Erasmus+ viðtal mánaðarins

5.6.2023

Vilhjálmur Árni Sigurðsson er nemandi í 9. bekk í Hörðuvallaskóla og einn af fjölmörgum ungum Íslendingum sem hafa tekið þátt í Erasmus+ í sínu skólastarfi. Hann hefur auk þess sinnt fjölbreyttum verkefnum í leikhúsinu og á hvíta tjaldinu, svo sem aðalhlutverki í íslensku bíómyndinni Abbababb og leik í Kardimommubænum. Við tókum Vilhjálm Árna tali. 


Hvað hefur þú verið að gera í Erasmus+?

Í september tókum við á Íslandi á móti fjórum börnum frá hverju landi, frá Slóveníu, Spáni, Finnlandi, Grikklandi og Póllandi. Við áttum frábæra viku með þeim á Íslandi, sýndum þeim skólann okkar, hvað það er sem við erum að læra og unnum með umhverfismál. Við sýndum þeim hitaveiturnar okkar, og hvernig Íslendingar framleiða orku. Verkefnið sem við unnum saman hér á Íslandi snérist um það hvernig orkan í löndunum okkar er framleidd og við kynntum það fyrir hvort öðru. Við fórum með þeim í ferð út á land og sýndum þeim Reykjavík.

Ég fór svo til Póllands október og hitti nýja krakka frá sömu löndum í Póllandi. Það var ótrúlega gaman að sjá hvað maturinn var ólíkur því sem er heima, alls ekki verri en bara öðruvísi. Í Póllandi skoðuðum við borgina og fengum að sjá Saltnámu. Verkefnið sem við unnum með í Póllandi var um mat og matarsóun. Áður en við fórum til Póllands þá vigtuðum við allan mat sem var verið að henda á heimilunum okkar og skoðuðum matarsóun á Íslandi. Þetta var mjög fróðlegt og lærdómsríkt verkefni. Hvert og eitt land kynnti hvernig þessi mál eru hjá þeim fyrir hópnum.

Hvaða áhrif hefur það haft á þig að taka þátt í svona verkefni?

Mér fannst geggjað að kynnast krökkum frá öðrum löndum og sjá fleiri menningarheima. Mér finnst einhvern veginn miklu minni munur á milli ólíkra landa en ég hélt. Það var gaman að sjá hvað við erum lík, eigum svipað líf en samt ólíkt. Það var frábært að eignast vini frá öllum þessum löndum og ég held ennþá sambandi við þau á samfélagsmiðlum. Ég sé vel hversu heppin við erum á Íslandi að hafa hreina orku því það er ekki sjálfsagt. Ég upplifði líka að hin löndin væru á undan okkur í stærðfræði sem veitti mér hvatningu til að leggja harðar að mér í skólanum.

Heldurðu að þú munir taka aftur þátt í evrópsku eða alþjóðlegu samstarfi í framtíðinni?

Já klárlega ef ég fæ tækifæri til þess.

Er eitthvað sem þú vilt segja að lokum?

Hvetja fólk að taka á móti nemendum, það er miklu skemmtilegra en það hljómaði í byrjun. Ég var með tvo Spánverja og það var virkilega gaman. Líka hvetja skóla til að sækja um að taka þátt í þessu verkefni því þetta er svakalega góð reynsla og tækifæri fyrir krakka að þroskast og kynnast fleiri menningarheimum. 

Þess má geta að Vilhjálmur Árni mun taka þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni Verum græn með Erasmus+ .

Þetta vefsvæði byggir á Eplica