Íslenskir háskólanemar eru önnum kafnir en kunna að meta skipulag, aðstöðu og gæði náms

10.4.2018

Niðurstöður nýrrar EUROSTUDENT könnunar, sem Ísland tekur í fyrsta skipti þátt í, sýnir skýrt að samsetning háskólanema á Íslandi er á margan hátt frábrugðin því sem gengur og gerist í öðrum Evrópulöndum. Hvergi annars staðar er hlutfall háskólanema sem komnir eru yfir þrítugt hærra en hér, sem og hlutfall þeirra sem eiga eitt barn eða fleiri.

Íslenskir nemar hafa í miklum meirihluta tilfella öðlast starfsreynslu áður en þeir hefja háskólagöngu sína (88%), borið saman við 53% meðaltal í EUROSTUDENT löndunum og eru gjarnari á að gera hlé á háskólanáminu, til dæmis vegna fjölskylduaðstæðna, fjárhagslegra örðugleika og atvinnu.

Fjárhagsstaða kemur mikið við sögu í könnuninni, sem sýnir að háskólanemar á Íslandi vinna mikið og telja fjárhagslega stöðu sína erfiða. Tíminn sem þeir verja samanlagt í nám og launaða vinnu nemur meira en 50 stundum á viku, sem er meira en í nokkru öðru landi.

Enn skera íslenskir háskólanemar sig úr fjöldanum þegar kemur að hlutfalli þeirra sem skilgreina sig með fötlun, hömlun eða langvarandi heilsufarsvandamál. Til dæmis telja 18% íslenskra svarenda sig vera með sértæka námsörðugleika og 15% glíma við andleg veikindi meðan meðaltal EUROSTUDENT landanna er aðeins 3% og 4% hvað þessa þætti varðar.

Því má segja að háskólanemar á Íslandi glími að mörgu leyti við aðrar áskoranir en fólk í sömu stöðu í öðrum Evrópulöndum. Hins vegar eru þeir ánægðari með skipulag og stundatöflu námsins en aðrir og kunna einnig vel að meta námsaðstöðu sína og gæði kennslunnar. Þeir hafa líka meiri reynslu af námi erlendis og er hún oftar metin til eininga en annars staðar, eða í 53% tilfella miðað við 29% meðaltal í EUROSTUDENT löndunum. Íslendingar hafa mikinn áhuga á framhaldsnámi erlendis, en þeir sem eiga háskólamenntaða foreldra eru mun líklegri til að stefna út í nám en þeir sem eiga foreldra sem aldrei hafa hlotið háskólagráðu.

EUROSTUDENT er samevrópsk samanburðarkönnun á högum um 320.000 háskólanema í 28 löndum á evrópska háskólasvæðinu. Íslenski hluti könnunarinnar náði til 2.000 nema. Hann var unnin af mennta- og menningarmálaráðuneyti í samstarfi við Rannís og fleiri, og annaðist Maskína framkvæmdina.

Fréttatilkynning ráðuneytisins

Tenglar á frekari upplýsingar um EUROSTUDENT VI

Þetta vefsvæði byggir á Eplica