Viltu gerast sjálfboðaliði?

 • Hopefli

Sjálfboðaliðastörf eru fyrir ungt fólk á aldrinum 18-30 ára. Hægt er að skrá sig 17 ára en dvölin getur ekki hafist fyrr en viðkomandi hefur náð 18 ára aldri. Sjálfboðaliðastörf eru fyrir ungt fólk sem vilja auka víðsýni, láta gott af sér leiða, kynnast nýju landi og menningu og öðlast nýja færni.

Ungt fólk getur farið sem sjálfboðaliðar í 2-12 mánuði. Þar sem áætlunin býður upp á jöfn tækifæri fyrir alla þátttakendur, er ungmennum sem þurfa aukinn stuðning til þátttöku gefinn kostur á að vera allt niður í tvær vikur. Sjálfboðaliðastörfin fara fram í 30-38 stundir á viku þar sem ungt fólk leggur sitt af mörkum hjá móttökusamtökum í þágu samfélagsins þar sem samtökin/stofnunin er staðsett.  

Frá og með 2022 getur ungt fólk á aldrinum 18-35 ára farið til landa utan Evrópu til þess að sinna mannúðaraðstoð. 

Hvernig verkefni eru þetta?

Hægt er að gerast sjálfboðaliði sem einstaklingur í öðru landi eða á Íslandi, en einnig er hægt að taka þátt í hópverkefnum sem eru framkvæmd á Íslandi.

Umsóknarfrestur

Hægt er að sækja um að gerast sjálfboðaliði hvenær sem á vef Evrópsku Ungmennagáttarinnar.  Þau tilboð sem eru virk og í boði hverju sinni birtast þar á síðunni og er hægt að skoða verkefnin út frá löndum, viðfangsefnum, lengd verkefna o.s.frv.

Hvert er markmiðið?

Áætluninni er ætlað að auka lýðræðislega og borgaralega þátttöku ungs fólks ásamt því að hvetja til samstöðu (e. solidarity) í Evrópu.  Upplifunin af því að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum skilar ungu fólki margvíslega reynslu og færni sem nýtist þeim út lífið.  Helst ber að nefna aukið sjálfstæði og sjálfsöryggi ásamt því að eiga auðveldara með að tjá sig og kynnast nýju fólki.

Áhersluatriði áætlunarinnar

 • Virk lýðræðisleg og borgaraleg þátttaka ungs fólks 

 • Inngilding og fjölbreytileiki - að auka aðgengi ungs fólks að jákvæðum og uppbyggilegum verkefnum sem hvetja til umburðarlyndis og styðja við mannréttindi

 • Þróa með sér lífsleikni eins og fjölmenningarlega færni, lausnamiðaða hugsun og tungumálakunnáttu

 • Efla stafræna færni, sem er ómissandi þáttur í að takast á við áskoranir samtímans og framtíðarinnar

 • Rækta persónulegan þroska, sjálfstraust og hæfni til að laga sig að nýjum aðstæðum

 • Umhverfisvernd, sjálfbær þróun, loftlagsaðgerðir, forvarnir og heilbrigðismál

Hverjir geta sótt um?

Allt ungt fólk á aldrinum 18-30 ára getur sótt um (18-35 ára fyrir sjálfboðaliðaverkefni utan Evrópu miðuð að mannúðaraðstoð).  Dæmi er um að ungt fólk í Evrópu gerist sjálfboðaliðar á milli námsstiga eða eftir nám, auk þess að gerast sjálfboðaliðar á þeim vettvangi sem þau vilja læra eða vinna við í framtíðinni.  

Hvernig virkar styrkurinn?

Einstaklingur sem gerist sjálfboðaliði í European Solidarity Corps áætluninni þarf ekki að borga fyrir þátttöku í verkefnum.  Áætlunin á að vera aðgengileg öllu ungu fólki á aldrinum 18-30 ára og það þýðir að ferðakostnaður, gisting, uppihald og vasapeningur er innifalin í þátttöku í verkefnum á vegum áætlunarinnar.  Samtökin sem taka á móti sjálfboðaliðum fá styrkinn og þau sjá um að útvega þér gistiaðstöðu, mat og vasapening.

Styrkur vegna inngildingar: 100% raunkostnaður. Hér er átt við aukinn stuðning fyrir þátttakendur til jafnrar þátttöku sem getur t.d. falist í því að bæta kostnað ferða og uppihalds fyrir sérfræðinga eins og fylgdarmanneskjur, iðju-/þroskaþjálfa, sálfræðinga, túlka o.fl.

Ferðakostnaður: Styrkur vegna ferða fyrir alla þátttakendur mældur í vegalengdum á milli upphafsstaðar og þar sem sjálfboðaliðastörfin fara fram. Þau sem ferðast með grænum ferðamáta geta fengið allt að fjóra ferðadaga. Hér er reiknivél fyrir vegalengdir.

Vegalengd Hefðbundinn ferðastyrkur

Grænn

ferðamáti

0 – 99 km € 23  
100 – 499 km € 180 € 210
500 – 1999 km € 275 € 320
2000 – 2999 km € 360 € 410
3000 – 3999 km € 530 € 610
4000 – 7999 km € 820  
8000 km og lengra € 1500  
 • Styrkur vegna ferðakostnaðar þeirra sem búa fjarri alþjóðaflugvöllum - 80% raunkostnaður.
 • Styrkur vegna vegabréfsáritana, bólusetninga og læknisvottorða - 100% raunkostnaður.
 • Inngildingarstyrkur: fyrir aukinn stuðning mentors, t.d. undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni sérsniðinna verkefna.
 • Vasapeningur: € 3-6 á dag fyrir sjálfboðaliða, fer eftir því í hvaða landi sjálfboðaliðastörfin fara fram.
 • Tungumálastyrkur: tungumálanámskeið á netinu fyrir sjálfboðaliða innan ESB landanna en móttökusamtök eiga að tryggja tungumálanámskeið fyrir sjálfboðaliða.

Aðeins er hægt að taka þátt í einu langtíma sjálfboðaliðaverkefni (2-12 mánaða) en hægt er að taka þátt oftar í hópverkefnum og framkvæma samfélagsverkefni.

Mælt er með því að sjálfboðaliði og móttökusamtök noti Youthpass til að staðfesta óformlegt nám og reynslu úr sjálfboðaliðaverkefnum.

Þátttökulönd

Hægt er að fara sem sjálfboðaliði til allra þátttökulanda European Solidarity Corps.  Þátttökulöndin eru Evrópusambandslöndin og EFTA löndin Ísland, Liechtenstein og Noregur auk Serbíu, Tyrklands og Norður-Makedóníu. Einnig er hægt að fara til landa sem flokkast sem samstarfslönd áætlunarinnar.  

Kynningarmyndband

Kynningarvídeó um sjálfboðaliðastörf

Nánari upplýsingar
Þetta vefsvæði byggir á Eplica