Fulltrúar íslenskra háskóla á tengslaráðstefnu í Bonn um evrópsk háskólanet

6.11.2025

Dagana 21. - 22. október tóku Þóra Einarsdóttir, aðstoðarrektor náms og kennslu við Listaháskóla Íslands, og Hildur Friðriksdóttir, alþjóðafulltrúi Háskólans á Akureyri, þátt í tengslaráðstefnunni Putting it into practice sem haldin var í Bonn í Þýskalandi og fjallaði um áhrif evrópskra háskólaneta.

Ráðstefnan, sem Landskrifstofur Erasmus+ í Þýskalandi, Austurríki, Ungverjalandi og Noregi stóðu að, hafði það að markmiði að miðla reynslu og árangri evrópskra háskólaneta (European University alliances) til evrópskra háskóla sem ekki eru hluti af slíkum samstarfsnetum. Um 180 fulltrúar frá háskólum, háskólanetum, landskrifstofum, ráðuneytum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tóku þátt í umræðum um framtíð samvinnu, nýsköpunar og þróunar sameiginlegra námsleiða í Evrópu.

Hvorki Listaháskólinn né Háskólinn á Akureyri eru þátttakendur í háskólanetum, og ráðstefnan því kjörinn vettvangur fyrir háskólanna fyrir samtal, tengslamyndun og þátttöku í sameiginlegri stefnumótun innan evrópsks háskólasamfélags. Um 12% evrópskra háskóla og 15% nemenda eru hluti af háskólanetum. Evrópusambandið stefnir ekki að því að fjármagna fleiri evrópsk háskólanet og því ljóst að stór hluti evrópskra háskóla mun standa áfram utan háskólaneta. Helsta áskorunin í dag er því að finna leiðir til að miðla reynslu og niðurstöðum háskólanetanna til þeirra sem ekki eru þátttakendur þannig að allir njóti góðs af árangri þeirra.

Jákvæð áhrif háskólanetanna eru fjölmörg. Þau draga úr spekileka (e. brain drain) með því að gera nemendum kleift að fá hágæða, alþjóðlega menntun og reynslu innan heimaháskóla sinna. Kröfur um landfræðilega dreifingu hafa jafnframt eflt samstarf milli háskóla í Vestur- og Austur-Evrópu. Háskólanetin hafa einnig reynst öflugur drifkraftur kennsluþróunar, sérstaklega á sviði stafrænna námsúrræða, örnáms (e. micro-credentials) og nýrra leiða til að efla hreyfanleika nemanda. Þá má greina skýrar áherslur innan netanna á sjálfbærar lausnir, inngildingu, velferð, nýsköpun og skapandi hugsun til að takast á við samfélagslegar áskoranir.

Evrópsk háskólanet hafa stuðlað að meiri samvinnu milli háskóla og samræmingu verkferla innan Evrópu. Háskólanetin sem hafa verið starfrækt lengst lýstu því þó að það taki allt að sex ár að ná fullri virkni og jafnvægi í samstarfinu. Þróun sameiginlegra námsleiða (e. joint degrees/programmes) hefur til að mynda gengið hægar en vonir stóðu til, aðallega vegna flækjustigs vegna mismunandi matskerfa, lagaramma og fjármögnunar milli landa. Algengt er að háskólar reyni að komast hjá þessum hindrunum með því að tryggja að a.m.k. 30 ECTS-einingar séu metnar á milli samstarfsskóla eða hækka hlutfall valgreina í námsgráðum til þess að auka sveigjanleika og greiða fyrir mati á námskeiðum úr öðrum skólum.

Aðrar áskoranir sem voru ræddar voru um álag á starfsfólk í stjórnsýslu kennslumála og alþjóðastarfs sem ber ábyrgð á því að þróa og samræma ferla, og bent á að mörg háskólanet hafi í raun skapað nýtt stjórnsýslulag með verkefnastjórum til að uppfylla kröfur netsins. Þá geta stærri net verið óskilvirkari og samvinna innan þeirra verið í reynd milli fárra skóla sem ná vel saman – svokölluð „net innan netsins“. Því var talið líklegt að háskólanet verði í framtíðinni fámennari og markvissari og meiri áhersla verði lögð á að miðla starfsháttum þeirra til alls háskólasamfélagsins. Jafnframt verða háskólanetin að forðast það að þróast í einhvers konar „elítuhópa“, sem myndi ganga gegn hugmyndafræði Erasmus+ um Evrópu sem eitt sameinað samstarfsnet allra háskóla, stórra jafnt sem smárra.

Helsti lærdómurinn fyrir HA og Listaháskólann er sá að þótt skólarnir séu ekki hluti af háskólaneti megi nýta margar hugmyndir og reynslu sem þar koma fram. Meðal annars með því að efla markvisst tengslanet við ákveðna samstarfsskóla, þróa sameiginleg námskeið eða námsleiðir þar sem mat og viðurkenning eru tryggð, styðja betur við kennara og starfsmenn sem leiða alþjóðleg verkefni og miðla reynslu innan háskólans til að auka þátttöku fleiri sviða. Þá sýnir reynslan að sjálfbær fjármögnun og skýr stefna í alþjóðasamstarfi eru lykilatriði til lengri tíma.

Þátttaka í ráðstefnunni var afar gagnleg og sýndi fram á að evrópsku háskólanetin hafa haft jákvæð áhrif á þróun háskólastarfs í Evrópu. Meginboðskapurinn var skýr: Mikilvægt er að miðla reynslu og góðum starfsháttum milli stofnana svo öll háskólasamfélög, stór og smá, geti notið ávinningsins – óháð því hvort þau séu hluti af formlegu samstarfsneti eða ekki.

Nánari upplýsingar um evrópsk háskólanet









Þetta vefsvæði byggir á Eplica