Horfum fram á veginn: fyrstu Erasmus+ verkefni nýrrar áætlunar hefja göngu sína

16.9.2021

  • Uthlutunarmynd

Fyrr í sumar úthlutaði Landskrifstofa styrkjum úr Erasmus+ og European Solidarity Corps eftir fyrsta umsóknarfrest ársins. Þetta var jafnframt fyrsta úthlutun nýs tímabils í báðum áætlunum, sem nær yfir 2021-2027.

Þrátt fyrir fordæmalausa tíma í samfélaginu og þær hindranir sem heimsfaraldurinn hefur haft á alþjóðlegt samstarf barst 41 umsókn í nám og þjálfun í Erasmus+ og í sjálfboða- og samfélagsverkefni European Solidarity Corps að þessu sinni. Þar á meðal komu 18 umsóknir frá þeim sem fengu fyrr á árinu samþykkta aðild sína að Erasmus+ á sviði skóla, fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar og fóru þar af leiðandi gegnum einfaldað umsóknarferli. Umfang umsóknanna er ein birtingarmynd þeirrar framkvæmdagleði og dugnaðar sem einkennir þátttakendur í Evrópusamstarfi og skiptir sköpum bæði meðan á faraldrinum stendur og þegar honum lýkur.

Alls voru 36 umsóknir samþykktar í flokki náms og þjálfunar hjá Erasmus+ og hlutu þær samtals tæplega fjórar milljónir evra í styrk, auk einnar umsóknar úr European Solidarity Corps. Þau verkefni sem urðu fyrir valinu að þessu sinni eru fjölbreytt. Umsóknirnar bárust frá landinu öllu og frá ólíkum hópum samfélagsins svo sem skólum, sveitarfélögum, félagsmiðstöðvum og frjálsum félagasamtökum. Viðfang verkefnanna var einnig margvíslegt, allt frá þjóðsögum og lestri til matarmenningar, frá líðan barna og unglinga til umhverfisverndar. Upplýsingar um styrkhafa má finna á úthlutunarsíðunni okkar.

Vinnan við að koma nýjum áætlunum Erasmus+ og ESC inn í EES-samninginn er á lokametrunum, en henni hefur seinkað töluvert. Þetta leiðir til þess að samþykkt verkefni geta hafið göngu sína eins og til stóð en styrkgreiðslur fara ekki fram fyrr en ferlinu er að fullu lokið, að öllum líkindum í október eða nóvember.

Það verður spennandi að fylgjast með verkefnunum og óskum við styrkhöfum velgengni við framkvæmd þeirra. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica