Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hlýtur Evrópumerkið

16.11.2023

  • RAN01227

Þann 14. nóvember fór fram evrópsk verðlaunaafhending fyrir nýsköpun í menntun. Þar veitti forstöðumaður Rannís, Ágúst H. Ingþórsson Evrópumerkið fyrir hönd mennta- og barnamálaráðherra, en það er viðurkenning fyrir nýbreytni í tungumálakennslu. 

Fulltrúar verkefnisins Gefum íslensku séns
- íslenskuvænt samfélag ásamt verkefnastjóra
Evrópumerkisins hjá Rannís
og forstöðumanni Rannís.

Mennta- og barnamálaráðuneytið tekur þátt í samstarfi á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins undir formerkjum Evrópumerkisins í tungumálum (e. European Language Label). Merkið, sem er veitt annað hvert ár hér á landi, er viðurkenning fyrir nýsköpun í tungumálakennslu eða -námi og er þannig gæðastimpill á verkefni sem þegar hefur verið unnið. Evrópumerkið er þáttur í Erasmus+ áætluninni og er framkvæmd þess á Íslandi í höndum Rannís.

Dómnefndin komst að þeirri niðurstöðu að verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag frá Háskólasetrinu á Vestfjörðum myndi hljóta viðurkenninguna í ár og verðlaunafé að upphæð 500.000 kr. Dómnefnd var skipuð fulltrúum frá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Samtökum tungumálakennara á Íslandi (STÍL). 

Verkefnið Gefum íslensku séns hefur það markmið að auka vitund fólks í nærumhverfinu um hvað máltileinkun innflytjenda á íslensku felur í sér. Leitast er við að virkja fólk í nærsamfélaginu til að sinna hlutverki sem svokallaður almannakennari, það er manneskja sem er tilbúin að veita fólki af erlendum uppruna liðsinni sitt við að tileinka sér íslensku. Þetta er gert með því að fá fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga til samvinnu í tengslum við íslenskunámskeið.

Í umsögn dómnefndar kom meðal annars fram að verkefnið væri fyrirmyndarverkefni og félli vel að forgangsatriðum Evrópumerkisins 2023 en þau voru meðal annars að veita innflytjendum stuðning við að læra tungumál heimamanna til þess að tryggja félagslega samheldni og að allt fólk hafi aðgang að þeim björgum sem nauðsynlegar eru til þess að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Í tilefni af viðurkenningunni var útbúið stutt kynningarmyndband um verkefnið sem horfa má á hér fyrir neðan.

Nánar um Evrópumerkið

Evrópumerkinu er ætlað að beina athygli að frumlegum og árangursríkum verkefnum í kennslu og námi erlendra tungumála og hvetja til þess að aðferðir sem þar er beitt nýtist sem flestum. Lögð er áhersla á að verkefnin feli í sér nýbreytni sem aðrir geti lært af og að þau séu liður í símenntun einstaklingsins.

Veiting Evrópumerkisins er í samræmi við stefnumörkun Hvítbókar Evrópusambandsins um menntamál (e. Teaching and Learning, Towards the Learning Society) þar sem áhersla er meðal annars lögð á mikilvægi tungumálakunnáttu fyrir íbúa í löndum Evrópusambandsins og færni í þremur tungumálum sett fram sem markmið.

Nánari upplýsingar má finna á íslenskri síðu Evrópumerkisins .









Þetta vefsvæði byggir á Eplica