Þegar horft er um öxl má segja að árið sem senn er á enda hafi fært okkur á Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps á Íslandi nóg af spennandi viðfangsefnum, bæði viðbúnum og minna fyrirsjáanlegum.
Árið 2021 markaði tímamót í Evrópusamstarfi þar sem nýtt tímabil í áætlunum hóf göngu sína. Við fögnuðum því með pompi og prakt opnunarhátíð með beinu streymi frá Borgarleikhúsinu um miðjan apríl og gáfum við sama tilefni út skýrslu um þátttöku Íslands í Evrópuáætlunum í umsjá Rannís á síðasta tímabili.
Það var einstaklega skemmtilegt að fá að kynna nýjar áherslur og styrkjamöguleika fyrir mennta- og æskulýðssamfélaginu á Íslandi og við fengum frábærar viðtökur. Í mörgum tilfellum nýttum við tæknina og héldum vefstofur en ennþá skemmtilegra var að geta verið meðal fólks þegar aðstæður leyfðu. Hér koma heimsóknir okkar til Vestfjarða sérstaklega upp í hugann, sem gáfu okkur ómetanlegt tækifæri til að eiga samtal um sóknarfæri í Erasmus+ og ESC fyrir þennan landshluta. Við þökkum Vestfirðingum gestrisnina og hlökkum til að heimsækja fleiri staði á nýju ári.
Alls bárust okkur yfir 100 umsóknir yfir árið og úthlutun styrkja stendur enn yfir, enda voru umsóknarfrestir óvenju seinir í ár. Formleg aðild Íslands að áætlununum gekk í gegn síðar en gert hafði verið ráð fyrir og það var góð tilfinning að geta loks skrifað undir samninga við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og greitt fyrstu greiðslu til samþykktra verkefna á síðustu mánuðum ársins.
Á Landskrifstofunni litum við á þessi tímamót sem nýjar áætlanir boða sem tækifæri til að uppfæra verklag okkar og nálgun. Við tókum upp töflufundi að morgni hvers dags til að efla yfirsýn yfir viðfangsefni skrifstofunnar og stöðu þeirra, bæta upplýsingaflæði og auka samvinnu þvert á verkefnaflokka og markhópa. Þetta hefur gefist vel og við eigum auðveldara með að læra hvert af öðru og hjálpast að. Í sama anda höfum við sett af stað stefnumótun í ýmsum flokkum þvert á teymið okkar, til að mynda á sviði inngildingar og sjálfbærni. Við þróuðum líka viðbragðsáætlun, sem felur meðal annars í sér aukna upplýsingagjöf til styrkhafa varðandi öryggi þátttakenda. Fyrsta verkefni viðbragðsteymisins okkar var að upplýsa landskrifstofur í Evrópu um eldgosið í Geldingadölum, sem sannarlega setti svip sinn á árið hjá okkur Íslendingum.
Því miður hefur heimsfaraldurinn áfram sett sitt mark á Evrópusamstarf, sem og samfélagið allt. Við höfum veitt verkefnastjórum ráðgjöf í þessum efnum, sem í mörgum tilfellum þurftu að breyta framkvæmd verkefna sinna, framlengja þau eða færa fundi og viðburði á netið. Þessi aðlögunarhæfni styrkhafa hefur verið aðdáunarverð og við erum þakklát fyrir hana. Vonandi skapast betri og öruggari aðstæður á nýju ári fyrir ferðalög milli landa.
Við viljum þakka öllum okkar Erasmus+ og European Solidarity Corps vinum nær og fjær fyrir samstarfið á þessu viðburðaríka ári. Megi jólahátíðin verða ykkur sem best og nýja árið sömuleiðis. Við hlökkum til að efla með ykkur menntun og æskulýðsstarf á Íslandi með því að byggja enn fleiri brýr milli landa, stofnana og samtaka árið 2022.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.