Öryggi þátttakenda

Öryggi skiptir öllu máli í Erasmus+. Öruggar og áhyggjulausar aðstæður auðvelda þátttakendum að njóta góðs af áætluninni, bæði faglega og persónulega. In English

Þegar farið er til útlanda í verkefni á vegum Erasmus+ er gott að hafa nokkur atriði í huga

 • Kynna sér landið og áfangastaðinn vel, til dæmis með því að vera í sambandi við þau sem áður hafa farið á staðinn á vegum Erasmus+, ef hægt er.

 • Huga að tryggingum áður en farið er út.

 • Erasmus+ býður ekki upp á sérstaka tryggingu fyrir þátttakendur. Verkefnisstjórar og einstaklingar sem taka þátt í Erasmus+ þurfa því að gæta að þessum málum sérstaklega.

 • European Solidarity Corps veitir sjálfboðaliðum á vegum áætlunarinnar tryggingu en aðrir þátttakendur þurfa að verða sér úti um tryggingu með öðrum hætti.

 • Evrópska sjúkratryggingakortið (European Health Insurance Card) gildir hjá þjónustuaðilum innan hins opinbera sjúkratryggingakerfis í löndum evrópska efnahagssvæðisins. Sótt er um hjá Sjúkratryggingum Íslands og mælum við með að notendur kynni sér vel hvernig kortið er notað. Athugið að endurnýja þarf kortið þegar 6 mánuðir eða minna eru eftir af gildistíma þess (kortið gildir í 3-5 ár og verður að vera í gildi meðan á dvöl stendur til að það nýtist).

 • Einstaklingar sem hafa ríkisfang utan EES-landa og eru sjúkratryggðir á Íslandi þurfa að gæta sérstaklega að gildandi reglum sem snúa að þeim. Sjá á vef Sjúkratrygginga.

 • Landskrifstofan mælir með að verkefnastjórar veki athygli þátttakenda á aðstæðum á þeim stað sem farið er til hverju sinni. Hvort sem um er að ræða aðgengismál eða pólitískt landslag sem gæti haft áhrif á þátttakendur (svo sem afstöðu yfirvalda gagnvart LGBTQIA+ einstaklingum, hvernig viðhorfi gagnvart fötluðum er háttað, o.s.frv.).
  Þetta gæti t.d. verið allt frá því að upplýsa þátttakendur um stöðu mála yfir í að veita upplýsingar um viðeigandi hagsmunaaðila eða önnur samtök sem gætu verið þátttakendum innan handar í lengri tíma dvöl. 
 • Kynna sér helstu neyðarnúmer landsins sem farið er til og hvers konar neyðarþjónusta er til staðar í þeirri stofnun sem dvölin er hjá. Athugið að neyðarnúmerið 112 virkar í flestum löndum Evrópu.

 • Hafa samband við viðbragðsaðila í viðkomandi landi ef öryggi er ógnað.

 • Hafa samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins eftir að haft hefur verið samband við viðbragðsaðila. Sími borgaraþjónustunnar er opinn allan sólarhringinn: +354 545-0112.

 • Ísland er ekki með sendiráð í öllum ríkjum og því getur verið gott að kynna sér staðsetningu næstu sendiráða, ræðismanna eða þau sendiráð erlendra ríkja er sjá um málefni Íslendinga á hverjum stað fyrir sig.

Í langflestum tilfellum gengur þátttakan í Erasmus+ vel. Ef eitthvað kemur upp á sem setur strik í reikninginn og styttir dvöl erlendis, hvetjum við þátttakandann til að hafa samband við verkefnisstjórann sinn (alþjóðafulltrúa eða annan tengilið sem hefur haft umsjón með ferðinni) við fyrsta tækifæri og fá stuðning og upplýsingar til dæmis varðandi möguleg áhrif á styrkinn. Verkefnisstjórar eru einnig hvattir til að vera í góðu sambandi við starfsfólk Landskrifstofu eins og við á. Fyrir stærri verkefni með marga þátttakendur getur verið gagnlegt að hafa skilgreind viðbrögð við óvæntum aðstæðum áður en til þeirra kemur.

Nytsamlegar vefslóðir:
Þetta vefsvæði byggir á Eplica