Ábyrgð okkar allra að taka afstöðu gegn fordómum

28.11.2022

Inngildingarfulltrúi Landskrifstofu Erasmus+ og European Solidarity Corps (ESC) á Íslandi hélt nýlega erindi á vegum

SALTO-miðstöðvaðinnar um inngildingu og fjölbreytileika

Inngilding, sem er eitt af forgangsatriðum í Erasmus+ og ESC, snýst meðal annars um að vekja athygli á þeim fordómum sem eru við lýði í samfélaginu okkar og taka afstöðu gegn þeim, hvort sem þeir eru á grundvelli kyns, kynþáttar, uppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar viðkomandi. Í sumum tilfellum skarast þessi atriði og fordómarnir beinast að fleiri en einum þætti. Hlutverk áætlananna í þessu samhengi er að styðja við baráttuna gegn fordómum og félagslegu ranglæti með því að styrkja verkefni sem stuðla að inngildingu og efla gagnrýna hugsun og samstöðu í samfélaginu. Þetta á við um alla verkefnaflokka og alla markhópa áætlananna. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að áætlanirnar séu sjálfar inngildandi og að sérstaklega sé ýtt undir þátttöku þeirra sem fordómar beinast gegn.

Sem inngildingarfulltrúi Landskrifstofu Erasmus+ og ESC á Íslandi fylgir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad því eftir að í starfsemi skrifstofunnar séu inngilding og fjölbreytileiki í hávegum höfð. Miriam heldur reglulega erindi um fordóma og afleiðingar þeirra þar sem hún byggir á fræðikenningum ásamt eigin reynslu af því að vera með blandaðan bakgrunn. Í erindinu sem Miriam hélt fyrir SALTO fjallar hún um „að stunda and-rasisma“ – að hvetja fólk til að vera vakandi fyrir fordómum og berjast gegn þeim í hvívetna. Hún bendir á að fordómar hafi áhrif á líf okkar allra, því sumu fólki veita þeir forréttindi á meðan annað fólk upplifir útilokun vegna þeirra. Það sé því á ábyrgð alls samfélagsins að taka virkan þátt í baráttunni. Við mælum með því að þau sem misstu af erindi Miriam horfi á upptöku af því hér fyrir neðan og lesi grein eftir hana sem birtist í kjölfarið.

ID Talks Practising Anti Racism / Miriam Petra Awad

Þetta vefsvæði byggir á Eplica