Mikill áhugi á gæðavottun í European Solidarity Corps

24.4.2023

  • Fundur

Góð mæting var á kynningarfund um gæðavottun í European Solidarity Corps áætluninni, sem haldinn var miðvikudaginn 19. apríl síðastliðinn. European Solidarity Corps er evrópsk sjálfboðaliðaáætlun sem gefur ungmennum á aldrinum 18-30 ára tækifæri til að hafa jákvæð áhrif í gegnum sjálfboðastarf erlendis eða í eigin nærsamfélagi. 

Kynningarfundurinn var fyrir samtök, sveitarfélög,
stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhuga á að fá gæðavottun, sem gerir þeim kleift að sækja um styrki til að hýsa sjálfboðaliða, fljúga þeim til landsins og borga þeim dagpeninga á meðan dvöl þeirra stendur.

Á fundinum kynnti starfsfólk Landskrifstofu ESC á Íslandi áætlunina, markmið hennar og þá praktísku hluti sem hafa ber í huga þegar sótt er um gæðavottun. Carolina Caspa, reynslumikill verkefnastjóri frá SEEDS á Íslandi, kynnti svo eigin upplifun af því að hýsa sjálfboðaliða í gegnum ESC áætlunina og hvað sé mikilvægt fyrir ný samtök að hafa í huga við framkvæmd á verkefnum.

Á fundinn mættu aðilar frá sjö samtökum, einu sveitarfélagi og einni ríkisstofnun. Þátttakendur voru þau með fjölbreyttar hugmyndir um hvernig hægt væri að nýta áætlunina til að gefa ungu fólki tækifæri til að koma til landsins og fá reynslu af margvíslegum verkefnum sem hafa jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Hægt er að sækja um gæðavottun hvenær sem er ársins og er umsóknareyðublaðið opið. Farið er yfir umsóknir um gæðavottun samhliða öðrum umsóknarfrestum ESC og Erasmus+, en næstu umsóknarfrestir eru 4. maí og 4. október. Frekari upplýsingar um áætlunina, umsóknarfresti og umsóknareyðublöð eru á síðu áætlunarinnar









Þetta vefsvæði byggir á Eplica