Skilaboð frá Landskrifstofu vegna stríðsátaka

23.10.2023

Vegna aðstæðna vill Landskrifstofa Erasmus+ og European Solidarity Corps koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Bæði Ísrael og Palestína geta tekið þátt í ýmsum hlutum Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) áætlananna. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Landskrifstofan hefur eru engir þátttakendur á vegum íslenskra Erasmus+ og ESC verkefna stödd í Ísrael eða Palestínu.

Ef þær upplýsingar eru ekki réttar biðjum við ykkur að láta starfsfólk Landskrifstofu vita við fyrsta tækifæri og bendum á borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins ef þörf er á aðstoð.

Landskrifstofa hefur einnig fengið upplýsingar um þátttakendur frá Ísrael og Palestínu sem stödd eru hér á landi á vegum áætlananna og haft hefur verið samband við viðkomandi. Hikið ekki við að hafa samband ef frekari spurningar eða áhyggjuefni vakna, t.d. ef óöruggt er fyrir þátttakendur að snúa aftur til síns heima. Huga gæti þurft að andlegri heilsu þátttakenda sem átökin snerta persónulega.

Ef þið stýrið verkefni sem hafði í hyggju að senda þátttakendur til Ísraels eða Palestínu hvetjum við ykkur til að kanna hvaða breytingar eru mögulegar. Hafið endilega samband við okkur á Landskrifstofu til að ræða hvaða kostir eru í stöðunni.

Hlutverk Erasmus+ og European Solidarity Corps er að efla samstöðu, lýðræðislega hugsun og frið. Áætlanirnar leggja sérstaka áherslu á inngildingu og jöfn tækifæri alls fólks til þátttöku í þeim. Við fordæmum allar árásir og ofbeldi gegn borgurum og krefjumst þess að þeim verði tafarlaust hætt. Hugur okkar er hjá öllum þeim sem eiga um sárt að binda.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica