Nýtt tímabil í Erasmus+ og European Solidarity Corps í sjónmáli

16.12.2020

  • La-victorie-82Xsw-pGsJI-unsplash

Mikilvægum áfanga var náð þann 11. desember sl. þegar samkomulag náðist milli Evrópuþingsins og aðildarríkja ESB um nýjar Erasmus+ og European Solidarity Corps áætlanir, sem hefja göngu sína á næsta ári og gilda til 2027. 

Nú verða lagatextarnir fyrir þessar áætlanir ræddir og samþykktir af Evrópuþinginu og Evrópuráðinu áður en fyrstu umsóknarfrestir verða auglýstir. Einnig eru samningaviðræður um aðild okkar Íslendinga að áætlununum í ferli. 

Erasmus+ hefur átt miklum vinsældum að fagna síðan hún hóf göngu sína árið 1987 og er talin vera eitt árangursríkasta framtak Evrópusambandsins. Hún hefur gefið meira en 10 milljónum einstaklinga tækifæri til að efla félagslega og faglega hæfni sína gegnum Evrópusamstarf á sviði menntunar og æskulýðsmála. Nýja áætlunin mun halda áfram á sömu braut en bjóða upp á fjölbreyttari tækifæri og tvöfalt hærra fjármagn en á síðasta tímabili – eða um 26 milljarða evra.

European Solidarity Corps mun veita að minnsta kosti 270.000 ungmennum á aldrinum 18 til 30 ára tækifæri til að hjálpa samfélögum í neyð og bæta um leið dýrmætri upplifun í reynslubankann sinn. Alls verður um einum milljarði evra veitt til að takast á við samfélagslegar áskoranir og sýna samstöðu í verki með þessum hætti.

Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi bíður þess með eftirvæntingu að deila nánari upplýsingum um nýju áætlanirnar um leið og þær liggja fyrir og auglýsa eftir umsóknum um spennandi verkefni á árinu 2021. Starfsfólk, nemendur og aðrir virkir þátttakendur í æskulýðs- og menntamálum á Íslandi eru hvött til að fylgjast vel með á vefnum okkar og skrá sig í áskrift að fréttabréfinu. Saman munum við efla þessa mikilvægu málaflokka gegnum Evrópusamstarf sem hefur jöfn tækifæri, stafræna færni og loftslagsmál að leiðarljósi.

Fréttatilkynning ESB um samkomulag um Erasmus+ 2021-2027

Fréttatilkynning ESB um samkomulag um ESC 2021-2027









Þetta vefsvæði byggir á Eplica