Vel tekið á móti Eurodesk á Grundarfirði

8.12.2022

Stoðverkefnið Eurodesk skipulagði heimsókn til Grundarfjarðar á dögunum og kynnti tækifæri erlendis fyrir ungt fólk á staðnum. Kynningarnar voru gerðar í samstarfi við Alicju Chajewsku sem býr á Grundarfirði og voru því í boði á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. 

Þann 6. desember heimsótti Eurodesk á Íslandi Grundarfjörð og hélt kynningar í bænum. Heimsóknin var liður í að sækja landsbyggðina heim á virkari hátt og bjóða upp á persónulegt spjall við starfsfólk Landskrifstofunnar. Einnig var lögð sérstök áhersla á að ná til innflytjenda og því var heimsóknin skipulögð í samvinnu við pólskan European Solidarity Corps (ESC) þjálfara að nafni Alicja Chajewska, sem nú býr á Grundarfirði. Alicja hefur mikinn áhuga og þekkingu á Erasmus+ og ESC og aðstoðaði við að koma viðburðinum á framfæri gegnum tengslanet sitt.

 Tvenns konar kynning fór fram í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, ein á íslensku og önnur á pólsku, og þrítyngt Erasmus+ kaffi á kaffihúsi í bænum síðdegis. Í stað hefðbundinnar kynningar fyrir nemendur á sal skólans var sett upp huggulegt kynningarsvæði við sófa í miðrými skólans og þannig var hægt að bjóða nemendum upp á samtal um þá hluta áætlananna sem þau höfðu áhuga á. Nemendurnir voru virkilega ánægð með að fá óformlegar umræður frekar en glærukynningu. 14 íslenskumælandi og fjórir pólskumælandi nemendur tóku þátt í samtalinu.

Kynningarteymið leit við í grunnskólanum og bókasafninu áður en opna húsið um Erasmus+ hófst á Valería kaffi. Þangað mættu 12 manns með fjölbreyttan bakgrunn – svo sem flóttafólk frá Úkraínu, pólskumælandi foreldri með áhuga á tækifærum fyrir börnin sín, og fulltrúar frá Félagsmiðstöð Grundarfjarðar og Ungmennaráði Snæfellsbæjar. 318228286_1351970232302260_233600348122192114_nÞau fögnuðu tækifærinu til að heyra um möguleikana í Evrópusamstarfi, taka þátt í hugarflugi með starfsfólki Landskrifstofunnar og fá heimsókn í heimabyggð.

Við þökkum Grundfirðingum og öðrum gestum viðburðanna kærlega fyrir áhugaverðar umræður og frábærar móttökur. Sérstakar þakkir fær Alicja fyrir árangursríkt samstarf. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica