Ferðafrásögn tveggja kennara sem fóru á Erasmus+ tengslaráðstefnu um inngildingu með tæknina að leiðarljósi.
Landskrifstofa Erasmus+ í Finnlandi skipulagði á dögunum fjölþjóðlega tengslaráðstefnu sem haldin var í Mikkeli í apríl. Yfirskrift ráðstefnunnar var “Together! Inclusive Classroom and Digitally Supported Learning“. Tveir þátttakendur frá Íslandi tóku þátt, þær Hjördís Ýrr Skúladóttir hjá Setbergsskóla og Sonja Suska hjá Húnaskóla. Hér er þeirra ferðafrásögn.
“Það var bjartur dagur er við stöllur fórum með lestinni frá Helsinki til Mikkeli á tengslaráðstefnu Erasmus+, ekki beinlínis vor í lofti í lok apríl, ískalt og öll vötn frosin. Í Mikkeli hófst ráðstefnan með notalegum kvöldverði og strax á fyrsta kvöldi byrjuðu tengslin að myndast, kennarar að skiptast á skoðunum og hugsanleg verkefni að þróast. Þema ráðstefnunnar var inngilding með tæknina að leiðarljósi. Alls voru 61 þátttakendur frá 22 löndum þátt í ráðstefnunni.
Dagur tvö einkenndist af maraþon fyrirlestrum sem voru áhugaverðir en með misjafnar áherslur. Var gott að fá smá innspýtingu inn í faglegt starf okkar kennara og rifja upp mikilvægi þess að öll börn eru jafn mikilvæg - óháð getu þroska eða aldri. Þá kom einnig í ljós að nokkuð misjafnlega er unnið með skóla án aðgreiningar í þátttöku löndunum. Eftir fyrirlestrana fengum við að kíkja út og var farið með okkur á Muisiti safnið en þar er stríðsátaka minnst og var safnið mjög áhrifaríkt.
Á þriðja degi var farið í rútu upp að einu af þúsund vötnum Finnlands Puulama þar sem nokkrir fyrirlestrar voru haldnir um Erasmus+. Vinnustofur áttu sér stað og gátum við valið áhugasvið, einnig var tími til frekari tengsla og vináttu. Að sjálfsögðu var okkur svo boðið í saunu og að skella okkur til sunds í ísilögðu vatninu.
Á fjórða og lokadegi var okkur svo boðið í skólaheimsóknir í mismunandi skóla. Sonja fór í Kalevankangas skóla sem er grunnskóli með 560 nemendum frá fyrsta upp í 9. bekk (310 primary og 250 secondary level), 55 kennurum og 45 stuðningsfulltrúum.
Í augnablikinu eru 34 bekkir, þar af einn bekkur fyrir nemendur sem hafa mætt lítið og glíma við alls konar erfiðleika í lífinu, einn bekkur fyrir afbragðsíþróttanema og 6 sérkennslubekkir fyrir fötluð börn og börn sem kljást við alvarlega námsörðugleika. Í hverjum sérkennslubekk eru 8 nemendur, 1 kennari og 4 stuðningsfulltrúar. Hjördís Ýrr heimsótti Rantakylä grunnskóla þar sem sérstök áhersla er lögð á verkefnamiðað nám. Var gaman að skoða hvernig komið var til móts við einstaklingana og hvernig nemendur voru að vinna í sinni áætlun þar sem allar námsgreinar voru undir sama hatti. Skólinn var mjög vel tæknivæddur en þar fór samt ekkert á milli mála að tæknin stýrði ekki náminu heldur var til að dýpka og gera námið skemmtilegra.
Eftir skólaheimsóknirnar var svo komið að brottför frá Mikkeli. „Það er margt sem stendur upp úr eftir svona ráðstefnu og virkilega gaman að fá að taka þátt.”
Hjördís Ýrr Skúladóttir og Sonja Suska
Hefur þú áhuga á að taka þátt í Erasmus+ vinnustofu eða ráðstefnu?
Fjölþjóðlegar ráðstefnur og vinnustofur veita frábær tækifæri til þess að fara út og efla tengslanetið, sækja innblástur að nýjum Erasmus+ verkefnum og auka þekkingu á ýmsum sviðum.
Landsskrifstofa Erasmus+ á Íslandi auglýsir reglulega vinnustofur of tengslaráðstefnur fyrir starfsfólk á öllum menntastigum. Auglýsingar eru birtar hér og á Facebook síðu Erasmus+ Ísland
Landskrifstofan greiðir fyrir gistingu þátttakenda auk 90% af ferðakostnaði, en í því felast allar ferðir til og frá flugvöllum, sem og auka gistinætur sem þátttakendur þurfa hugsanlega að taka vegna fjarlægðar sinnar frá fundarstað, bæði innanlands og utan.
Starfsfólki í æskulýðsmálum er bent á sérstaka síðu fyrir námskeið í Evrópu .
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.