Sjálfboðaliðum þakkað fyrir sitt dýrmæta framlag á sjálfboðaliðadeginum 5. desember

10.12.2025

Í tilefni alþjóðlega sjálfboðaliðadagsins 5. desember bauð Landskrifstofan öllum þeim sjálfboðaliðum sem eru á Íslandi á vegum European Solidarity Corps á viðburð þar sem mikilvægi sjálfboðaliðastarfs var gert hátt undir höfði.

Á viðburðinum kynntu sjálfboðaliðarnir ólík verkefni sem þau taka þátt í. Íslenskar jólahefðir voru í forgrunni og þátttakendur föndruðu jólakort af mikilli snilld. Samveran var afar notaleg og hápunkturinn var jólahlaðborð í lokin eins og þau gerast best.

Sjálfboðaliðar eru mjög mikilvægir hlekkir í okkar samfélagi. Í ESC-verkefnum eru sjálfboðaliðarnir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára með fjölbreyttan bakgrunn og menntun.

Það sem sameinar þessa ólíku einstaklinga er meðal annars viljinn til þess að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, sækja sér nýja reynslu, uppgötva eigin styrkleika og kynnast landi okkar og menningu.

Verkefnin sem þau taka þátt í eru eins fjölbreytt og þau eru mörg. Á alþjóðlegum degi sjálfboðaliða gefst Landskrifstofu tækifæri til að færa þeim innilegar þakkir – þakkir fyrir ómetanlegt framlag, hugrekki og tíma sem þau gefa til nærsamfélagsins þannig að ólíkir hópar njóta góðs af. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica