Að efla inngildingu í Erasmus+ verkefnum

19.5.2025

Í síðustu viku stóð Landskrifstofa Erasmus+ fyrir tveimur vinnustofum um inngildingu í Erasmus+ verkefnum. Markmið vinnustofanna var að hvetja styrkþega Erasmus+ til að íhuga hvernig þau geta stuðlað að aukinni inngildingu – ekki aðeins innan verkefnanna heldur einnig sem hluta af sinni daglegu starfsemi.

Á fyrri vinnustofunni, sem haldin var í Reykjavík, var lögð sérstök áhersla á að skapa öruggt og uppbyggilegt rými þar sem þátttakendur gátu rætt áskoranir og tækifæri tengd inngildingu. Á vinnustofuna mættu sérfræðingar frá Rauða krossinum, R.E.C. Arts, Samtökunum 78 og Þroskahjálp. Þau deildu dýrmætri þekkingu á stöðu og þörfum fólks úr jaðarsettum hópum og veittu þátttakendum innsýn í hvernig hægt er að vinna á inngildandi hátt með ólíkum hópum fólks.

Auk sérfræðinganna deildu styrkþegarnir sinni reynslu og góðum leiðum til að vinna með inngildingu og unnu þannig öll saman að því að skapa vettvang fyrir spurningar, vangaveltur og tengslamyndun. Þátttakendur ræddu meðal annars aðgengi að upplýsingum, hlutverk tungumáls, fjölbreytileika innan þátttakendahópa og hvernig hægt er að hanna verkefni frá grunni með inngildingu í huga.

Seinni vinnustofan fór fram rafrænt og var sérstaklega ætluð þátttakendum á landsbyggðinni. Þar fengu þátttakendur tækifæri til að nýta hugmyndir úr fyrri vinnustofu sem kveikjur fyrir frekari umræðu og tengslamyndun.

Það kom glöggt fram í báðum vinnustofum að inngilding er ekki verkefni sem á sér upphaf og endi, það þarf að þróa aðferðir í takt við þá ólíku hópa sem unnið er með. Með því að skapa rými til að læra af öðrum, hlusta og prófa nýjar nálganir, styrkjum við gæði Erasmus+ verkefna og hvetjum til þátttöku breiðari hóps í samfélaginu.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica