Styrkir til verkefna í æskulýðsstarfi

Evrópa unga fólksins veitir styrki til æskulýðsgeirans á Íslandi úr Erasmus+ sem er mennta-, æskulýðs- og íþróttaáætlun ESB.


Evrópa unga fólksins er þjónustuskrifstofa og þekkingarmiðstöð fyrir æskulýðsstarf á Íslandi sem veitir styrki úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins til verkefna í æskulýðsstarfi. Evrópa unga fólksins miðlar þekkingu um æskulýðsstarf og óformlegt nám á Íslandi á ýmsa vegu og styður við símenntun æskulýðsstarfsfólks, meðal annars með því að styrkja það til þess að sækja námskeið í Evrópu.

Umsóknarfrestir

Í æskulýðshluta Erasmus+ eru þrír umsóknarfrestir;

15. febrúar, 26. apríl og 4. október.

Ath. Aðeins er tekið á móti umsóknum um nýsköpunarverkefni 26. apríl.

Nánari upplýsingar um þá styrki veitir starfsfólk Evrópu unga fólksins

Hvaða styrki er hægt að sækja um fyrir æskulýðsstarf?


Erasmus+ styrkir skiptast í þrjá flokka með ólíkar áherslur.

1.  Óformlegt nám og þjálfun í æskulýðsstarfi

Verkefni í þessum flokki snúast öll um ferðir milli landa í Evrópu. Þau snúast um að fólk frá ólíkum löndum umgangist hvert annað og læri af hvert öðru. Hægt er að sækja um meira en eina verkefnisgerð í hverri umsókn, t.d. er hægt að sækja um námsferð starfsmanna og ungmennaskipti innan ramma sama verkefnis og í einni umsókn.

 • EVS sjálfboðaverkefni
  Samtök og stofnanir geta tekið á móti sjálfboðaliðum frá Evrópu eða aðstoðað íslensk ungmenni til að fara í sjálfboðastarf.
 • Ungmennaskipti
  Hópar ungs fólks, 13-30 ára, frá tveimur eða fleiri Evrópulöndum hittast og gera eitthvað saman í 5-21 dag.
 • Þjálfun starfsmanna
  Styrkir vegna heimsókna, ráðstefna, námskeiðshalds o.fl. fyrir þá sem sinna málefnum ungs fólks.

2.  Samstarfsverkefni

Samstarfsverkefni snúast um að stofnanir, samtök eða óformlegir hópar ungs fólks vinni saman þvert á landamæri til þess að ná settum markmiðum. Samstarfsverkefni eru tækifæri fyrir æskulýðsgeirann til að skipuleggja stærri og áhrifameiri verkefni.

 • Frumkvæði ungs fólks
  Styrkir fyrir hópa ungs fólks, 15-30 ára, í tveimur eða fleiri löndum til að framkvæma hugmyndina sína.
 • Yfirfærsla þekkingar
  Fjölþjóðleg verkefni sem snúast um þekkingartilfærslu milli aðila sem starfa í æskulýðsgeiranum.
 • Nýsköpun í æskulýðsstarfi
  Stór fjölþjóðleg verkefni sem snúast um nýsköpun í æskulýðsstarfi. Styrkur fyrir launum starfsmanna við þróunarvinnu.

3.  Stefnumótun í æskulýðsstarfi

Stuðningur við stefnumótun í málefnum ungs fólks.

 • Fundir ungs fólks og ráðamanna
  Tækifæri fyrir ungt fólk til að eiga samtal við ráðamenn um málefni samfélagsins og sérstaklega málefni sem brenna á ungu fólki. Þessi verkefni geta bæði verið innlend og fjölþjóðleg.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica