Dagana 21.-23. maí hélt hópur alþjóðafulltrúa frá Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri, ásamt starfsmanni háskólateymis Landskrifstofu Erasmus+, á lokaráðstefnu Inclusion ACAdemy í Zagreb. Ráðstefnan var haldin af ACA (Academic Cooperation Assocation), í samstarfi við Landskrifstofur þátttökulandanna, og var lokaviðburður röð námskeiða um inngildingu sem hafði staðið yfir frá upphafi árs 2023.
„Ráðstefnan var vel skipulögð og samanstóð af vinnustofum, pallborðsumræðum og erindum. Upphafserindi ráðstefnunnar var flutt af Roxana Chiappa (Universidad de Tarapacá) yfir Zoom en þrátt fyrir að vera ekki viðstödd í persónu þá var erindið mjög áhrifaríkt. Ciappa fjallaði um efni sem hafa verið mér hugleikið, þá sérstaklega tilhneigingu okkar til að einblína á tölfræði og töluleg markmið frekar en mannvirðingu og ábyrgum ferlum við inngildingu. Erindi Ciappa snerti einnig á atriðum sem hafa ekki verið mikið í umræðu á Íslandi, eins og áhrifa nýlendustefnu og kapítalisma á núverandi háskólakerfi og hvernig það markvisst breiðir yfir óréttlæti rasisma og myrkari hlið vestrænnar menningarsögu”. Nanna Teitsdóttir frá Háskóla Íslands.
Í kjölfarið tók við pallborðsumræða þar sem þátttakendurnir í pallborðsumræðunni fengu tækifæri til að segja frá sínum persónulegum reynslusögum og ræða inngildingu út frá þeirra stöðu og reynsluheimi. Þátttakendur pallborðsins voru með ólíkan bakgrunn og þar á meðal var Rúnar Gunnarsson, forstöðumaður alþjóðaskrifstofu Háskólans á Akureyri, en hann var fenginn til að segja frá sínu sjónarhorni verandi af landsbyggðinni í einu af fámennasta og afskekktasta landi Evrópu.
Á ráðstefnunni gafst góður tími fyrir vinnustofur þar sem þátttakendum var skipt upp í hópa og voru hin ýmsu mál og spurningar sem varða inngildingu ræddar. Fram að ráðstefnunni höfðu þátttakendur fengið tækifæri á vefstofunum til að ræða hinar ýmsu áskoranir tengdar inngildingu og var nú lögð áhersla á hvað háskólarnir sjálfir gætu gert til að auka inngildingu í stúdentaskiptum. Fyrst um sinn voru þátttakendum raðað saman handahófskennt en á seinustu vinnustofunni voru samlandar raðaðir saman til að draga saman umræðuna og ræða næstu skref. Hildur Friðriksdóttir og Rúnar Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri sögðu frá:
„Ráðstefnan endaði svo með því að þátttakendum var skipt upp í umræðuhópa eftir þjóðerni þar sem hver hópur ræddi sértæk málefni með fulltrúum sinna landsskrifstofa. Sú umræða var ekki síður gagnleg þar sem hægt var að viðra ýmsar áskoranir sem bundnar eru við íslenskar aðstæður. Samfélagslegar hindranir eru gjarnan menningarbundnar og því er mikilvægt að fá tækifæri til að bera saman bækur við innlenda kollega ekki síður en erlenda. Þá er einnig mikilvægt að fá tækifæri til að viðra málefnið við fulltrúa Rannís og kortleggja í sameiningu helstu áskoranir og finna úrlausnir við þeim“.
„Að tileinka sér
inngildandi hugarfar er viðvarandi ferli sem krefst þess að maður sé stöðugt
meðvitaður um þær aðstæður sem mögulega gætu verið útilokandi. Og þó svo að
áhersla Erasmus áætlunarinnar á inngildingu feli fyrst og fremst í sér skuldbindingu
um að leita til að tryggja jafnan aðgang og tækifæri til skiptináms þá er
ánægjulegt frá því að segja að þær áherslur hafa jafnframt virkað sem hvatning
til þess að huga almennt betur að málaflokknum innan alls háskólasamfélagsins
hér í HA“.
Myndir: Ivan Mijić, AMPEU
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.
jan., feb., mar., apr., maí, jún., júl., ágú., sep., okt., nóv., des.