Fundur tengslanets um raunfærnimat á háskólastigi haldinn í Háskólanum á Akureyri

9.12.2025

Erasmus+ í samstarfi við Euroguidance og EPALE hélt nýverið, í samstarfi við íslenska tengslanetið um raunfærnimat á háskólastigi, fund í Háskólanum á Akureyri. Á fundinum var fjallað um stöðu raunfærnimats hjá háskólunum, þróun verklags og næstu skref í sameiginlegu starfi netsins.

Erasmus+ hélt nýverið, í samstarfi Euroguidance og EPALE, fund fyrir tengslanetið um raunfærnimat á háskólastigi, í Háskólanum á Akureyri. Tengslanetið hefur verið starfandi frá 2023 og sameinar sérfræðinga og starfsfólk háskóla sem koma að innleiðingu raunfærnimats. Þátttaka EPALE og Euroguidance gaf þátttakendum fundsins einnig rými til að skoða málefnið í ljósi evrópskra áherslna á hæfni og færni.

EPALE, vefgátt fyrir fullorðinsfræðslu í Evrópu, styður fagfólk í fullorðinsfræðslu þar á meðal þegar kemur að raunfærnimati og þróun nýrra námsleiða. Euroguidance, Evrópumiðstöð náms- og starfsráðgjafar, vinnur að því að efla gæði náms- og starfsráðgjafar og styður ráðgjafa í sínum störfum með áherslu á að hvetja fólk til að sækja um nám og störf í Evrópu. Þessi verkefni tengjast því starfi sem fram fer innan háskólanna við að þróa ferla við raunfærnimat á háskólastigi, en jafnframt er starfið á Íslandi eitthvað sem við getum horft til að miðla til annarra landa innan samstarfsins.

Fundurinn hófst á ávarpi frá menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu, þar sem áréttuð var um aukna áherslu á raunfærnimat, tengingu háskólastigsins við atvinnulíf og þær breytingar sem fram undan eru í tengslum við örnám og sveigjanlegar námsleiðir.

Fulltrúar háskólanna fóru yfir stöðu innleiðingar á raunfærnimati í sínum stofnunum, meðal annars í tengslum við sameiginlegt RFM-verkefni sem hefur stutt við þróun samræmdra ferla. Þar kom fram mikilvægi sameiginlegs skilnings, skýrra verklags og áframhaldandi samráðs milli skólanna.

Á fundinum voru einnig flutt erindi um framkvæmd raunfærnimats, valdeflandi nálgun og sérstöðu mats í skapandi greinum. Rætt var um reynslu, áskoranir og tækifæri, og lögð áhersla á að umsækjendur upplifi ferlið sem faglegt og gagnsætt.

Að lokum var rætt um framhaldið í starfi tengslanetsins. Hópurinn samþykkti að halda áfram að hittast tvisvar á ári, þar af einu sinni á staðfundi, og er næsti fundur áætlaður í mars 2026.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica