Sívaxandi eftirspurn í Erasmus+

samkvæmt nýrri skýrslu Evrópusambandsins

28.1.2019

Erasmus+ nýtur sívaxandi vinsælda meðal Evrópubúa, samkvæmt nýrri skýrslu sem Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út um framkvæmd áætlunarinnar á árinu 2017. Fjármagnið fer hækkandi með hverju ári og því var hægt að gefa hátt í 800.000 manns tækifæri til að sinna námi, þjálfun og sjálfboðastörfum í útlöndum árið 2017, eða 10% fleirum en árið áður. Stofnanir og samtök í Evrópu njóta einnig góðs af Erasmus+ samstarfsverkefnum, en 22.400 verkefni voru styrkt þetta árið. 

03-erasmus-in-numbers-2017

Íslendingar létu ekki sitt eftir liggja árið 2017 frekar en önnur ár. Yfir 600 milljónir ISK féllu í hlut íslenskra stofnana og samtaka, sem gerðu um 2.300 einstaklingum kleift að læra, kenna, sinna sjálfboðastörfum eða þjálfun í öðru landi. Á sama tíma hlutu 20 íslensk verkefni styrk úr Erasmus+ fyrir næstum 400 milljónir ISK. Þessi verkefni leiða saman 88 stofnanir og samtök í Evrópu og víðar og styðja við alþjóðavæðingu og nýsköpun í íslenska mennta- og æskulýðsgeiranum.

Erasmus+ á rætur sínar að rekja til ársins 1987, en mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrstu skiptinemarnir hófu ævintýri sín í erlendum háskólum. Nú sameinar áætlunin undir einum hatti allar áætlanir Evrópusambandsins á sviði menntunar, æskulýðsmála og íþrótta og leggur áherslu á að veita sem breiðustum hópi fólks tækifæri til að efla færni sína og þekkingu með ferðum og fjölþjóðlegu samstarfi. Umsýslan fyrir þátttakendur hefur einnig breyst mikið og aukin áhersla er lögð á stafræn tæki og tól til að gera reynsluna notendavænni og áhrifameiri. Nú hafa 55.000 manns sótt sér Erasmus+ smáforritið og fleiri en 380.000 hafa nýtt sér Erasmus+ Online Linguistic Support, sem veitir nemendum og sjálfboðaliðum stuðning við að auka tungumálakunnáttu áður en dvölin hefst og meðan á henni stendur. 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica