Opið er fyrir umsóknir í DiscoverEU happdrættið

Ferðahappdrætti Erasmus+ fyrir ungt fólk

5.11.2025

Fæddist þú árið 2007? Hefur þú áhuga á að skoða heimsálfuna og víkka sjóndeildarhringinn? Þú getur orðið eitt af 56 íslenskum ungmennum sem vinna ferðalag um Evrópu með því að skrá þig til leiks í DiscoverEU.  

DiscoverEU-1-Discover EU er verkefni á vegum Erasmus+ þar sem 56 heppin íslensk ungmenni fá þrjátíu daga lestarpassa, auk flugmiða fram og til baka í upphafi og enda ferðar. Nú þegar hafa yfir 350 ungmenni frá Íslandi ferðast á vegum DiscoverEU. 

Markmið happdrættisins er að gera 18 ára ungmennum kleift að upplifa Evrópu og gefa þeim færi á að kynnast menningararfleið, sögu og fólki álfunnar. Í þessari umferð er happdrættið opið öllum ungmennum sem búsett eru á Íslandi (óháð þjóðerni) sem fæddust árið 2007. 

Hægt er að sækja um bæði sem einstaklingur og sem fimm manna hópur. Ef sótt er um sem hópur fá öll í hópnum passa ef hópurinn er dreginn út. 

Handhöfum ferðapassans gefst tækifæri á að taka þátt í DiscoverEU viðburðum víðs vegar um Evrópu sem eru skipulagðir af umsjónaraðilum DiscoverEU í hverju landi. Landskrifstofa Erasmus+ á Íslandi gegnir því hlutverki gagnvart þeim ferðalöngum sem hingað koma til lands.  

Happdrættið er opið til 11:00 um morguninn 13. nóvember. Ferðatímabilið er frá 1. mars 2026 til loka maí 2027.

Nánari upplýsingar  









Þetta vefsvæði byggir á Eplica