Tökum þátt í inngildingu: Leiðarvísir um inngildingu fatlaðs fólks í evrópskum æskulýðsverkefnum

22.11.2022

Nýjar kynslóðir áætlananna Erasmus+ and European Solidarity Corps Programmes 2021-2027 eru mun meira inngildandi en þær fyrri . Sérstakur fjárstuðningur til að jafna tækifæri, ný verkefnasnið, einfölduð umsóknarferli og fleiri tækifæri til þjálfunar og tengslamyndunar hafa auðveldað áætlununum að ná til ungmenna sem hafa færri tækifæri en félagar þeirra til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum.

Í nóvember á síðasta ári var gefinn út bæklingurinn Engage in inclusion og var hann formlega kynntur á SALTO námskeiði í Reykjanesbæ þar sem kynntar voru mismunandi leiðir til inngildingar fatlaðs fólks. Honum er ætlað að styðja við þátttakendur í áætlununum og hjálpa verkefnisstjórum að gera verkefnin sín aðgengilegri. Hægt er að nálgast leiðarvísinn hér á síðunni bæði á PDF-formi og textaformi.

Leiðarvísirinn var gefinn út af Stefnumótandi samstarfi um inngildingu (Strategic Partnership on Inclusion, SPI) – samvinnuverkefni nokkurra landskrifstofa Erasmus+ sem vilja stuðla að betra aðgengi að Erasmus+. Höfundur hans er Elżbieta Kosek og við færum þeim Björgu Árnadóttur og Gunnhildi Sigurhansdóttur bestu þakkir fyrir samstarfið við að koma honum út í íslenskri útgáfu.

Leiðarvísirinn er ætlaður félagasamtökum, fagfólki og leiðbeinendum sem hafa reynslu af að skipuleggja evrópsk æskulýðsverkefni en hefur ekki enn gefist kostur á að virkja fötluð ungmenni og ungt fólk með heilsufarsvanda í verkefnum sínum. Markmiðið er að vísa fagfólki veginn í átt að starfsháttum inngildingar og fjölbreytileika og að auka þekkingu þess á vinnu með fötluðum ungmennum og ungu fólki með heilsufarsvanda.

Hér er dregin upp hnitmiðuð heildarmynd af inngildandi æskulýðsstarfi og um leið góð ráð gefin um undirbúning, innleiðingu og eftirfylgni verkefna. Auk þess vekur leiðarvísirinn athygli á fjárstuðningi til að jafna tækifæri, sem er sérstakt áhersluatriði beggja áætlananna. Hann býður líka upp á gátlista fyrir fólk og félagasamtök til að veita yfirlit yfir þá þætti sem styðja við inngildandi æskulýðsstarfs. Við vonumst til að hann geti nýst sem flestum við að gera verkefnin sín aðgengileg öllum, hvort sem er á sviði æskulýðsmála eða annarra hluta Erasmus+.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica