Sjálfboðaliðaverkefni

Fyrir hverja?

Ungt fólk á aldrinum 18-30 ára. Sjálfboðaliðaverkefni geta verið annars vegar í Evrópu og hins vegar innanlands. Frá og með 2022 getur ungt fólk á aldrinum 18-35 ára farið til landa utan Evrópu til þess að sinna mannúðaraðstoð. Samtök og sveitarfélög geta sótt um að taka á móti eða senda einstaklinga í 2-12 mánuði, einnig er hægt að senda eða taka á móti einstaklingum sem þurfa meiri stuðning í 2 vikur til 2 mánuði. Hópar geta einnig tekið þátt í 2 vikur til 2 mánuði og þá sem 5-40 manns saman.

Til hvers?

Að hvetja til aukinnar samstöðu með sjálfboðastarfi. Að efla þátttöku ungs fólks og samtaka í vandaðri sjálfboðaliðaáætlun. Að efla samheldni, lýðræði og borgaralega þátttöku í Evrópu auk þess að stuðla að félagslegri aðlögun. Einnig að tryggja þátttöku ungs fólks með færri tækifæri með ýmsum sérstökum úrræðum. Að stuðla að evrópskri samvinnu fyrir ungt fólk og vekja athygli á jákvæðum áhrifum þess.

Umsóknarfrestur

Sjá síðu um umsóknarfresti

Sótt er um rafrænt á Erasmus+ og ESC torginu. Sjá nánari upplýsingar um umsóknarferlið á síðunni Leiðbeiningar fyrir umsækjendur

Þau sem vilja gerast sjálfboðaliðar geta þó alltaf sótt um í gegnum evrópsku ungmennagáttina.

Hvert er markmiðið?

Sjálfboðaliðastörf hafa tvíþættan ávinning; annars vegar fyrir sjálfboðaliðann og svo hins vegar fyrir nærumhverfið sem nýtur góðs af sjálfboðaliðastörfunum. Að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum er hvetjandi og styrkjandi upplifun fyrir þau sem vilja hjálpa öðrum og þroskast á sama tíma.  Unnið er út frá hugmyndafræði um óformlegt nám sem eykur fjölbreytta færni ungs fólks við þátttöku.

Hver eru forgangsatriði áætlunarinnar?

Inngilding og fjölbreytileiki eru meðal helstu forgangsatriða European Solidarity Corps auk þess að lagt er áhersla umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, loftlagsaðgerðir, stafræna væðingu, lýðræðislega þátttöku, forvarnir og heilbrigðismál.

Hverjir geta tekið þátt?

Áætlunin er opin öllum og er lögð áhersla á inngildingu svo allir geti tekið þátt. Stofnanir og samtök þurfa Gæðavottun til að geta tekið á móti sjálfboðaliðum og sótt um fjármagn.  Ungt fólk getur boðið sig fram í sjálfboðaliðaverkefni í Evrópu.

Hvað er gæðavottun (e. Quality Label)?

Þau samtök og stofnanir sem vilja senda eða taka á móti sjálfboðaliðum þurfa að sækja um Gæðavottun sem staðfestir að umsækjandi hefur getu og burði til að framkvæma gæðaverkefni. Samtök eða stofnanir sem vilja sækja um fjármagn þurfa að gera grein fyrir því í þessari umsókn. Þátttökusamtök eða stofnanir vinna út frá gæðastöðlum og meginmarkmiðum áætlunarinnar:

 • að skapa jöfn tækifæri og vinna gegn mismunun
 • passa að ekki sé gengið í launuð störf
 • bjóða upp á gæðaverkefni við hæfi
 • aðgengileg og inngildandi verkefni
 • öruggan og mannsæmandi aðbúnað
 • ekki hagnaðardrifin verkefni

Að auki leggur landskrifstofa áherslu á að sjálfboðaliðar hafi aðgang að mentor á meðan á dvöl þeirra stendur, að notaðar séu viðurkenndar ígrundunarleiðir til að meta lærdóm og reynslu sjálfboðaliða t.d. með YouthpassUmsóknarformið er hægt að nálgast hér og hægt að skila því inn hvenær sem er.

Upplýsingar um dreifingu fjármagns og úthlutunarreglur

Hér er að finna upplýsingar um dreifingu fjármagns og úthlutunarreglur um fjármagn vegna verkefna sem eru lögð fram af samtökum eða stofnunum með Gæðavottun sem ætla sér að sækja um fjármagn í European Solidarity Corps áætluninni.   

European Solidarity Corps sjálfboðaliðaverkefni
(með gæðavottun fyrir leiðandi samtök/stofnanir)

€ 664.470

Fjármagn sem er til úthlutunar verður ráðstafað til bestu verkefnanna samkvæmt skilgreindum úthlutunarreglum.  Skjalið hér að neðan skilgreinir reglurnar sem gilda við úthlutun.

