Spurt og svarað um áhrif Brexit á Erasmus+og European Solidarity Corps (ESC)

Ég er nemandi við íslenskan háskóla og stefni á skiptinám eða starfsþjálfun skólaárið 2021-2022. Get ég sótt um að fara til Bretlands?

Samningurinn um útgöngu Breta felur ekki í sér áframhaldandi beina aðild að Erasmus+ áætluninni frá og með 2021. Hins vegar kveður hann á um áframhaldandi þátttöku þeirra í þeirri Erasmus+ áætlun sem nú er lokið (2014-2020). Þetta þýðir að ef háskólinn þinn hefur fengið úthlutað fjármagni árið 2020 og á styrki eftir getur hann fjármagnað ferðir til Bretlands skólaárið 2021-2022. Almennar upplýsingar um Erasmus+ stúdentaskipti á háskólastigi má finna á síðu Landskrifstofu en alþjóðaskrifstofa heimaskóla veitir nánari upplýsingar fyrir sína nemendur. Umsóknarfrestir stúdenta eru á tímabilinu janúar-apríl fyrir komandi skólaár en eru breytilegir milli skóla svo það er mikilvægt að þú kynnir þér vel upplýsingarnar frá alþjóðaskrifstofunni þinni. Nýja Erasmus+ áætlunin (2021-2027) býður upp á ákveðin tækifæri til að fara til Bretlands á styrk og veita alþjóðaskrifstofur upplýsingar um þau.  

Ég er kennari eða starfsmaður við íslenskan háskóla og stefni á kennslu eða þjálfun erlendis skólaárið 2021-2022. Get ég sótt um að fara til Bretlands?

Samningurinn um útgöngu Breta felur ekki í sér áframhaldandi beina aðild að Erasmus+ áætluninni frá og með 2021. Hins vegar kveður hann á um áframhaldandi þátttöku þeirra í þeirri Erasmus+ áætlun sem nú er lokið (2014-2020). Þetta þýðir að ef háskólinn þinn hefur fengið úthlutað fjármagni árið 2020 og á styrki eftir getur hann fjármagnað ferðir til Bretlands skólaárið 2021-2022. Almennar upplýsingar um Erasmus+ starfsmannaskipti á háskólastigi má finna á síðu Landskrifstofu en alþjóðaskrifstofa heimaskóla veitir nánari upplýsingar fyrir sína nemendur. Umsóknarfrestir starfsfólks eru yfirleitt í maí fyrir komandi skólaár en eru breytilegir milli skóla svo það er mikilvægt að þú kynnir þér vel upplýsingarnar frá alþjóðaskrifstofunni þinni. Nýja Erasmus+ áætlunin (2021-2027) býður upp á ákveðin tækifæri til að fara til Bretlands á styrk og veita alþjóðaskrifstofur upplýsingar um þau.

Ég er þátttakandi í íslensku Erasmus+/ESC samstarfsverkefni sem hóf göngu sína 2020 eða fyrr. Hvað verður um þátttöku bresku stofnunarinnar á aðild að verkefninu okkar?

Breska stofnunin getur áfram tekið fullan þátt í verkefninu eftir að Bretar hafa gengið úr sambandinu, þar sem samningurinn um útgöngu Breta kveður á um áframhaldandi þátttöku þeirra í núverandi Erasmus+/ESC áætlun (2014-2020). 

Ég ætla að sækja um í Erasmus+/ESC fyrir hönd stofnunarinnar minnar eða samtaka 2021 eða síðar. Getum við sótt um ferðir til Bretlands eða samstarf við breskar stofnanir eða samtök?

Nú liggur fyrir að Bretland verður ekki þátttökuland (e. Programme Country) í Erasmus+/ESC á nýja tímabilinu (2021-2027) og því verður ekki hægt að hafa breskar stofnanir eða samtök í umsóknum með sama hætti og áður. Stofnanir og samtök í löndum eins og Bretlandi sem ekki eru þátttökulönd (e. Partner Countries) hafa þó möguleika á að vera með í verkefnum með vissum takmörkunum. 

Þurfa þátttakendur Erasmus+ vegabréfsáritun til Bretlands?

Samkvæmt nýju innflytjendakerfi í Bretlandi munu reglur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) um frjálsa för fólks ekki lengur gilda. Flestir styrkþegar Erasmus+ munu því þurfa að sækja um vegabréfsáritun og ekki verður um neinar undanþágur að ræða. Á það við um þátttakendur í starfsmenntun, æskulýðsstarfi, fullorðinsfræðslu og stúdenta- og starfsmannaskiptum háskóla.

Háskólastúdentar sem dvelja skemur en 6 mánuði þurfa þó ekki vegabréfsáritun. Sé dvölin lengri, sækja þeir um áritun og þurfa einnig að huga að sérstökum sjúkratryggingum.

Sótt er um vegabréfsáritunina T5 á vefsíðu breska stjórnarráðsins, áður þarf Landskrifstofa Erasmus+ í Bretlandi að gefa út svokallað Certificate of Sponsorship, eða CoS, sem staðfestingu á dvöl styrkþega. Þessi staðfesting þarf að fylgja umsókn um T5. Nánari upplýsingar um það og umsóknarferlið er að finna hér.

Umsóknarferlið getur tekið 8 - 11 vikur og við upphaf dvalar þarf þátttakandi að hafa vegabréfsáritun í hendi.

Gjald fyrir T5 er £ 244.

Hvernig hefur samstarfinu milli breskra og íslenskra stofnana í Erasmus+/ESC verið háttað?

Íslendingar og Bretar hafa átt í mikilvægu og árangursríku samstarfi á sviði mennta- og æskulýðsmála í áraraðir, sem endurspeglast vel í framkvæmd Erasmus+/ESC. Bretland er eftirsóttur áfangastaður fyrir íslenska þátttakendur í Erasmus+/ESC og skipar sér í næstefsta sæti – á eftir Danmörku – yfir þau lönd sem Íslendingar hafa haldið til vegna náms, þjálfunar, kennslu eða sjálfboðastarfa frá árinu 2014. Um 140 manns fara héðan til Bretlands og um 200 breskir nemendur og kennarar koma hingað til lands á ári hverju. 

Hvar get ég nálgast frekari upplýsingar um áhrif Brexit á Erasmus+/ESC?








Þetta vefsvæði byggir á Eplica