Fyrsta landsþing Erasmus Student Network á Íslandi (ESN-Iceland) hófst með opnum viðburði 31. október í Eddu í Háskóla Íslands í samstarfi við Landskrifstofu Erasmus+. Viðburðurinn tókst vel og einkenndist af opnum og lifandi umræðum um hlutverk samtakanna og hugmyndum um hvernig þau geta styrkt alþjóðlegt samfélag háskólanema á Íslandi.
Steve Anaya, fyrrum forseti ESN-Iceland, hóf viðburðinn með kynningu á þeirri vegferð sem samtökin hafa verið í á síðastliðnum árum og leiddi til þess að þau voru formlega samþykkt sem fullgildur meðlimur Erasmus Student Network (ESN) fyrr á árinu. Steve sagði frá markmiðum hreyfingarinnar sem er að vera fulltrúi alþjóðlegra nema og skapa tækifæri fyrir einstaklinga til að þróa menningarlegan skilning sinn og færni í gegnum fjölbreytta viðburði og verkefni. Lykilgildi samtakanna er „nemendur að hjálpa nemendum“ (e. students helping students). Markmið ESN-Iceland fyrir næsta ár er að festa samtökin í sessi hérlendis svo mögulegt sé að efla og útvíkka samstarfið á komandi árum.
ESN hefur haft djúpstæð áhrif á líf ungs fólks víða og skapað stærsta samfélag nemenda í Evrópu sem kemur reglulega saman til að læra af hvert öðru og vekja athygli á málefnum alþjóðlegra nemenda á evrópskum vettvangi. Steve sýndi þátttakendum myndbönd til að veita innsýn í þetta kraftmikla samfélag nemenda sem er starfrækt í 45 löndum, meðal annars myndband frá árlegri ráðstefnu samtakanna í Ancona á Ítalíu fyrr á þessu ári sem bar yfirskriftina: "Empowering Youth as the Changemakers of Society": Erasmus Generation Meeting Ancona 2025 | Official Aftermovie
Í umræðum með þátttakendum kom fram að margir erlendir nemar á Íslandi upplifa félagslega einangrun og að ESN-Iceland hafi reynst mörgum afar mikilvægur stuðningur. Ein af þeim sem deildu reynslu sinni af því að flytja til Íslands var Anamarija Veic, nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands og núverandi forseti ESN-Iceland. Hún sagði að í gegnum opið hugarfar og virka þátttöku í félagsstarfi, meðal annars ESN-Iceland, hafi gengið betur að aðlagast íslensku samfélagi og einnig að mynda félagsleg tengsl við háskólasamfélagið. Hún hvatti þátttakendur til að nýta sér tækifærin sem ESN-Iceland skapar til að mynda félagsleg tengsl og jafnframt fá aðstoð við að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að aðlagast nýju umhverfi.
Einnig kom fram í umræðum að íslenskir nemendur taka sjaldan þátt í starfi ESN sem veldur því að erlendir nemar kynnast sjaldan íslenskum nemendum. Þetta kemur niður á báðum hópum sem verða af tækifærum til að víkka sjóndeildarhring sinn og mynda íslenskt og alþjóðlegt tengslanet samhliða námi sínu hérlendis. Þátttakendur töldu líklegt að einn áhrifaþáttur sé að mörg telja ESN einungis ætlað skiptinemum og vita ekki að öll eru velkomin að taka þátt í sjálfboðaliðastörfum, verkefnum og viðburðum samtakanna. Því sé brýnt að efla meðvitund um samtökin meðal allra háskólanema á Íslandi og ávinning af þátttöku í þeim fyrir persónulega og faglega þróun.
Fulltrúar Landskrifstofu Erasmus+ greindu frá því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins legði mikla áherslu á að Erasmus+ verkefni stuðli að virkri samfélagslegri og lýðræðislegri þátttöku háskólanema og inngildingu. Háskólar eru hvattir til að nýta samstarf við ESN til að ná þeim markmiðum og skapa frekari hvata fyrir íslenska nemendur til að taka virkan þátt í ESN-Iceland og tengsl við samfélag alþjóðlegra nema hérlendis. Þá kynntu fulltrúar Landskrifstofu styrki sem hópar nemenda og ESN-Iceland geta sótt um fyrir verkefni til að stuðla að inngildingu erlendra nemenda og auka jákvæð áhrif af alþjóðlegu háskólasamfélagi m.a. í gegnum sjálfboðaliða- og samfélagsverkefni styrkt af European Solidarity Corps-áætluninni.
Viltu vita meira um ESN-Iceland? Fylgstu með samtökunum á ESN-Iceland instagram og ESN-Iceland facebook reikningunum.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.