Meira en milljarði króna veitt til náms og þjálfunar á vegum Erasmus+

24.5.2023

Það má með sanni segja að skólar og samtök séu í ferðahugleiðingum þetta árið. Yfir hundrað umsóknir fyrir hátt í fimm þúsund ferðir til náms og þjálfunar bárust fyrir umsóknarfrestinn í febrúar og nú hefur verið tilkynnt um þær sem hljóta brautargengi. Styrkirnir nema 7,5 milljónum evra, sem jafngildir 1,1 milljörðum íslenskra króna. 

Stærstur hluti fjármagnsins rennur til háskóla, sem í ár hljóta 3,5 milljónir evra til að fjármagna stúdenta- og starfsmannaskipti til landa innan Evrópu. Allir háskólar landsins taka þátt í verkefnum af þessu tagi. Auk þess voru styrkir að upphæð 730.000 evrum veittir háskólum úr svokallaðri alþjóðavídd, sem gerir þeim kleift að senda og taka á móti nemendum og starfsfólki til og frá samstarfslöndum um heim allan.

Í æskulýðshluta var eftirspurn eftir styrkjum í febrúar meiri en allt árið á undan, og þó er þetta aðeins fyrsti umsóknarfrestur af þremur. Unnt var að styrkja tíu ungmennaskiptaverkefni og tvö verkefni um nám og þjálfun æskulýðsstarfsfólks auk eins þátttökuverkefnis. Styrkirnir nema alls 600.000 evrum.

Í starfsmenntahluta voru umsækjendur með svokallaða Erasmus+ aðild áberandi. 15 umsóknir bárust frá þeim og voru allar styrktar um samtals 1,6 milljón evra. Aðildin vottar að umsækjandi hafi getu til að framkvæma náms- og þjálfunarverkefni með reglulegum hætti og hafi innleitt alþjóðastarf í starfsemi sína. Þar að auki var 19.000 evrum veitt til eins skammtímaverkefnis.

Í flokki leik-, grunn- og framhaldsskóla bar einnig á miklum áhuga frá skólum með Erasmus+ aðild, en alls sóttu 29 slíkir um styrki til náms og þjálfunar og fengu úthlutað um 1,2 milljónum evra. Þar að auki sóttu tíu skólar án aðildar um styrki fyrir skammtímaverkefni, borið saman við fjóra í fyrra. 155.000 evrum var úthlutað til þeirra.

Í fullorðinsfræðslu var eftirspurn frá umsækjendum með aðild einnig mikil. Þeir sendu inn sjö umsóknir sem hlutu styrk að upphæð 200.000 evrum og auk þess voru fjögur skammtímaverkefni styrkt um 130.000 evrur.

Í febrúar var einnig fyrsti umsóknarfrestur um styrki til íþróttasamtaka sem ætlað er að veita starfsfólki tækifæri til náms og þjálfunar erlendis sem nýtist í grasrótarstarfi. Ein umsókn var samþykkt og hlaut styrk að upphæð 10.000 evrum.

Það er starfsfólki Landskrifstofu mikið gleðiefni að skólar og samtök landsins sýni svo mikinn áhuga á tækifærum til náms og þjálfunar sem þessar tölur sýna. Ferðir fólks á öllum aldri og í öllum geirum mennta- og æskulýðsmála eykur færni fólks á ólíkum sviðum, bæði persónulega, faglega og samfélagslega. Árið 2023 er einmitt tileinkað færni á Evrópuvísu og því einkar vel við hæfi að Erasmus+ styrkir til náms og þjálfunar séu útbreiddir og vel nýttir.

Nánar um úthlutanir úr Erasmus+

Þetta vefsvæði byggir á Eplica