Frábær eftirspurn í nám og þjálfun í Evrópu á árinu

9.5.2022

Ferðatöskur landsmanna hafa ef til vill staðið óhreyfðar í nokkuð langan tíma en nú má með sanni segja að hugurinn leiti út fyrir landsteinana. Samtök og stofnanir á sviði æskulýðs- og menntamála hafa undanfarna mánuði verið að þróa metnaðarfull verkefni til náms og þjálfunar á erlendri grundu. Fyrstu úthlutanir ársins lofa góðu því Landskrifstofa hefur veitt tæplega 4,7 milljónir evra í Erasmus+ styrki það sem af er ári. 

Um er að ræða fjölbreytt verkefni sem miða að því að efla færni fólks og tengslanet, víkka sjóndeildarhringinn og auka tækifæri til atvinnu og virkrar þátttöku í samfélaginu. Þau gera þátttakendum kleift að taka þátt í starfsmannaskiptum, ungmennaskiptum, skiptinámi, starfsþjálfun og starfsspeglun, svo nokkur dæmi séu nefnd. Að dvelja í útlöndum á vegum Erasmus+ getur breytt lífi fólks til hins betra – og hvorki meira né minna en 97% þátttakenda segjast vera ánægð með að hafa gripið tækifærið samkvæmt lokaskýrslum þeirra. Í ár rennur stór hluti styrkjanna til þeirra sem hafa sótt um aðild að Erasmus+ en það er góð leið til að einfalda alþjóðastarf og gera það markvissara.

Á síðunni okkar um úthlutanir má finna lista yfir styrkhafana og heiti umsóknanna. Starfsfólk Landskrifstofu óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn og hlakkar til að fylgjast með spennandi áformum verða að veruleika. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica