir umsækjendur um hvað beri að hafa í huga þegar sótt um styrk í Erasmus+.
Umsóknafrestir eru einu sinni á ári í Námi og þjálfun (febrúar) og Samstarfsverkefnum (mars) en umsóknafrestir í Stuðningi við stefnumótun dreifast yfir árið.
Erasmus+ veitir styrki í þremur verkefnaflokkum:
Erasmus+ veitir skólastofnunum og öðrum sem sinna menntun á öllum skólastigum styrki til að senda starfsfólk sitt og/eða nemendur í náms- eða þjálfunarferðir til lengri eða skemmri tíma (frá tveimur dögum upp í heilt ár) í einhverju þátttökulandi Erasmus+ .
Samstarfsverkefni eru þematengd verkefni sem eiga að stuðla að nýsköpun í menntun á öllum skólastigum og yfirfærslu þekkingar og reynslu á milli Evrópulanda.
Ath! Framkvæmdastjórnin í Brussel annast umsýslu umsókna og styrkja þegar um er að ræða sértæk samstarfsverkefni ( Sector Skills Alliances , Knowledge Alliances og Capacity Building) .
Erasmus+ styrkir einnig verkefni sem tengjast samvinnu stjórnvalda og ólíkra hópa um stefnumótun í menntun innan Evrópu. Verkefnin skulu miða að því að ná fram markmiðum ESB um vöxt og þróun sambandsins og menntun til ársins 2020. Þó flestir styrkirnir séu ætlaðir stjórnvöldum eru einstaka styrkir auglýstir til umsókna, s.s. styrkir til ýmissa rannsóknaverkefna.
Ath! Framkvæmdastjórnin í Brussel annast umsýslu umsókna og styrkja þegar um er að ræða Stuðning við stefnumótun. Starfsfólk Landskrifstofu menntahluta Erasmus+ eru landstengiliðir fyrir þennan flokk verkefna og veita upplýsingar um þau.
Framkvæmdastjórn ESB styður við ýmis verkefni sem ætlað er að styðja við evrópskt samstarf á sviði menntunar. Rannís hefur umsjón með nokkrum þeirra en öðrum er miðstýrt (í umsjón Framkvæmdastjórnarinnar í Brussel).
eTwinning er aðgengilegt skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum, svo nokkuð sé nefnt, allt með hjálp upplýsingatækni.
EPALE er vefsvæði þar sem fagfólk í fullorðinsfræðslu getur bloggað, deilt fréttum og auglýsingum um viðburði og sótt efni í gagnabanka. EPALE vefgáttin veitir aðgang að lokuðum, gagnvirkum vefsvæðum þar sem hægt er að láta álit sitt í ljós, taka þátt í umræðum og eiga frumkvæði að umræðu um ýmis viðfangsefni.
Europass er fyrir alla sem vilja skjalfesta nám sitt eða reynslu innan 32 landa Evrópu. Í Europass möppunni eru öll skírteini, samhæfð fyrir öll lönd Evrópu, sem skipta máli vegna menntunar- og starfshæfni einstaklings.
Allar umsóknir eru metnar á grundvelli viðmiða (award criteria) sem gilda fyrir viðkomandi flokk og viðkomandi umsóknarfrest og eru birt í Erasmus+ handbókinni (Programme Guide).
Sérfræðingar meta umsóknir og fjöldi sérfræðinga er misjafn eftir verkefnaflokkum og stærð verkefna hverju sinni. Í flestum tilfellum eru fengnir utanaðkomandi sérfræðingar til að gæta hlutleysis. Stundum eru bæði utanaðkomandi sérfræðingar og sérfræðingar af landskrifstofu fengnir til að meta umsóknir, allt eftir eðli og umfangi umsókna. Hægt er að gera athugasemdir við ákvörðun Landskrifstofu innan mánaðar frá ákvörðun.
Rannís er landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi.