Háskólinn á Bifröst bætist í hóp evrópskra háskólaneta

2.7.2024

Í lok júní tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um úthlutun til 14 nýrra evrópskra háskólaneta (e. European Universities alliances) úr Erasmus+ áætluninni. Eitt netanna heitir OpenEU og í því á Háskólinn á Bifröst sæti.

Það er mikið gleðiefni að fjórði íslenski háskólinn hafi bæst í hóp evrópskra háskólaneta, en Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík taka nú þegar þátt í öðrum netum. Starfsfólk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi sendir Háskólanum á Bifröst hamingjuóskir með glæsilegan árangur.

Nú hafa því verið samþykkt 64 háskólanet alls frá árinu 2020 og ná þau til 560 háskóla í 35 löndum. Samkvæmt stefnumótun Evrópusambandsins fyrir háskóla áttu 60 háskólanet að hafa hlotið styrk um mitt ár 2024 og hefur því markmiðinu verið náð. Evrópskum háskólanetum er ætlað að tengja saman háskóla í ólíkum löndum álfunnar og veita samstarfsvettvang á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Markmiðið er að þróa nýjar leiðir fyrir kerfisbundið og langvarandi samstarf sem nær bæði þvert á landamæri og námsgreinar.

Hvert háskólanet getur hlotið allt að 14,4 milljónir evra frá Erasmus+ á fjögurra ára tímabili. Erasmus+ mun veita rúmlega milljarði evra til þeirra á tímabilinu 2021-2027 og auk þess mun fjármagn frá Horizon Europe renna til rannsóknarsamstarfs innan netanna.

Fréttatilkynning Evrópusambandsins um veitingu styrkja árið 2024

Fréttatilkynning Háskólans á Bifröst um háskólanetið

Listi yfir styrkt háskólanet 2024

Nánar um evrópsk háskólanet

Evrópskur stefnurammi fyrir háskólastigið

Áætlun um evrópska háskólagráðu

Upplýsingablað

Þetta vefsvæði byggir á Eplica