Niðurstöður nýrrar Eurostudent könnunar og þýðing þeirra fyrir íslenskt háskólasamfélag voru í brennidepli á ráðstefnu sem haldin var af Rannís, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Landssamtökum íslenskra stúdenta (LÍS) föstudaginn 4. maí síðastliðinn.
Við þetta tilefni var tveimur nýjum skýrslum dreift sem báðar gera grein fyrir íslenskum niðurstöðum í Eurostudent: Innlit í flæði íslenskra háskólanema og Staða íslenskra háskólanema: Aðgengi, efnahagur og tækifæri til náms.
Ráðstefnan leiddi saman breiðan hóp hagsmunaaðila úr háskólasamfélaginu, þar á meðal stúdenta, stjórnendur, náms- og starfsráðgjafa, fulltrúa gæða- og alþjóðamála og yfirvöld menntamála. Auk þess fylgdist fjöldi fólks með streymi frá viðburðinum, sem var stýrt af Unu Strand Viðarsdóttur frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra setti ráðstefnuna með ávarpi og lýsti yfir ánægju með þau tímamót sem þátttaka Íslands í Eurostudent könnuninni hefur í för með sér, því nú sé í fyrsta sinn hægt að bera saman stöðu háskólanema hér á landi við önnur lönd á grundvelli samanburðartalna. Þetta sé mikilvægt fyrir stefnumótun í málaflokknum, meðal annars í tengslum við endurskoðun námslánakerfisins.
Dr. Eva Maria Vögtle, sem starfar fyrir German Centre for Higher Education Research and Science Studies og er hluti af Eurostudent rannsóknarteyminu, greindi frá helstu niðurstöðum á alþjóðavísu. Í erindi sínu lagði hún áherslu á fjárhagsstöðu stúdenta , sem er algengasta ástæðan fyrir því að þau sjá sér ekki fært að halda út í nám. Í erindi Þorláks Karlssonar frá Maskínu, sem sá um framkvæmd Eurostudent VI á Íslandi, var vakin athygli á ýmsum þáttum þar sem háskólanemar á Íslandi skera sig úr, svo sem hvað varðar meðalaldur, fjölda barna, töf milli framhalds- og háskólanáms, hlutfall fötlunar og langvarandi veikinda og þátttöku á vinnumarkaði. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, nýkjörin formaður LÍS, kynnti svo niðurstöður sem snerta hreyfanleika háskólanema á Íslandi.
Tækifæri til náms erlendis voru viðfangsefni pallborðsumræðna þar sem þátt tóku Alma Ragnarsdóttir frá Listaháskóla Íslands, Rúna Vigdís Guðmarsdóttir frá Rannís og fyrrnefndar Eva Maria og Elsa María. Þær voru sammála um að ekki eigi allir jafnt aðgengi að námstækifærum erlendis, meðal annars vegna bakgrunns foreldra, sem sé áskorun fyrir samfélagið allt. Lögð var áhersla á að styrkjaáætlanir eins og Erasmus+ veiti áfram nægilega háa styrki, sérstaklega þeim sem þurfa mest á að halda, og að styrkjamöguleikar fyrir þá sem standa höllum fæti séu vel kynntir og aðgengilegir.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.