Styrkjum veitt til 11 nýrra verkefna í European Solidarity Corps

12.5.2022

Evrópuáætluninni European Solidarity Corps er ætlað að skapa tækifæri fyrir ungt fólk að hafa jákvæð áhrif á evrópskt samfélag og sýna samstöðu í verki. Nýverið úthlutaði Landskrifstofa um 240.000 evrum til 11 nýrra ESC-verkefna, sem öll stefna að því að takast á við áskoranir samtímans. 

Umsóknirnar sem hafa borist Landskrifstofu það sem af er ári sýna glöggt hvaða málefni eru ungu fólki hugleikin. Eins og sjá má á sérstakri síðu fyrir úthlutanirnar munu nýju samfélagsverkefnin efla fræðslu um umhverfismál í framhaldsskólum landsins, veita hælisleitendum félagslegan stuðning og koma á fót listnámskeiðum fyrir félagslega einangruð ungmenni og þau sem eru af erlendum uppruna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig fengu þrjú samtök styrk fyrir sjálfboðaliðaverkefnum, en þau gera ungu fólki kleift að taka virkan þátt í samfélaginu, efla persónulegan og faglegan þroska sinn og kynnast nýju fólki og landi.

Það er virkilega ánægjulegt að sjá áhugann á verkefnum af þessum toga nú á árinu 2022 því þetta ár er einmitt tileinkað ungu kynslóðinni og mikilvægi þess að láta rödd hennar heyrast. Landskrifstofa hvetur allt ungt fólk og þau sem með þeim starfa til að taka þátt í Evrópuárinu, skipuleggja viðburði og skrá þá á glænýja síðu  um árið. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica