European Solidarity Corps auglýsir eftir umsóknum fyrir árið 2023

25.11.2022

Evrópusambandið hefur auglýst umsóknarfresti fyrir árið 2023 í sjálfboðaliðaáætlun sinni. Hún styður ungt fólk sem vill fara erlendis í sjálfboðastarf eða framkvæma samfélagsverkefni í eigin nærumhverfi.

European Solidarity Corps gerir samtökum, fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi kleift að fá til sín sjálfboðaliða á aldrinum 18-30 ára í tvo til 12 mánuði til að sinna verkefnum sem samræmast áherslum áætlunarinnar. Því gefst einnig tækifæri á að fara erlendis í sjálfboðaliðastarf eða setja á fót samfélagsverkefni sem hafa jákvæð áhrif eigið nærumhverfi. Sjálfboðaliða- og samfélagsverkefnin þurfa að byggja á einhverjum af megináherslum áætlunarinnar sem eru inngilding, grænar lausnir, stafræn þróun og virk þátttaka.

Á komandi ári byggir European Solidary Corps á reynslu fyrri verkefna sem og Evrópuári unga fólksins en á árinu 2023 mun hún veita alls 142 milljónum evra. Á árinu verða rúmlega 746 þúsund evrur til úthlutunar fyrir verkefni sem fara fram á Íslandi, eða um 109 milljónir íslenskra króna.

„Ungt fólk brennur fyrir því að vera virkir einstaklingar og taka þátt. Evrópuár unga fólksins 2022 sýndi hvað þau hafa mikið fram að færa til samfélagsins. Þau eru drifkraftur framfara. European Solidarity Corps áætlunin er áfram mikilvægt tól til að valdefla ungt fólk til samfélagslegrar þátttöku og styður þau í að skapa betri, grænni, stafrænni og meira inngildandi framtíð.“
Mariya Gabriel, framkvæmdastjóri nýsköpunar, menningar, menntunar og æskulýðsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB

Til þess að geta tekið á móti sjálfboðaliðum þurfa samtök og stofnanir að sækja um gæðavottun (e. Quality label), sem að staðfestir að umsækjandi hafi getu og burði til að framkvæma gæðaverkefni sem ríma við markmið og skilyrði áætlunarinnar.

Ungt fólk á aldrinum 18-30 ára sem er skráð í European Solidarity Corps Portal getur sótt um styrk til þess að taka þátt í bæði sjálfboðaliða- og samfélagsverkefnum.

Umsóknarfrestir árið 2023 verða 23. febrúar og 4. október.

Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi,  sem er jafnframt Landskrifstofa fyrir European Solidarity Corps, hvetur umsækjendur hér á landi til að kynna sér vel þá styrkjamöguleika sem í boði eru. Þau sem hafa spurningar um umsóknarferlið eru eindregið hvött til að hringja eða skrifa tölvupóst til viðkomandi verkefnastjóra. Í upphafi nýs árs má reikna með ýmsum kynningarviðburðum af hálfu Landskrifstofu. Þeir verða nánar auglýstir hér á síðunni og í fréttabréfi okkar, sem við mælum með að allt áhugasamt fólk um Evrópusamstarf gerist áskrifendur að.  

Umsóknareyðublöð eru aðgengileg á Erasmus+ og European Solidarity Corps torginu.

Nánari upplýsingar

Þetta vefsvæði byggir á Eplica