Úthlutunarreglur fjármagns fyrir European Solidarity Corps Gæðavottun

Hvernig verkefni eru þetta?

Verkefnin eru fjölbreytt en snúast um að sjálfboðaliðarnir séu að gefa af sér til samfélagsins. Viðfangsefnin geta verið að aðstoða fjölbreytta þjóðfélagshópa, sinna umhverfismálum, miðla menningu og listum og margt fleira.

 • Einstaklingsverkefni - í Evrópu eða innanlands í 2-12 mánuði fyrir 18-30 ára
 • Hliðarverkefni - tengjast verkefninu sem er í framkvæmd með því að auka gildi, árangur og áhrif þess á nærsamfélagið, innanlands eða á evrópska vísu.  Vekja athygli á gildi sjálfboðastarfs fyrir ungt fólk og samfélagið auk þess að viðurkenna þá færni og reynslu sem sjálfboðaliðar öðlast.  Þetta geta verið vinnusmiðjur, ráðstefnur, námskeið, starfsspeglun, skipti á góðum starfsháttum o.fl.
 • Hópaverkefni - innanlandsverkefni í 2 vikur - 2 mánuði fyrir 5-40 einstaklinga á aldrinum 18-30 sem mynda hópinn. A.m.k. fjórðungur hópsins þarf að koma erlendis frá
 • Undirbúningsheimsókn - fara fram hjá móttökusamtökum og eru hugsaðar til að styðja við inngildingarverkefni með undirbúningi, mynda traust og gott samstarf milli samtaka og þátttakenda.  Ungt fólk sem þarf aukinn stuðning geta tekið þátt í heimsókninni til að undirbúa þátttöku þeirra.

Hvað er styrkt?

 • Verkefnastjórnunarstyrkur: € 238 fyrir hvern einstakling en að hámarki € 4.500 fyrir hvert verkefni. € 125 fyrir hvern einstakling í verkefni sjálfboðaliðahópa en að hámarki € 2.000 fyrir hvert verkefni. Hér er átt við kostnað sem tengist undirbúningi, fjármálum, samskiptum við samstarfsaðila o.s.frv.
 • Umsýslustyrkur: € 36 á einstakling á hvern dag í verkefni á Íslandi
 • Vasapeningur: € 8 á dag fyrir sjálfboðaliða á Íslandi.
 • Inngildingarstyrkur: € 12 á dag fyrir einstakling sem þarf aukinn stuðning mentors, t.d. undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sérsniðinna verkefna.
 • Tungumálastyrkur: € 150 fyrir tungumálanámskeiði hvers sjálfboðaliða.
 • Styrkur vegna ferðakostnaðar þeirra sem búa fjarri alþjóðaflugvöllum - 80% raunkostnaður.
 • Styrkur vegna vegabréfsáritana, bólusetninga og læknisvottorða - 100% raunkostnaður

Styrkur vegna inngildingar: 100% raunkostnaður. Hér er átt við aukinn stuðning fyrir þátttakendur til jafnrar þátttöku sem getur t.d. falist í því að bæta kostnað ferða og uppihalds fyrir sérfræðinga eins og fylgdarmanneskjur, iðju/þroskaþjálfa, sálfræðinga, túlka o.fl.


Ferðakostnaður: Styrkur vegna ferða fyrir alla þátttakendur mældur í vegalengdum á milli staða. Þau sem ferðast með grænum ferðamáta geta fengið allt að fjóra ferðadaga. Hér er reiknivél fyrir vegalengdir.

Vegalengd Hefðbundinn ferðastyrkur

Grænn

ferðamáti

0 – 99 km € 28  € 56
100 – 499 km € 211 € 285
500 – 1999 km € 309 € 535
2000 – 2999 km € 395 € 535
3000 – 3999 km € 580 € 785
4000 – 7999 km € 1.188 € 1.188
8000 km og lengra € 1.735 € 1.735

Hvernig sæki ég um Sjálfboðaliðaverkefni?

Samtök og stofnanir sækja sér OID númer í gegnum organisation registration system. Því næst er sótt um Gæðavottun sem þarf til að tryggja að umsóknaraðili fylgi markmiðum áætlunarinnar. Svo er sótt um í gegnum rafrænt umsóknarkerfi. Gæðaviðurkenning (Quality label ESC50) og Volunteering projects (ESC51-VTJ).

Ungt fólk sem hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði skráir sig í vefgátt European Solidarity Corps. Þar eru aðgengileg þau verkefni þar sem óskað er eftir sjálfboðaliðum og þar er einnig hægt að búa til prófíl sem verkefnastjórar geta séð.

Sjálfboðaliði - Júlía

Sjálfboðaliði - Guðmundur
Þetta vefsvæði byggir á Eplica