Unnið með kynþáttafordóma og birtingarmyndir þeirra

Námskeið fyrir inngildingarfulltrúa haldið á Íslandi

31.10.2023

  • Fólk stendur fyrir framan borð í fundarsal og sýnir plakat sem búið er að teikna þríhyrning á.

Í síðustu viku hélt Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi námskeið fyrir inngildingarfulltrúa annarra landskrifstofa í samstarfi við SALTO-miðstöðvarinnar um inngildingu og fjölbreytileika. Þema námskeiðsins að þessu sinni var and-rasismi en námskeiðið er liður í fræðsluröð SALTO með þessu sama þema sem lýkur með námskeiði fyrir æskulýðsstarfsfólk í Dublin í desember. 

Hugmyndin á bakvið þessi námskeiðu inngildingarfulltrúa er að veita þeim tækifæri til að ræða inngildingartengd málefni við samstarfsfólk frá öðrum landskrifstofum, læra hvert af öðru og veita stuðning. Í þetta sinn voru þátttakendur 14 og komust færri að en vildu.

Á námskeiðinu var farið yfir hugtök tengd kynþáttafordómum og fjallað um hvernig þeir birtast á ólíkan hátt í ólíkum aðstæðum. Einnig var rætt um kerfisbundna fordóma og mikilvægi þess að nýta inngildandi áætlanir líkt og Erasmus+ í baráttunni gegn kynþáttafordómum. Sema Erla Serdaroglu aðjúnkt við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda Háskóla Íslands kom svo og hélt erindi um mikilvægi æskulýðsstarfs og jafnra tækifæra í baráttunni gegn fordómum og öfgahyggju.

Hópurinn fór í heimsókn í Hitt Húsið og Kópavogsskóla til að skoða tvö verkefni sem gætu veitt þeim innblástur í sínum heimalöndum. Jafningjafræðarar í Hinu Húsinu hafa fengið styrk úr European Solidarity Corps til að vinna með ungu flóttafólki með fjölbreyttan bakgrunn og í Kópavogsskóla er flott verkefni í gangi sem heitir Velkomin verkefnið, en þar frá börn með annað móðurmál en íslensku að taka þátt í flottu sumarnámskeiði til að efla félagslega færni sína.

Bæði þessi verkefni sögðu frá mikilvægi þess að hafa birtingarmyndir kynþáttafordóma í huga, enda unnið með fjölbreyttan hóp ungs fólks. Einnig er mikilvægt að skoða hvernig kerfisbundnir fordómar geta komið í veg fyrir þátttöku ungs fólks í verkefnum sem eru til þess fallin að efla þau.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica